Samband á milli eiganda og gæludýrs getur reynst stöðugra en hefðbundið vinasamband.
Samband á milli eiganda og gæludýrs getur reynst stöðugra en hefðbundið vinasamband. — Morgunblaðið/Ásdís
Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að gæludýr gætu lengt ævi eigenda sinna en nýjar rannsóknir eru ekki eins afdráttarlausar. Á vefnum forskning.

Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að gæludýr gætu lengt ævi eigenda sinna en nýjar rannsóknir eru ekki eins afdráttarlausar. Á vefnum forskning.no er greint frá því að fyrri rannsóknir hafi leitt í ljós að gæludýraeigendur ættu meiri möguleika á að lifa af hjartaáfall og ættu síður á hættu að fá hjarta- og æðasjúkdóma.

Nýrri rannsóknir taka fleiri áhrifaþætti með í reikninginn þegar rannsakað er hvaða hlutverki gæludýr gegna.

Breskir vísindamenn undir forystu June McNicholas hafa rannsakað það og hverjar orsakirnar fyrir hugsanlegum áhrifum á eigandann eru. Niðurstöðurnar eru að möguleikarnir eru þrír: Í fyrsta lagi að ekkert samhengi sé á milli gæludýraeignar og heilsufars. Þ.e. að gæludýraeigendur hafi bara ákveðinn lífsstíl. En vísindamennirnir efast um þennan möguleika þar sem engar rannsóknir hafa sýnt fram á að gæludýraeigendur lifi heilbrigðara lífi en aðrir. Annar möguleiki er sá að gæludýraeigandinn nái betra sambandi við annað fólk vegna gæludýrsins. Og rannsóknir sýna að félagslíf hefur jákvæð áhrif á heilsuna. Þriðji möguleikinn er að gæludýraeignin sjálf sé holl. Að sambandið á milli gæludýrsins og eigandans geti haft jákvæð áhrif á heilsuna. Rannsóknir hafa sýnt fram á að gæludýr geta gegnt sama hlutverki og vinir úr hópi manna og sambandið á milli eiganda og gæludýrs jafnvel stöðugra en hefðbundið vinasamband.

En gæludýrum fylgja einnig ókostir. Gæludýraeigendur fresta oft eða sleppa því að leita sér læknishjálpar vegna þess að þeir óttast að sjúkrahúsvist aðskilji þá frá gæludýrinu. Einnig getur sorgin vegna dauða gæludýrs verið jafnþung og sú sem maður ber í brjósti vegna fráfalls fjölskyldumeðlims og gæludýraeignin getur þannig haft áhrif á andlega heilsu eigandans til hins verra.

Einnig geta gæludýr borið með sér bakteríur og sníkjudýr sem geta borist í eigendurna. Áhættan er þó ekki mikil.