Birna Ásbjörnsdóttir
— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þekktasta hlutverk ristilsins er meðal annars að frásoga næringarefni og vatn, en það sem færri vita er að í ristlinum er stór hluti ónæmiskerfis líkamans.
Birna Ásbjörnsdóttir er lærður hómópati frá College of Practical Homeopathy í London og hefur starfað þar sem hómópati. Birna er einnig lærður næringarráðgjafi frá College of Natural Nutrition, London, og ráðgjafi eða Biographical Counsellor frá The Biography and Social Development Trust, Englandi. Hún hefur einnig lært svæðanudd og ristilhreinsun og var beðin um að útskýra mikilvægi ristilsins fyrir heilsu og vellíðan.
Hlutverk ristilsins er mikilvægt eins og flestir vita, en hversu mikilvægu hlutverki hann gegnir þegar kemur að heilbrigði einstaklingsins vita færri. Heilbrigður og vel starfandi ristill gegnir þar lykilhlutverki. Ristillinn er síðasti hluti meltingarfæranna. Hann er um einn og hálfur metri á lengd en yfirborð ristils og smáþarma er um 200 fermetrar eða 150 sinnum yfirborð húðarinnar! Þekktasta hlutverk ristilsins er að frásoga næringarefni og vatn, framleiðsla ákveðinna vítamína og að þjappa saman ýmsum efnum og úrgangi sem við losum okkur svo við í formi hægða. En það sem færri vita er að í ristlinum er stór hluti ónæmiskerfis okkar. Þar spilar bakteríurflóran mikilvægt hlutverk, þ.e. sú flóra sem á að vera í ristlinum og viðheldur heilbrigði hans. Ef þessi bakteríuflóra er ekki í jafnvægi er hætta á allskonar ójafnvægi í starfssemi líkamans. Sem dæmi má nefna að meiri hætta er á alls kyns sýkingum, ss. candida, salmonella eða e. colii, kólesterólójafnvægi í æðakerfi líkamans, fitusýruójafnvægi eða skorti, vöntun eða skorti á K-vítamíni, B12-, B1- og B2-vítamínum, sem hafa með orkuframleiðslu að gera, og fleira mætti telja. Það sem hefur áhrif á heilbrigði flóru ristilsins er fyrst og fremst mataræðið. Það getum við byggt upp og viðhaldið góðri flóru og þar með heilbrigði ristils og almennri heilsu, eða við getum komið ójafnvægi á með óhollu mataræði og þá veikjum við ónæmiskerfi líkamans og varnir. Einnig hefur öll streita áhrif á ristilinn, sem og lyf. Þá eru sýklalyf verst en einnig ýmis önnur lyf, s.s. gigtarlyf.
Þáttur fæðunnar
Fæðan sem hefur verst áhrif á ristilinn er hvítur sykur, unnið kornmeti, s.s. hvítt hveiti og hvít hrísgrjón, unnin fita, mikið prótein, mjólkurafurðir í miklu magni, kaffi og áfengi. Fæða sem byggir upp og viðheldur heilsu ristils er trefjarík fæða s.s. ávextir og grænmeti, heil korn, hnetur og fræ, góðar olíur og náttúrulega gerjuð fæða s.s. súrkál. Mikilvægt er að drekka nægilegt magn af vatni og taka mjólkursýrugerla í formi lactobacilli eða bifidobacteria. Allt þetta hefur uppbyggjandi áhrif á líkamann í heild sinni og styrkir okkur og ver fyrir alls kyns veikleikum. Það eru til dæmis mjög sterk tengsl milli of mikils magns kólesteróls í blóði og lítillar neyslu trefja. Eins hefur það komið fram í rannsóknum að heilbrigði flóru í ristli hefur áhrif á hormónaframleiðslu, þ.e. estrogen, bæði hjá konum og körlum. Í dag þegar fleiri og fleiri finna fyrir viðkvæmni eða óþoli fyrir hinum ýmsu fæðutegundum er nauðsynlegt að muna eftir mikilvægi ristilsins og starfsemi hans. Ef slímhúðin sinnir sínu hlutverki ekki sem skyldi er ekki von á góðu. Eins og áður sagði er hlutverk hennar að viðhalda heilbrigðri flóru og þar með styrkja varnir okkar gegn öllu sem ekki gerir okkur gott. Ef þessar varnir eru ekki uppi fáum við einkenni, til dæmis óþolseinkenni. Með því að styrkja og hlúa að ristlinum og jafnvægi bakteríuflórunnar minnkum við líkur á óþoli. Við neyslu á unnum matvörum, s.s. hvítu hveiti og hvítum sykri og mjólkurvörum, safnast upp úrgangur í ristli sem sest á ristilvegginn og myndar með tíð og tíma eins konar skán inn á hann. Þessi húð getur orðið ansi þykk og dregur úr frásogi á næringu og vatni. Þetta hefur augljóslega áhrif á heilsufar einstaklingsins og líðan. Í þessari skán þrífast síðan bakteríur og veirur og jafnvel önnur sníkjudýr sem framleiða eiturefni. Þannig verður til vítahringur sem verður ekki rofinn nema með breyttu mataræði og breyttum lífsstíl. Oft þarf að nota jurtir eða hómópatalyf til að hjálpa til við úthreinsun slíkra óhreininda. Föstur og jafnvel stólpípur eru notaðar til að ná enn betri árangri, en það ætti bara að gera með leiðsögn þeirra sem hafa menntað sig í slíkum fræðum. Undirrituð hefur áralanga reynslu af ofangreindu efni. Það er hægt að ná mjög góðum árangri með ansi margt ef vandamál eru skoðuð með allt þetta í huga. Með því að breyta mataræði, hreinsa líkamann og lifa heilbrigðu líferni er hægt að ná árangri í flestum tilfellum, og í mörgum tilfellum mjög góðum árangri. Allt snýst þetta um að taka ábyrgð á eigin líkama, á eigin heilsu. Það ættu allir að gera, segir Birna Ásbjörnsdóttir, næringarráðgjafi og hómópati.