ÓLAFUR Magnússon, deildarstjóri á forvarnasviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, telur tímabært að herða reglur um geymslu flugelda. Hann segir að víða erlendis, eins og t.d. í Bretlandi, séu gerðar mun meiri kröfur um geymslu flugelda.

ÓLAFUR Magnússon, deildarstjóri á forvarnasviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, telur tímabært að herða reglur um geymslu flugelda. Hann segir að víða erlendis, eins og t.d. í Bretlandi, séu gerðar mun meiri kröfur um geymslu flugelda.

Á gamlársársdag kom upp eldur í Hveragerði í flugeldageymslu Hjálparsveitar skáta þegar verið var að ganga frá sýningarflugeldum. Tugmilljónatjón varð á brunastað. Eldvarnaveggir í húsnæðinu stóðust þó álagið og vörnuðu frekari tjóni.

Í gildi er rúmlega tveggja ára gömul reglugerð um skotelda þar sem m.a. er að finna kröfur um húsnæði þar sem skoteldar eru geymdir og seldir. Ólafur Magnússon segir að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fylgi þessum reglum fast eftir. Söluaðilar fái ekki að setja skotelda inn í húsnæði fyrr en slökkviliðið sé búið að ganga úr skugga um að húsnæðið uppfylli kröfur. Í tilvikum þar sem húsnæðið sé í eigu fleiri en eins aðila hafi slökkviliðið ennfremur gert kröfu um að söluaðilar fái samþykki allra húseigenda þó að ekkert sé um það að finna í reglugerð.

Ólafur segist vera þeirrar skoðunar að gera þurfi meiri kröfur en gerðar eru í reglugerðinni um gerð húsnæðisins. "Geymslu- og lagerhúsnæði þarf að vera þannig úr gerði gert og þannig staðsett að ekki skapist hætta fyrir aðra. Það þarf að hafa í huga að þarna er um að ræða sprengiefni," sagði Ólafur.

Sýningarflugeldar hættulegir

Ólafur sagði að í Bretlandi væru mun meiri kröfur gerðar til húsnæðis þar sem skoteldar eru geymdir en hér á landi og að Danir gerðu einnig meiri kröfur en við.

Ólafur segir að slökkviliðið hafi lagt mikla áherslu á að engin rafmagnstæki séu í sama húsnæði og skoteldar eru geymdir í eða seldir. Hann segir ljóst að gæta þurfi sérstakrar varúðar við meðferð sýningarflugelda. Þeir séu hættulegustu skoteldar sem meðhöndlaðir séu. Slökkviliðið hafi gert tilraun fyrir nokkrum árum með að sprengja nokkur hundruð kílóa sýningartertu og krafturinn sem hún skapaði hafi verið gríðarlegur. Þarna sé því um að ræða afskaplega hættulegan hlut.