CHELSEA er komið með fjórtán stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir tiltölulega öruggan sigur á West Ham, 3:1, á Upton Park í gær. Manchester United sækir Arsenal heim í kvöld og getur minnkað forskotið niður í ellefu stig á ný en aðalkeppinaut United um annað sætið, Liverpool, mistókst að vinna 11. deildarleik sinn í röð þegar liðið varð að sætta sig við 2:2-jafntefli á móti Bolton.
Eiður Smári Guðjohnsen hóf leikinn á varamannabekk Chelsea en José Mourinho gerði fjórar breytingar á liðinu eftir sigurleikinn gegn Birmingham á gamlársdag. Eiður sat þó ekki lengi á tréverkinu, hann kom inn á strax á 12. mínútu þegar Michael Essien meiddist á ökkla og var talsvert áberandi í miðjuspili meistaranna. Horfur eru á að Essien verði frá keppni í 6-8 vikur vegna meiðslanna. Frank Lampard skoraði eina mark fyrri hálfleiks fyrir Chelsea á 25. mínútu. Marlon Harewood jafnaði fyrir West Ham, 1:1, þegar aðeins 20 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik. Hernan Crespo kom inn á sem varamaður hjá Chelsea á 60. mínútu og skoraði nokkrum sekúndum síðar með sinni fyrstu snertingu, 2:1. Það var Didier Drogba sem innsiglaði sannfærandi sigur með marki á 80. mín. eftir fallega sendingu frá Eiði Smára.
*Heiðar Helguson lagði upp sigurmark Fulham sem marði botnlið Sunderland, 2:1, eftir að hafa lent undir. Heiðar, sem hefur átt við nárameiðsli að stríða, hóf leikinn á bekknum en var skipt inn á fyrir Papa Bouba Diop á 39. mínútu. Heiðar hafði ekki verið inná nema í fjórar mínútur þegar Collins John jafnaði metin með skalla og hann lék sama leikinn á 49. mínútu þegar hann skoraði eftir góða fyrirgjöf Heiðars. Sunderland lék manni færri síðasta hálftímann en Steven Caldwell var rekinn af velli fyrir brot á Heiðari.
"Við lékum ekki vel en mínir menn sýndu þrautseigju enda þurftum við svo sannarlega á þremur stigum að halda. Mér var sagt að Heiðar yrði ekki tilbúinn að spila í byrjunarliðinu en hann gat verið á bekknum og við þurftum á honum að halda," sagði Chris Coleman, stjóri Fulham.
*Bolton náði tvívegis forystunni gegn Liverpool á heimavelli sínum, Reebock. Túnisbúinn Radhi Jaidi kom heimamönnum yfir snemma leiks eftir sjaldséð mistök Jose Reyna, markvarðar Liverpool. Steven Gerrard jafnaði úr vítaspyrnu fyrir Liverpool sem dæmd var þegar honum var brugðið innan teigs. Gamli Liverpool maðurinn El Hadji Diouf kom Bolton aftur yfir en spænski landsliðsmaðurinn Luis Garcia jafnaði skömmu síðar þegar hann tók boltann glæsilega niður í teignum og þrumaði honum í netið.
*Aston Villa fjarlægðist neðstu liðin með sigri á WBA, 2:1, á útivelli þar sem Milan Baros skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.
*Lee Clark bjargaði stigi fyrir Newcastle þegar hann jafnaði metin á móti Middlesbrough, 2:2, á lokasekúndum leiksins. Nolberto Solano kom Newcastle í forystu með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu en Yakaubu og Hasselbaink komu Boro yfir áður en Clark jafnaði.
*Ástralski landsliðsmaðurinn Tim Cahill var hetja Everton sem vann afar þýðingarmikinn sigur á Charlton, 3:1. James Beattie kom Everton yfir á 9. mínútu. Thomas Myhre varði vítaspyrnu frá Beattie sem náði frákastinu og skoraði. Matt Holland jafnaði metin fyrir Charlton en Cahill skoraði tvívegis fyrir Everton í síðari hálfleik. Hermann Hreiðarsson lék allan leikinn í miðvarðarstöðunni hjá Charlton sem hefur nú tapað 9 af síðustu 11 leikjum sínum. "Ég var virkilega ánægður með leik liðsins. Nú þekki ég mína menn og vonandi er þetta upphafið að einhverju meira," sagði David Moyes, stjóri Everton.