Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson svarar grein Eyglóar Jónsdóttur um bókina Hin mörgu andlit trúarbragðanna: "... ég tek undir með Eygló og Ara fróða að best sé að hafa það sem sannara reynist ..."

Í MORGUNBLAÐINU á gamlársdag birtist grein eftir Eygló Jónsdóttur þar sem hún fjallar nokkuð um bók mína "Hin mörgu andlit trúarbragðanna" og þá sérstaklega kaflann um Soka Gakkai búddismann. Þakka ég henni ljúf orð í minn garð sem þar falla. Þau eru gagnkvæm. Þó verð ég að leiðrétta örlítinn misskilning sem kemur fram í grein Eyglóar. Lesa má úr orðum Eyglóar að ég hafi ekki boðið Soka Gakkai búddistum að lesa kaflann um þá yfir áður en hann fór í prentun. Hið rétta er að ég gerði margar tilraunir til þess en fékk engin viðbrögð. Aðrir sendu mér viðbrögð frá öðrum trúfélögum og eru þeir sem það gerðu nefndir í bókinni í heimildaskrá. Eftir að bókin kom út átti ég mjög gott spjall við fulltrúa Soka Gakkai búddista. Þar kom fram fyrst og fremst ánægja frá þeim yfir að ég skuli hafa bent á margt hið jákvæða sem hreyfingunni fylgir, og þá sérstaklega friðarverðlaun Sameinuðu þjóðanna sem Daisaku Ikeda fékk árið 1983 en hann stofnaði alþjóðahreyfingu Soka Gakkai.

Einnig þökkuðu þeir mér að ég kæmi ekkert inn á deilur búddista við Soka Gakkai hreyfinguna í Japan.

Ein megin heimild bókarinnar um alþjóðahreyfingu Soka Gakkai er Eileen Barker og rannsókn hennar á hreyfinguni sem birtist í bókinni "New Religious Movements".

Barker er prófessor í trúarlífsfélagsfræði við London School of Economics, en þar er starfrækt ein virtasta rannsóknarstofnun í trúarbragðafræði í Evrópu. Hvet ég Eygló og aðra sem áhuga hafa til að kynna sér þessa rannsókn nánar.

Um leið og ég tek undir með Eygló og Ara fróða að best sé að hafa það sem sannara reynist vil ég þakka fyrir þessar og aðrar umræður er bók mín hefur vakið og óska öllum hins besta á komandi ári.

Höfundur er prestur.

Höf.: Þórhallur Heimisson svarar grein Eyglóar Jónsdóttur um bókina Hin mörgu andlit trúarbragðanna