Dr. Gillian McKeith ætlar að koma á óvart í næstu sjónvarpsþáttaröð.
Dr. Gillian McKeith ætlar að koma á óvart í næstu sjónvarpsþáttaröð.
Breska dagblaðið The Sunday Times segir dr. Gillian McKeith hafa gert meira en nokkur annar til þess að vekja Breta til vitundar um heilsu sína. Gillian er reyndar líka nefnd skelfilegasti næringarþerapisti landsins, þegar út í það er farið.

Breska dagblaðið The Sunday Times segir dr. Gillian McKeith hafa gert meira en nokkur annar til þess að vekja Breta til vitundar um heilsu sína. Gillian er reyndar líka nefnd skelfilegasti næringarþerapisti landsins, þegar út í það er farið. Helga Kristín Einarsdóttir var með dr. Gillian á línunni, þar sem hún dásamaði Bláa lónið og líkti Íslendingum við náttuglur.

Dr. Gillian McKeith heimsækir fólk með hræðilegar matarvenjur, þuklar magann, grandskoðar hægðirnar og safnar vikuskammti af matarglæpum og ruslfæði á hlaðborð sem svo sannarlega fær mann til þess að missa matarlystina, í það minnsta þar til þátturinn (Þú ert það sem þú borðar) er búinn.

Dr. Gillian er við upptökur á þriðju sjónvarpsþáttaröðinni um þessar mundir og var að ljúka við nýjustu bók sína, Dr. Gillian McKeith's Ultimate Health Plan.

Titillinn hljómar dálítið endanlega, er þetta síðasta orðið?

"Það má skilja "ultimate" á margan hátt. Þetta er nýtt stig. Ef fólk hefur ekki tök á að hitta mig er þessi bók nokkuð í ætt við einkatíma. Hún á að hjálpa því til þess að ná heilbrigði; líkamlega, tilfinningalega og andlega. Margir sem leita til mín segjast hafa hollar matarvenjur þegar þeir eru spurðir, en þegar að er gætt er raunin auðvitað allt önnur. Fólk heldur matardagbók í sjö daga og geymir umbúðirnar utan af því sem það lætur ofan í sig. Ég bið það líka að horfa í spegil og spyrja sig, hvers vegna það sé í þeirri aðstöðu sem það er búið að koma sér í. Oft vill það kenna öðrum um; ég get ekki að því gert þó að ég borði svona, þetta er maturinn sem er seldur í verslunum, kærastinn minn borðar svona mat eða maki minn er ekki hrifinn af bragðinu af heilsufæði. Ég reyni að kenna fólki að hætta öllum afsökunum og losa sig við neikvæðar venjur. Það setur sér markmið með æfingum sem hjálpa því til þess að virkja getu sína smátt og smátt og einnig er 28 daga kúr með auðveldum og hollum uppskriftum. Ef viðkomandi þarf að léttast gerir hann það svo sannarlega. Einnig er kafli um hreinsun, þar sem ég kenni fólki að afeitrun og hvaða fæðutegundir koma að gagni við hana. Einnig er farið út hvernig maður á að bregðast við ef maður fer út af sporinu og hvernig er hægt að fá sér hollan millibita eða snakk. Það má líkja bókinni við heilt ferðalag, það er frá því að maður vaknar og ákveður að grípa til ráðstafana og þar til maður er búinn að læra að vera grannur fyrir lífstíð og ná hámarki góðrar heilsu. Hún er frábær, þótt ég segi sjálf frá."

Af hverju heldur fólk að það borði hollari mat en það gerir?

"Það vill ekki viðurkenna annað og þegar það fer að gaumgæfa mataræðið fær það hálfgert áfall. Fæstir vilja viðurkenna að þeir lifi nánast á draslfæði. Enginn segist heldur ekki vera andlega sinnaður eða góð manneskja. Við viljum öll trúa því að við séum betri en við erum. Hið sama gildir um mataræðið, fólk segir, já, ég borða nokkuð hollan mat yfirleitt þótt ég leyfi mér eitthvað einstaka sinnum. En ég myndi segja að flestir sem segjast borða hollan mat geri það ekki."

Vikuskammtur af óhollustu á hlaðborði dauðans er líka býsna áhrifaríkt.

"Svo sannarlega og ég vildi reyna að líkja eftir því í bókinni, með því að biðja fólk að skrá mataræði sitt í sjö daga og geyma umbúðirnar. Þá er ekki um að villast. Það tekur ótrúlega skamman tíma að tileinka sér mjög óholla lifnaðarhætti, án þess að gera sér grein fyrir því."

Dr. Gillian hefur einu sinni heimsótt land og þjóð og kveðst hafa verið afar hrifin af íslenskum fiski. "Ég kaupi aldrei ferskan fisk þar sem ég bý. En reyndar var mér talsvert brugðið yfir lifnaðarháttum fólks hérna, þeir voru mun verri en ég hafði átt von á. Ég hitti nokkurn hóp fólks og flestir glímdu við margskonar heilsufarsvanda, oft alvarlegan. Fólk virðist ekki borða nógu mikið af hráu grænmeti og unga fólkið drekkur ótrúlega mikið af áfengi. Það var hryllingur að horfa upp á fólk veltandi dauðadrukkið út og suður. Enginn fer út fyrr en undir miðnætti og er að fram undir morgun. Ég hélt að Skotar væru drykkfelldir, en þetta tók út yfir allan þjófabálk. Þið eruð eins og náttuglur."

Getur þú nefnt nokkrar vísbendingar um að ekki sé allt með felldu í líkamanum?

"Loft, þemba, höfuðverkur, andremma, kláði, hárlos, tíðaverkir..."

Heldur fólk kannski að allt þetta eigi að vera partur af daglegri tilveru?

Já, ætli það ekki. Það er ekkert athugavert við smávegis vindgang, en flestir verða varir við hann í mun meira mæli en þeir gefa upp, eðlilega. Það er ekki til siðs að leysa vind í fjölmenni og fólk heldur honum því í sér. Illa lyktandi hægðir eru enn ein vísbending, líka hægðatregða og niðurgangur. Maður á ekki að þurfa að þurrka sér mörgum sinnum og nota helling af pappír þegar maður hefur hægðir. Þær eiga ekki að vera klístraðar, til dæmis, og fólk veit það ekki. Ef maður opnar munninn og lítur í spegil og tungan er með rák í miðjunni, gulri eða hvítri skán eða þakin tannaförum til hliðanna er það öruggt merki um veika meltingu. Og hún verður bara sífellt veikari, nema mataræðinu sé breytt. Í sumum tilvikum þarf að hjálpa til með ofurfæðu á borð við þörunga, orkuduft eða spírað quinoa og hirsi. Ef marka má það sem ég hef orðið vitni að þarf að minnsta kosti helmingur fólks að styrkja meltinguna."

Hversu mikilvægur er ristillinn?

"Hann skiptir öllu máli. Hann er eins og rotþró og getur annaðhvort verið fullur af úrgangi eða hreinn. Fólk spyr mig oft: Er ekki ónáttúrulegt að fara í ristilskolun, stólpípu eða taka jurtir til þess að hreinsa líkamann? Ég segi á móti: Er eitthvað náttúrulegt við að drekka, reykja og fylla líkamann af matvælum með alls kyns efnasamböndum og rotvarnarefnum? Hreinsun er nauðsynleg, ef maður hugsar ekki um vistkerfi líkamans má líkja því við hægfara dauðdaga. Ég er þeirrar skoðunar að flestir sjúkdómar í dag eigi rætur að rekja til þess sem við látum ofan í okkur með einum eða öðrum hætti. Ef við förum einu skrefi lengra má segja að við meltum ekki einvörðungu fæðu, heldur líka hugsanir og orku og maður verður að leitast við að breyta neikvæðum hugsunum í jákvæðar. Ég fer út í það í næstu bók og ætla ekki að fara út í smáatriði, en til þess að vera heilbrigður þarf að hugsa um allt sem fer inn í líkamann. Það getur átt við það sem við kyngjum og líka hugsanir um með hverjum við erum, hvar við borðum, með hverjum við borðum, hvenær við borðum, hvernig við lifum og hvers konar lífsmáta við kjósum okkur. Ég veit ekki með Ísland, en í Bretlandi er fólk svo upptekið við að vinna, komast áfram, fikra sig upp metorðastigann, eignast peninga og kaupa hluti, að það virðist gleyma farartækinu sem það ætlar að nota til þess að geta framkvæmt allt þetta, það er líkamanum. Við eigum einn líkama og maður þarf að hugsa vel um hann. Það má eiginlega segja að fólk sé orðið of upptekið til að lifa. Við lifum ekki lengur, við erum til. Við höfum algerlega tapað þræðinum. Þetta er sorglegt og flestir halda áfram, þar til eitthvað alvarlegt hendir, til dæmis hjartaáfall, sykursýki eða krabbamein. En ég spyr, hvers vegna að bíða þar til eitthvað gerist? Auðvitað veit maður aldrei hvað hendir, en hvers vegna að tefla á tæpasta vað? Jörðin er vissulega menguð, við höfum spillt fæðukeðjunni og það er margt sem við ráðum ekki við, en það sem við ráðum er hvað við setjum ofan í okkur, svo mikið er víst. Ef við bara hlustuðum á það myndi okkur líða svo miklu betur í daglegu amstri."

Hver er þín skoðun á umræðunni um háan sykurstuðul?

"Ég tel að hár blóðsykur eigi þátt í offitu og auki hættu á sykursýki II og hjartasjúkdómum. Áfengi og reykingar trufla líka blóðsykurinn og trufla lifrarstarfsemi og auka magn streituhormóna í líkamanum, svo dæmi séu tekin."

Mælir þú með kolvetnasnauðu fæði?

"Nei, það geri ég ekki. Ég vil ekki að fólk borði einföld kolvetni og sykur og þess háttar, en ég mæli með flóknum kolvetnum, þau eru frábær næringar- og orkugjafi. Ég vil að fólk neyti fjölbreyttrar fæðu og borði korn, baunir, belgávexti, hnetur, ávexti og grænmeti, eins mikið hrátt og hægt er, þara og fisk. Maður á ekki að borða of mikið prótein, það er erfitt fyrir lifrina. Sætar kartöflur og yam innihalda mikið af B-vítamíni og margir þjást af skorti á því."

Hversu vel gengur fólkinu sem þú hjálpar í þáttunum þínum til lengri tíma litið?

"Ég er í sambandi við flesta og engir sem ég veit um hafa snúið aftur til fyrra lífs alfarið. Sumir fylgja því sem ég ráðlegg 100%, aðrir 70-80%. Allir segjast hafa lært ótrúlega mikið og vilja aldrei snúa aftur til fyrra lífs, því þeim líður svo miklu betur."

Hvaða þætti ertu að taka upp núna?

"Við erum að taka upp þriðju þáttaröðina, í henni verða 20 þættir, þar af einn um afeitrun og annar um Michelle McManus (skosk söngkona sem vann Idol-keppnina í Bretlandi árið 2003). Það eru breytingar í loftinu. Að þessu sinni heimsæki ég fólk sem á ekki von á mér og birtist í svefnherberginu hjá ungri stúlku um daginn, sem auðvitað kom flatt upp á hana. Hægðirnar verða enn fyrirferðarmeiri en venjulega, skal ég segja þér. Í þessari þáttaröð læt ég fólk skoða þær sjálft með mér. Einnig tala ég ítarlega við þátttakendur um tilfinningalegar hliðar ofáts og hvernig fólk lenti í þessari stöðu til þess að byrja með. Tilfinningarnar eru grunnástæðan og við reynum að nálgast hið tilfinningalega upphaf á vítahringnum. Við bregðum líka á leik, í einum þættinum hleyp ég inn kirkjugólf á eftir presti og skipa honum að koma út úr skrúðhúsinu. "Komdu hérna, séra Brian"."

Þannig að þú ætlar að halda uppteknum hætti sem skelfilegasti næringarþerapisti Bretlands?

"Það máttu bóka. Annað virkar ekki. Ég áttaði mig fljótt á því að ég þyrfti að tala hreint út við fólk. Mitt sanna sjálf kom út á einhverjum tímapunkti og ég hef aldrei ýtt því til baka aftur. Ég segi það sem ég hugsa og ef ég er reið sýni ég það. Ég hef engan tíma fyrir slugsara. Ef eitthvað er er ég grimmari en nokkru sinni fyrr."

Kemurðu aftur til Íslands á næstunni?

"Mig langar til þess að koma næsta sumar og fara aftur í Bláa lónið. Ég fann fyrir einstakri upplifun þar og fékk dásamlegt nudd í lóninu. Ég elska þennan þátt landsins og hreina náttúruna og langar líka til þess að koma aftur og fá gleggri mynd af fólkinu sem býr þar."