Ásta Arnardóttir
Ásta Arnardóttir — Morgunblaðið/Þorkell
Jóga er aldagömul leið til þroska og hefur hjálpað fólki í gegnum árþúsundin til að skapa jafnvægi og vellíðun í daglegu lífi, segir Ásta Arnardóttir jógakennari.

Jóga er aldagömul leið til þroska og hefur hjálpað fólki í gegnum árþúsundin til að skapa jafnvægi og vellíðun í daglegu lífi, segir Ásta Arnardóttir jógakennari. Hún bætir því við að jóga hafi varðveist mann fram af manni í öll þessi ár "vegna þess að þetta blússvirkar," eins og hún orðar það.

Ásta segir að jóga þýði einingu eða heild, þ.e. að við séum ekki aðskilin frá heildinni. "Í kjarna sínum gengur jóga út á að efla meðvitundina um það hver við erum í raun og veru og hvað er að gerast hér og nú. Þar með nálgumst við okkar innsta kjarna - sem er erfitt að nefna - en við myndum nefna skilyrðislausan kærleika. Eftir því sem við nálgumst meira okkar innsta kjarna skynjum við betur eininguna og heildina. Til dæmis það að náunginn sé jafnmikilvægur og þú. Með jógaiðkuninni eflist meðvitund um líðan okkar, tilfinningar og hugsanir. Og þegar meðvitundin um það eykst koma tækifæri til þess að velja. Jóga er umbreytandi og hjálpar okkur að skynja sköpunarkraftinn. Við verðum þar með ekki bara gamall vani, heldur getum við valið það sem við finnum að nærir okkur best; hvort sem það snýst um matarvenjur okkar, hugsanir eða samskipti við okkur sjálf eða aðra."

Jóga skiptist í margar greinar, en að sögn Ástu hefur hathajóga náð mestum vinsældum á Vesturlöndum. Þar er lögð áhersla á líkamsæfingar, öndun og slökun. Byrjendur læra grunnstöðurnar í hathajóga en eftir það er hægt að stunda jóga heimavið.

Innt eftir því hvort erfitt sé að tileinka sér jóga segir hún að ef til vill megi líkja þessu við það að læra að ganga. "Við reynum að ganga, og æfum okkur, og allt í einu erum við farin að ganga. Jóga er mjög náttúruleg leið og við þekkjum margar æfingar í hathajóga frá því við lékum okkur sem börn." Hún mælir með reglulegri jógaiðkun, jafnvel á hverjum degi.

Ásta segir aðspurð að jóga njóti sívaxandi vinsælda. Þær megi ef til vill rekja til mikils hraða í samfélaginu. "Fólk finnur þörf fyrir það núna að fá einhvers konar hjálp við það að njóta augnabliksins og finna frið og sátt hið innra. Það er svo margt sem dregur athyglina frá okkur. Og við höfum tilhneigingu til að leita að hamingjunni fyrir utan okkur sjálf, en ekki innra með okkur."

Ásta nefnir í þessu sambandi dæmisögu af manni sem týndi lyklunum sínum og leitaði þeirra undir ljósastaur úti á götu. Annar maður kom aðvífandi og hjálpaði honum við leitina, en sagði eftir smá stund: "Ertu viss um að þú hafir týnt lyklunum hérna." Maðurinn svaraði: "Nei, nei, ég týndi þeim reyndar inni, en það er bara svo miklu betra ljós hérna."

Leið til að læra að þekkja sjálfan sig

Ásta kennir jóga í Lótus jógasetri og í Kramhúsinu. Hún segist hafa stundað jóga í um það bil tíu ár. Spurð hvers vegna hún hafi byrjað að iðka jóga, segist hún ávallt hafa verið mjög leitandi. Auk þess hafi hún gaman af því að hreyfa sig. "Ég kynntist hugleiðslu fyrst en síðan kom jóga í kjölfarið. Ég fann þarna leið til þess að læra að þekkja sjálfa mig og það er ein stærsta gjöfin í mínu lífi."

Hún tekur þó fram að fólk leiti í jóga af mismunandi ástæðum. "Jógaæfingarnar eru nærandi og hreinsandi og margir koma af heilsufarsástæðum. Þær hafa mjög mikil áhrif á innkirtlastarfsemina og eru fyrirbyggjandi gagnvart mörgum sjúkdómum. Jógaiðkunin er einstök fyrir hvern og einn. Elsta manneskjan sem ég hef kennt jóga er nálægt áttræðu og yngsta manneskjan þriggja ára. Það yndislega við jógaiðkunina er að við getum verið að jóga saman þriggja ára og áttatíu ára og í augnablikinu er ekki svo mikill munur."