Kaffihús á daginn - krá á kvöldin.
Kaffihús á daginn - krá á kvöldin.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur og Rúnar Pálmason Leyndur áróður um skaðleysi fíkniefna hefur áhrif Karl Steinar Valsson segir það skoðun sína að leyndur áróður um að hluti fíkniefna sé skaðlaus hafi haft mun meiri áhrif á aukningu fíkniefnaneyslu en...
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur og Rúnar Pálmason

Leyndur áróður um skaðleysi fíkniefna hefur áhrif

Karl Steinar Valsson segir það skoðun sína að leyndur áróður um að hluti fíkniefna sé skaðlaus hafi haft mun meiri áhrif á aukningu fíkniefnaneyslu en þættir á borð við lengri afgreiðslutíma veitingastaða. Vitað sé til þess að hagsmunaaðilar, sem framleiði og selji fíkniefni hafi reynt að telja fólki trú um að þessi efni séu skaðlaus. Eigi þetta meðal annars við um þá sem framleiða og selja hass.

Starfsmenn á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi verða oftar en áður fyrir ógnunum og árásum af hálfu þeirra sem þangað leita, að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins í gær. Þar sagði að í vaxandi mæli væri um að ræða menn sem kæmu á slysadeildina um helgar undir áhrifum örvandi fíkniefna og þeim fjölgaði eftir því sem liði á nóttina. Haft var eftir Kristínu Sigurðarsdóttur, lækni og fræðslustjóra á slysadeild, að hún teldi að framlengdur afgreiðslutími veitingastaða hefði meðal annars ýtt undir aukna fíkniefnaneyslu og að æskilegt væri að hann yrði styttur á nýjan leik. Samkvæmt upplýsingum frá SÁÁ hefur sá fjöldi sem leitar sér aðstoðar vegna eiturlyfjafíknar hjá Sjúkrahúsinu Vogi stóraukist á síðasta áratug og er aukningin ekki síst meðal þeirra sem eru háðir örvandi fíkniefnum. Amfetamínfíklum hefur fjölgað hratt frá árinu 1995 og á milli 1999 og 2000 virðist sem fjöldi kókaín- og e-pillufíkla hafi tekið stökk.

Valgerður Rúnarsdóttir, læknir hjá SÁÁ, telur að aukin neysla eigi sér margar skýringar. "Ég held að þetta endurspegli aukið framboð á vímuefnum og sjálfsagt er þetta ekki ólíkt því sem hefur gerst í löndunum í kringum okkur. Ég kann hins vegar ekki skýringu á því hvers vegna framboðið hefur aukist," segir hún. Varðandi fjölgun kókaínfíkla segir Valgerður að þeir sem leiti til SÁÁ vegna kókaínfíknar séu oft einstaklingar sem hafi sjálfir verið að braska með fíkniefni. Oft sé um að ræða menn sem séu sölumenn eða milliliðir og í stað peninga fái þeir kókaín að launum. Með auknu framboði fíkniefna fjölgi væntanlega þessum milliliðum.

Spurð hvaða áhrif hún telji að lengri afgreiðslutími veitingastaða hafi á fíkniefnaneyslu segir hún að aukið framboð hafi alltaf þau áhrif að neysla aukist. Þetta eigi við um áfengi og þetta eigi einnig við um fíkniefni. "Þú sérð hvað hefur gerst með tóbakið. Það er búið að taka það úr hillunum og setja það undir borð og búið er að herða á því að börnum sé ekki selt tóbak. Og það má nánast hvergi setjast niður til að reykja sígarettu," segir hún. Afleiðingin sé sú að reykingar hafi snarminnkað. Þveröfugt sé að gerast með áfengið og afleiðingin sé sú að neyslan aukist. Hún telur rökrétt að álykta sem svo að með lengri afgreiðslutíma aukist einnig framboð og neysla fíkniefna og bendir á að það sé algengt að menn prófi fíkniefni í fyrsta skipti meðan þeir séu undir áhrifum áfengis.

Neysla fíkniefna aukist alls staðar í heiminum

Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, kveðst telja að aukin neysla fíkniefna eigi sér margar skýringar. "Neysla fíkniefna hefur aukist ár frá ári í heiminum öllum undanfarin 10 ár," segir hann. Eftirspurn eftir þeim hafi aukist hjá ákveðnum hópum "þótt hún hafi sem betur fer minnkað hjá yngsta fólkinu. Þessu fylgja afleiðingar," segir hann.

Karl Steinar segir nauðsynlegt að líta einnig til þátta eins og meiri velmegunar, þegar aukin neysla fíkniefna er skoðuð. Þá hafi neysla áfengis einnig aukist og því megi spyrja hvort þá aukningu sé hægt að rekja til lengri afgreiðslutíma skemmtistaða. Karl Steinar kveðst sakna þess í umræðunni nú að sjá tölulegar upplýsingar frá slysadeild um þá sem þangað leita. Hann segir þó engan vafa leika á því í huga lögreglu að með lengri afgreiðslutíma lengist viðvera fólks á veitingastöðum. Ekki sé óeðlilegt að þessu fylgi aukin neysla, hvort sem um áfengi eða aðra vímugjafa sé að ræða.

Karl Steinar bendir á að neysla áfengis og vímuefna sé á valdi hvers og eins einstaklings. Borgarbúar virðist almennt vera mjög hlynntir því að geta sótt sér þá þjónustu sem veitingastaðir bjóða upp á í dag og afgreiðslutíminn sé í takt við það sem menn þekki í öðrum löndum. "Þar er hann oft í því formi að ákveðnir veitingastaðir, á borð við klúbba, eru opnir í tiltekinn tíma og þá taka við aðrir, næturklúbbar. Hér eru þetta nánast sömu staðirnir, sem eru þá kaffihús að deginum en krár og næturklúbbar á kvöldin og um helgar," segir Karl Steinar.

Hann segir ljóst að ekki sé hægt að snúa aftur til þess tíma þegar veitingastöðum var lokað klukkan þrjú, nema með umtalsverðri fjölgun lögreglumanna. "Við þyrftum allt annað verklag og allt annað vinnulag heldur en er í dag ef ætti að fara aftur í það form," segir Karl Steinar.

Um þá hugmynd að leyfa hugsanlega sérstaka næturklúbba utan miðborgarinnar en takmarka afgreiðslutíma veitingastaða að öðru leyti, segir Karl Steinar að það sé lögreglunni ekkert sérstakt kappsmál að halda í það fyrirkomulag sem nú ríki.

"Við viljum aðeins tryggja að við getum veitt eins góða þjónustu og öruggt umhverfi og okkar er kostur," segir Karl Steinar.