Helgi Berg Friðþjófsson stefnir á atvinnumennsku í fjallahjólreiðum.
Helgi Berg Friðþjófsson stefnir á atvinnumennsku í fjallahjólreiðum. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson siggip@mbl.is HELGI Berg Friðþjófsson hefur síðustu 14 ár keppt í fjallahjólreiðaíþróttinni af miklu kappi.
Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson siggip@mbl.is

HELGI Berg Friðþjófsson hefur síðustu 14 ár keppt í fjallahjólreiðaíþróttinni af miklu kappi. Undanfarin ár hefur hann keppt í Danmörku og náð einstökum árangri en hann hefur hampað Danmerkurmeistaratitlinum í fjallahjólabruni tvisvar. Í samtali við Morgunblaðið segir Helgi að hann hafi ekki ætlað sér að keppa í fjallahjólreiðum í Danmörku en hafi fljótlega snúist hugur.

"Ég fluttist til Danmerkur fyrir nokkrum árum þegar kærasta mín hóf nám í Álaborg. Ég ætlaði mér ekkert að fara að keppa en áður en langt um leið var ég búinn að kynnast fólki með sama áhugamál og eitt leiddi af öðru. Fyrr en varði var ég farinn að æfa af fullum krafti, bæði fjallabrun og BMX, og keppti í fjallabruni á svokölluðu "hardtail"-hjóli árið 2004, en það eru hjól sem eru einungis með fjöðrun að framan. Ég lauk fyrstu keppni í mótaröðinni í þriðja sæti en vann allar keppnir eftir það og varð þar af leiðandi Danmerkurmeistari. Einnig náði ég ágætum árangri í öðrum keppnum, komst á verðlaunapall í þremur, en þá í BMX-flokki. Árið 2005 færði ég mig yfir í "full suspension"-flokkinn, en þar er keppt á hjólum með fjöðrun á báðum dekkjum, auk þess að keppa í BMX-flokknum. Ég þurfti að hætta þátttöku í BMX-mótaröðinni eftir að ég slasaði mig við æfingar í Noregi en náði öðru sæti í Sjálandsmeistarakeppninni í þeim flokki. Hins vegar missti ég lítið úr fjallabrunsmótaröðinni og varð Danmerkurmeistari í þeirri grein. Einnig tók ég þátt í alþjóðlegu móti í Þýskalandi síðasta tímabil og náði þar öðru sæti."

Tæknilegri brautir

Nú er Danmörk ekki þekkt fyrir háar hæðir og brattar brekkur, hvernig eru aðstæður til fjallahjólaiðkunar í Danmörku?

"Ég stunda æfingar á tilbúnum brautum hérna í norðurhluta Kaupmannahafnar og í Óðinsvéum. Þessar tilbúnu brautir eru um margt ólíkar brautunum sem eru á Íslandi, þær eru styttri en um leið mun tæknilegri hvað varðar beygjur og annað slíkt. Það reynir til dæmis meira á þolið á brautunum heima á Íslandi þar sem þær eru lengri."

Að sögn Helga eru hjólin sem hann notast við mjög frábrugðin þeim sem hinn almenni hjólreiðamaður á að venjast. Þau séu mun sterkari og kemur það meðal annars fram í þyngdinni, en þau geta verið allt upp í 20 kíló. En mesti munurinn sé sennilega munurinn á verði. Nýtt hjól getur kostað allt frá 300.000 krónum upp í 600.000 krónur auk allra ferðalaganna og annars kostnaðar sem fylgir. Helgi hefur því verið að leita sér að styrktaraðila og gengur leitin vel:

"Ég hef verið í viðræðum við nokkra aðila og hafa þær viðræður gengið vel. Ég vonast til að ná samingum við styrktaraðila áður en næsta keppnistímabil hefst í apríl en það hefur mikla þýðingu fyrir mig að hafa góða styrktaraðila. Einnig hef ég verið að ræða við íslenska aðila um styrktarsamninga en það á eftir að koma betur í ljós. Auk fjárhagslega ávinningsins hjálpar kostunarsamningur við að koma mér á framfæri innan íþróttarinnar en ég stefni á að komast á alþjóðleg mót, svo sem Evrópumeistaramótið, heimsmeistaramótið og Red Bull Rampage-mótið. Þátttaka á stærri mótum getur aukið tekjumöguleika mína og er draumurinn að sjálfsögðu að geta starfað við þetta í framtíðinni," segir Helgi að lokum.