Hreyfing mun í febrúar taka í notkun Strive 1, 2, 3-tækin sem sögð eru ein áhrifaríkasta og virkasta styrktarþjálfun sem völ er á. Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, segir tæknina sem Strive-tækin byggjast á felast í því að allir helstu vöðvahópar líkamans eru þjálfaðir á þrjá mismunandi máta sem skilar meiri árangri á skemmri tíma en áður hefur þekkst. Strive-tækin eru m.a. notuð af bandaríska hernum sökum þess hversu hægt er að ná góðum árangri á skömmum tíma. "Tími fólks er dýrmætur og algengt að það hafi takmarkaðan tíma til líkamsræktar. Þessi leið hentar því vel fyrir þá sem vilja ná góðum árangri með því að stunda styrktaræfingar þrisvar sinnum í viku í 30 mínútur í senn," segir hún.
Hreyfing leggur áherslu á fjölbreytta möguleika til þjálfunar; einkaþjálfun, hópeinkaþjálfun, margskonar þolfimitímar, hjólatímar og Stott Pilates er meðal þess sem er í boði. Stott Pilates á nú miklum vinsældum að fagna, segir Ágústa. "Eitt megineinkenni Stott Pilates er aðlögun æfinga þannig að þær séu ávallt við hæfi hvers og eins miðað við getu, liðleika og aldur. Pilates-æfingarnar miða m.a. að því að þjálfa flata og sterka kviðvöðva, lengja vöðva og bæta líkamsstöðu auk þess sem Pilates bætir líkamsstöðu og losar um streitu," segir hún.
Hópeinkaþjálfun er líka hagkvæmur og góður kostur fyrir fólk á öllum aldri. "Auk þess að njóta leiðsagnar einkaþjálfara og ráðgjafa skapast gott og hvetjandi andrúmsloft innan hópanna og fólk hvetur hvað annað til dáða. Árangurinn hefur verið góður og sem dæmi má nefna að hópur sjö kvenna sem æfði saman í tíu vikur í haust missti samtals 50 kg og 300 sentimetra, sem verður að teljast frábær árangur," segir Ágústa Johnson.