Múgur og margmenni fagnaði Kizza Besigye, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Úganda, er hann kom út úr byggingu hæstaréttar í höfuðborginni Kampala í gær en dómstólinn úrskurðaði að Besigye skyldi látinn laus gegn tryggingagjaldi. Var það niðurstaða dómstólsins að tilskipun herdómstóls um að Besigye skyldi handtekinn hefði verið ólögleg.
Besigye hefur verið í haldi frá því hann sneri aftur til Úganda úr útlegð í nóvember sl. Er hann ákærður fyrir landráð, nauðgun, brot á lögum um meðferð skotvopna og tengsl við hryðjuverk.
Lögreglan beitti táragasi gegn fylgjendum Besigyes sem safnast höfðu saman fyrir framan hæstarétt í Kampala en ekki var vitað um nein meiðsl á fólki. Besigye hyggst bjóða sig fram gegn Yoweri Museveni, forseta Úganda til nítján ára, í kosningum sem fara fram í næsta mánuði. Besigye, sem var áður einkalæknir Musevenis, sagðist ánægður með úrskurð hæstaréttar en að málinu væri alls ekki lokið þar sem stjórn Musevenis væri áfram staðráðin í að brjóta á réttindum hans og fylgismanna hans.