Tortillu-fylling Fyrir 4-6 1 meðalstór laukur, saxaður 1 hvítlauksgeiri ½ tsk oreganó 3 msk olía, lífræn 3 saxaðir tómatar ¼ dós tómatsósa, lífræn ½ bolli rifinn parmesanostur eða góður sojaostur Handfylli af fersku basil.
Tortillu-fylling

Fyrir 4-6

1 meðalstór laukur, saxaður

1 hvítlauksgeiri

½ tsk oreganó

3 msk olía, lífræn

3 saxaðir tómatar

¼ dós tómatsósa, lífræn

½ bolli rifinn parmesanostur eða góður sojaostur

Handfylli af fersku basil.

Salt, pipar eftir þörfum, hnífsoddur af chillidufti.

100 g af soðnum kjúklingabaunum eða til að flýta fyrir notið þá baunir (lífrænar) úr dós við matreiðsluna. Látið þá vökvann renna vel af.

Olían fer í pott ásamt kryddi, lauk og tómötum. Léttsteikið, eða þar til laukurinn er mjúkur, bætið þá við baununum og tómatsósunni, hrærið vel saman og bætið þá við söxuðu basil.

Takið fram matvinnsluvélina og grófmalið réttinn, bætið við kryddi ef þörf er á örlítið sterkara mauki. Það má ekki vera of þunnt.

Pakkið fyllingunni inn í pönnukökur og dreifið ostinum yfir, leggið saman eða rúllið upp og bakið í ofni í u.þ.b. tíu mín. við 170°C eða þar til kominn er gylltur litur á pönnukökurnar.

Gott með tómata-rauðlauksalati og basilsalatsósu.

Indverskur

mungbaunaréttur

250 g af soðnum mungbaunum

650 g sætar kartöflur, skornar í munnbita

4 msk olía, lífræn

2 stórir laukar, smátt skornir

1 tsk turmerik

1 tsk chilliduft

1 tsk paprika

1 tsk gróft geosalt

1 lítið höfuð af sellerrírót, skorið í litla munnbita

Sjóða baunirnar með örlitlu salti þar til þær eru orðnar mjúkar, síið vatnið frá og stappið þær örlítið saman.

Sjóðið sætu kartöflurnar í u.þ.b. tíu mín., síið vatnið síðan frá.

Hitið olíu í góðum potti

Steikið laukinn þar til hann er orðinn mjúkur, blandið kryddinu saman við og sellerírótinni og steikið þar til hún er orðin mjúk. Blandið örlitlu vatni saman við og leyfið að sjóða í þrjár mín. Þá eru sætu kartöflurnar og mungbaunirnar settar saman við. Hrærið vel saman. Kannski þarf að bæta aðeins meira vatni útí svo kássan verði ekki of þykk. Kryddið endilega meira eða eftir ykkar smekk. Þessi réttur er dásamlegur með hýðishrísgrjónum og flottu ávaxtasalati og gulrótar-raitu.

Indverskt ávaxtasalat

2 epli, skorin í munnbita

2 gulrætur, gróft rifnar

2 appelsínur, skornar í litla munnbita

1 papaja, börkurinn fjarlægður, fræ hreinsuð í burtu og kjötið skorið í litla bita

½ agúrka, skorin í litla bita

Safi úr einni sítrónu settur yfir salatið undir lokin

Handfylli af kóríander, smátt skorinn

1 tsk broddcumin

Smávegis gróft geosalt

½ tsk grófur pipar

Blandið öllu grænmeti og ávöxtum saman og látið standa í 30 mín. í ísskáp áður en borið er fram með mungbauna réttinum.

Gulrótar-raita

1 bolli AB mjólk, lífræn

1 bolli af hrísgrjónamajónesi

Smávegis gróft geosalt, lífrænt og smávegis grófur svartur pipar

1 tsk turmerik

½ bolli fínt rifnar gulrætur

Hrærið vel saman majónesi og AB mjólk ásamt kryddi og undir lokin eru gulræturnar settar í. Smátt skorin steinselja að lokum, en ekki nauðsynleg.

Mokka pecan pie

Deigið er búið til úr

1/3 bolla smjöri, líka gott að nota olíu og þá sama magn

1 bolla af spelthveiti, fínmöluðu

3 msk köldu vatni

Hrærið vel saman, fletjið síðan út og komið fyrir í góðum pie bökunardiski.

Fylling

½ bolli agavesíróp

¼ bolli hlynsíróp

2 msk sterkt kaffi

2 msk smjör

2 msk spelthveiti, lífrænt

3 egg (frjálsar hænur)

½ bolli dökkt súkkulaði 75% lífrænt

1 bolli af ristuðum pecan-hnetum

Best er að setja allt saman í matvinnsluvél nema pecan-hneturnar. Blandið vel saman þar til að súkkulaðið hefur blandast vel saman við mulninginn. Setjið ristuðu hneturnar á deigið og hellið fyllingunni yfir og bakið við 200°C í tíu mín. Lækkið niður í 180°C og bakið í 30 mín. Kælið. Berið fram með rjóma eða lífrænum vegaís.

Góða heilsu á nýju ári.

Með kveðju, Maður lifandi.