UNGVERJAR, sem leika með Íslandi, Serbíu/Svartfjallalandi og Danmörku í riðli í Evrópukeppni landsliða karla, sem hefst í Sviss 26. janúar, verða í Þýskalandi við æfingar áður en þeir halda til Sviss.

UNGVERJAR, sem leika með Íslandi, Serbíu/Svartfjallalandi og Danmörku í riðli í Evrópukeppni landsliða karla, sem hefst í Sviss 26. janúar, verða í Þýskalandi við æfingar áður en þeir halda til Sviss. Ungverjar leika þá tvo æfingaleiki gegn Þjóðverjum 20. og 21. janúar í Offenburg og Mannheim.

Íslendingar leika fyrst gegn Serbum á EM, síðan gegn Dönum og þá gegn Ungverjum sunnudaginn 29. janúar. Þrjár efstu þjóðirnar í riðlinum komast í milliriðil, þar sem mótherjar verða þrjár af eftirtöldum þjóðum; Króatar, Rússar, Portúgalar og Norðmenn.

Íslenska landsliðið kemur saman á fimmtudaginn og heldur til Noregs 12. janúar, þar sem landsleikir verða leiknir gegn Katar og Noregi. Síðan verða tveir leikir leiknir gegn Frökkum hér á landi 19. og 21. janúar.

Ísland mætir Serbíu í fyrsta leik sínum á EM 26. janúar í Sursee og daginn eftir verður leikið gegn Dönum á sama stað.