Guðlaug María Sigurðardóttir rekur fyirtæki sitt 9 mánuði ehf. undir hatti heildrænu meðferðarstofunnar Fyrir Fólk í Kópavoginum. Hún er ljósmóðir og nálastungufræðingur, og bjargvættur margra óléttra kvenna. Hún kynntist óhefðbundnum lækningum fyrst þegar hún fór til háls-, nef- og eyrnalæknis árið 1984 og fékk þar nálastungumeðferð vegna eyrnaverkja. Síðan þá hefur hún verið í stöðugu námi í ýmsum heildrænum fræðum og er einnig lærður nuddari, svæðanuddari, kinesiolog, auriculospecialist og posturolog.
Ekki dúllunudd
"Ég er ekki mikið að dúllunudda, eins og ég kalla það, heldur reyni ég að laga kvilla hjá fólki. Ófrískar konur koma mikið vegna ógleði, bakverja, grindargliðnunar, svefnleysis og fleira. Ógleðina reyni ég t.d. að laga með nálastungu."Hvernig er það hægt? Hvað gerist í líkamanum?
"Það er það sem við vitum ekki, og það er það skemmtilega við þetta. Nálastunga er að mörgu leyti óútskýrð, en við getum útskýrt hana betur þegar við erum með verki, því þá er ákveðið ferli í gangi sem hentar okkar vestrænu hugsun. Með nálastungunni flytjum við orku til í líkamanum, en getum ekki útskýrt það á vestrænan hátt, og það er þess vegna sem mörgum finnst hún svona loðin. Við höldum bara áfram að rannsaka og það er í fullum gangi.
Þegar eitthvað er að í líkamanum er talað um að það sé of lítil orka, of mikil orka eða orkustífla. Nálarnar vinna eftir ákveðnum orkubrautum og það sem þær gera er að opna orkuflæðið eða jafna það."
Meltingin róuð
Vantar þá orku þegar maður hefur morgunógleði?"Það er erfitt að segja því þetta er svo persónubundið. Konur koma með mörg mismunandi einkenni, en það sem er alltaf undirliggjandi er maga- og miltaójafnvægi."
Og svarar það einhverjum sérstökum punktum á líkamanum?
"Já, undir hnénu eru t.d. punktar fyrir magann en síðan notum við alltaf PC 6-punktana, þeir eru mest rannsökuðu punktararnir og eru líka notaðir í vestrænum lækningum, t.d. þegar fólki verður óglatt eftir uppskurði. Þegar ég fæ konu í ógleðimeðferð tek ég hana líka í svæðanudd til að róa meltinguna og jafna þindarvöðvann, sem oft er mjög spenntur eftir mikil uppköst. Svo fer það eftir hvernig konur bregðast við nálunum hvernig ég meðhöndla þær."
Er hægt að beita nálum á þunglyndi?
"Þegar kemur að þunglyndi vil ég helst benda konum á að tala við hómópata og laga mataræðið, en nálastungan gæti verið notuð meðfram því og hjálpað þannig, alla vega í einhverjum tilfellum."
Ofvöxtur í hormónum
Hvað er hægt gera við grindargliðnun?"Það er mjög þakklátt að meðhöndla grindargliðnun með nálum, það virkar mjög vel. Af öllum þeim konum sem ég hef meðhöndlað man ég bara eftir einni sem ekki sagðist finna neinn mun. En á meðgöngu er þetta viðhaldsmeðferð, sem þýðir að það er mjög sjaldgæft að þær komi einu sinni til tvisvar og síðan ekki meir. Þetta er nefnilega hormónatengt og þar sem hormónarnir halda áfram að flæða um líkamann þarf að koma með nokkurra daga millibili."
Hvað gerist við grindargliðnun?
"Það eru liðir í grindinni sem eru ekki virkir nema í fæðingunni, en þá færast þeir til um einhverja millimetra til þess að kollurinn geti gengið niður. Við grindargliðnun eru hormónar að mýkja upp liðina í líkamanum og gera þá tilbúna fyrir fæðinguna. Þá hleypur ofvöxtur í þá, og þeir ofmýkja grindarliðina. Konur finna mjög mismikið fyrir þessu. Það hleypur ekki ofvöxtur í hormónana á öllum konum. Grindargliðnun er reyndar ofnotað hugtak og greining því að kannski í 10-15% tilvika er um grindargliðnun að ræða, hitt eru grindarverkir sem eru mjög eðlilegir á meðgöngu. Við erum bara komin svo langt frá okkur að það má ekki vera neinn verkur. En hvað er eðlilegra en að finna til þegar barn er að vaxa innan í manni og maður þarf að fást við allt sem fylgir hversdeginum?"
Nýrun hafa ekki við
Hvað geta þær konur gert sem fá mikinn bjúg?"Bjúg er oft hægt að laga mikið með réttu mataræði, en langbest er svæðanudd og nálastungurnar með. Þá er gott að byrja á nuddinu áður en bjúgurinn verður slæmur og halda þannig í horfinu. Þá er allur líkaminn tekinn í gegn, því í fótunum getur þú fundið viðbragðasvæði líkamans og unnið með nýrun og sogæðakerfið."
Af hverju fá konur bjúg?
"Vegna þess að nýrun anna ekki útskilnaðinum. Þær eru að meðaltali með aukalítra af blóði í líkamanum sem þarf að hreinsa og millifrumuvökva og því miklu meira álag á nýrun. Þess vegna skiptir mataræðið miklu máli. Best er að sleppa salti og reykum mat, og líka gervisykri eins og t.d. aspartam, því hann bindur svo svakalega vatnið í líkamanum. Burt með diet-kók og inn með kristalinn. Drekka mikið vatn yfir höfuð, því það hreinsar nýrun. Af tvennu illu tel ég gervisykurinn verri en sykur. Og ef fólk er að passa línurnar, þá þekki ég konu sem drakk einn og hálfan lítra af Tab á dag, og þegar hún hætti grenntist hún um átta kíló á tveimur mánuðum. Þetta er ekkert nema vökvi."
Svo legið geti þanist
Virkar mataræðið líka best gegn brjóstsviða?"Það er hægt að nota nálarnar, nuddið og mataræðið. Maður verður að passa sig á að borða ekki seint, þ.e.a.s. rétt áður en maður fer í rúmið. Líka passa sig á öllum sterkum mat og öllu þessu salta og kryddaða, snakki og feitum mat. Svo gera kaffi, svart te og reykingar auðvitað illt verra. Margar fá brjóstsviða af mjólkurvörunum því þær eru svo súrar. Einnig er gerið í bakarísbrauðinu að stríða mörgum, og því reynandi að prófa gerlaust brauð."
Af hverju fá óléttar konur brjóstsviða?
"Oft fá konur mestan brjóstsviða á 30.-40. viku því þá er barnið orðið það stórt að það þrýstir á magasekkinn. Einnig slaka hormónarnir í líkamanum á sléttum vöðvavef sem finnst t.d. í magasekknum, þannig að meltingin hægist og magaopið verður rýmra, og magasýrurnar eiga auðveldara með að gubbast upp. Slökunin er til þess að legið geti þanist."
Sumar þjást einnig af svefnleysi ...
"...og mjög rugluðum draumum. Nálarnar hafa virkað mjög vel á það. Kínverjar skýra það þannig að sálin fari á flakk á meðgöngu og það þurfi að róa sálina til að koma henni inn aftur."
Skemmtun í þrívíddarsónar
Heildræna meðferðarstofan Fyrir Fólk var opnuð í október 2004. Þar starfa sex konur sem allar eru menntaðar í heildrænum meðferðarfræðum. Þar er einnig ljósmyndagallerí þar sem Árni Sæberg og RAX eða Ragnar Axelsson sýna verk sín. Hinn 29. janúar næstkomandi verður formlegt opnunarteiti, "stundvíslega á nýju tungli, við erum mjög miklar tunglkonur", segir Guðlaug María brosandi. Við opnunina kynnir Guðlaug María glænýjan þrívíddarsónar og Birna hómópati, sem starfar með henni, verður búin að fá tæki sem mælir fæðuóþol hjá fólki."Hugsunin á bak við þrívíddarsónarinn er skemmtun. Venjulega þegar foreldrar fara í sónar er það einungis til aðgreiningar, til að athuga hvort ekki sé allt í lagi hjá barninu, hvort vöxtur og þroski séu á réttri braut. Fólk fær svarthvíta útprentun sem er mjög óskýr. Í þrívíddarsónar er það mun líkara ljósmynd, m.a.s. augnhárin á barninu sjást. Best er að koma í 22.-26. viku. Það er hægt fyrr og seinna, en ekki mikið eftir viku 34, því þegar barnið er skorðað niður í grindina nær maður ekki andlitinu. Þeir sem panta tíma fá 40 mínútna skoðun í þrívíddarsónarnum, og fara heim með litlar myndir af barninu sínu, og einnig hreyfingar þess á dvd-diski. Ég er ekki í fósturgreiningum, heldur er þetta fyrst og fremst skemmtipakki hjá mér, fyrsta ljósmyndatakan," segir Guðlaug María, sem hefur þegar fengið fjölmargar fyrirspurnir um nýja sónarinn frá tilvonandi foreldrum.