Hreindýr við Djúpavog Ný skýrsla um hreindýranytjar leggur áherslu á að stjórnun veiða og nytja sé í höndum Austfirðinga.
Hreindýr við Djúpavog Ný skýrsla um hreindýranytjar leggur áherslu á að stjórnun veiða og nytja sé í höndum Austfirðinga. — Morgunblaðið/Sólný Pálsdóttir
Egilsstaðir | Fyrir skemmstu kynnti Þróunarfélag Austurlands skýrsluna Auðlindin hreindýr á Austurlandi.

Egilsstaðir | Fyrir skemmstu kynnti Þróunarfélag Austurlands skýrsluna Auðlindin hreindýr á Austurlandi. Hún er unnin undir stjórn Þróunarfélagsins af vinnuhópi sem félagið setti á fót síðla árs 2004 og hafði þann tilgang að móta hugmyndir um betri nýtingu hreindýra í þágu ímyndar Austurlands, menningar og atvinnulífs. Kemur þar m.a. fram að eðlilegt sé að stjórnun hreindýraveiða sé að mestu í höndum Austfirðinga, auka þurfi fagmennsku við verkun á hreindýrakjöti og að auka þurfi rannsóknir á hreindýrum.

Efni skýrslunnar skiptist í sögulegt ágrip um hreindýr á Íslandi, stöðumat og tillögur, stoðgreinar sem tengjast hreindýrum og skipulag og framtíð hreindýramála á Austurlandi. Við gerð skýrslunnar var unnið út frá eftirfarandi grunnþáttum og hugmyndum: Veiðum hreindýra, leiðsögn, kjötvinnslu, hreindýragarði, handverki, þekkingarsetri hreindýra, og ferðamálum.

Í meginsjónarmiðum vinnuhópsins varðandi framangreinda þætti kemur meðal annars fram að eðlilegt sé að stjórnun hreindýraveiða sé að stærstum hluta í höndum Austfirðinga og stjórnsýsla vegna dýranna skapi störf í landshlutanum. Leiðsögumannsstarfið á að vera eftirsótt og fjöldi starfsleyfa takmarkaður til þess að treysta starfsgrundvöll veiðileiðsögumanna og tryggja gæði þeirrar þjónustu sem veiðimenn þurfa að kaupa. Auka þarf fagmennsku við verkun á hreindýrakjöti og auka arðsemi veiðanna í heimabyggð með því að gera mönnum kleift að bjóða upp á þá þjónustu sem veiðimenn þurfa á að halda. Auka þarf framboð á hreindýraafurðum með framleiðslu á t.d. hreindýrasalami, hreindýrapaté og reyktum hreindýratungum. Jafnframt þurfa veitingahús á Austurlandi að hafa á boðstólum margvíslega rétti úr hreindýrakjöti. Nýting á hráefnum fyrir þennan málaflokk þarf að vera eins góð og kostur er og veiðimenn þurfa að fá greitt fyrir þau. Byggja þarf upp vandaða framleiðslu sem byggist á þeim hráefnum sem fyrir hendi eru og koma á fót sölumiðstöð fyrir hreindýravörur. Nýta þarf hreindýrin betur sem sérkenni fyrir Austurland. Lykilatriði er að koma upp hreindýrasetri þar sem ferðamenn geta aflað sér upplýsinga um hreindýr, keypt minjagripi, skráð sig í skoðunarferðir og horft á myndbönd um dýrin og málefni tengd þeim. Auka þarf rannsóknir á hreindýrum, vakta stofninn betur og veita til þess meira fjármagn en nú er gert. Menning tengd hreindýrum er hluti af sögu þjóðarinnar og hana verður að varðveita og miðla til ferðamanna og komandi kynslóða.

Í skýrslunni er gerð tillaga að vistunaraðilum fyrir hvern framangreindra málaflokka og jafnframt sett fram tillaga um skipun fimm manna framkvæmdaráðs til þess að fylgja eftir framkvæmdaáætlun sem í skýrslunni er. Þá er gert ráð fyrir að vinnuhópurinn sem skýrsluna vann komi saman tvisvar á ári og fylgi málefnum skýrslunnar eftir. Skýrsluna, sem er 49 síður með viðaukum, er hægt að fá endurgjaldslaust hjá Þróunarfélagi Austurlands. Skýrsluna má einnig nálgast á vefsvæði Þróunarfélags Austurlands, www.austur.is.