Jónas Tryggvi Gunnarsson fæddist í Vík í Mýrdal 15. júlí 1927. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 19. desember síðastliðinn. Foreldrar Jónasar voru hjónin Guðný Jóhannesdóttir, húsmóðir, f. 13. desember 1891, d. 21. apríl 1971, og Gunnar Gunnarsson, bóndi og verslunarmaður, f. 15. mars 1889, d. 12. september 1944. Jónas var fimmta barn foreldra sinna, sem alls eignuðust átta börn. Einungis þrjú þeirra náðu fullorðinsaldri, auk Jónasar voru það Sigurður, f. 28. ágúst 1911, d. 16. maí 1993, og Lára, f. 21. janúar 1917, d. 26. apríl 1993. Kona Sigurðar var Kristín Loftsdóttir, f. 25. janúar 1917, d. 14. október 1989. Eiginmaður Láru var Jónas Jóhannesson, f. 4. febrúar 1904, d. 14. febrúar, 1974. Þau eignuðust átta börn, sex þeirra komust til fullorðinsára.

Hinn 7. janúar 1950 kvæntist Jónas Helgu M. Árnadóttur, f. í Miðey í A-Landeyjum 20. febrúar 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Margrét Sæmundsdóttir og Árni Einarsson. Margrét og Árni bjuggu fyrst í Miðey en síðar var Árni stöðvarstjóri Pósts og síma á Hvolsvelli.

Jónas og Helga bjuggu í Vík í Mýrdal frá 1950 til 1981, fyrstu þrjú árin á Bjargi en síðan í Galtafelli. Árið 1981 fluttu þau til Reykjavíkur og bjuggu í Álfheimum 31 fram til ársins 2002, þegar þau fluttu að Kristnibraut 25 í Grafarholti, þar sem Helga býr enn.

Jónas dvaldi sín uppvaxtar- og æskuár í Vík og lauk þaðan barna- og unglingaskóla. Hann fór snemma að sinna ýmsum störfum og á árunum um og eftir seinni heimsstyrjöld vann hann t.d. ýmis störf hjá breska setuliðinu. Seinnipart nóvember 1946 hóf Jónas störf, fyrstur Íslendinga, við Loranstöðina á Reynisfjalli í Mýrdal. Jónas starfaði sem tímavörður á Loranstöðinni allt þar til stöðinni var lokað um áramótin 1977-78. Frá 1978 til 1981 starfaði hann við afgreiðslustörf í Vík. Í Reykjavík vann Jónas fyrst sem húsvörður hjá Samvinnutryggingum í Ármúla, en því starfi sinnti hann í þrjú ár. Eftir það hóf hann störf sem leigubílstjóri og því starfi sinnti hann þar til hann lauk störfum árið 1997, sjötugur að aldri.

Hinn 26. mars 1949 eignaðist Jónas dóttur, Ásu Jarþrúði, með Mögnu Ásmundsdóttur. Ása er gift Ove Hansen, f. 4. febrúar 1945. Sonur þeirra er Gunnar, f. 19. október 1967. Kona hans er Lena Hansen, f. 7. maí 1967, dóttir þeirra er Stine Ása.

Börn Jónasar og Helgu eru: 1) Kristín, f. 1. maí 1950, maður hennar er Ómar Hauksson, f. 28. desember 1950. Börn þeirra: a) Haukur, f. 15. október 1971, sambýliskona Solveig Magnúsdóttir, f. 8. desember 1969, börn Magnús Bjartur og Hildigunnur. b) Rósa Dögg, f. 18. apríl 1974, sambýlismaður Róbert Haraldsson, f. 23. mars 1969, börn Kristófer Dan, Rebekka Rut og Tómas Orri. c) Jónas Logi, f. 17. nóvember 1975. d) Eva Björk, f. 10. nóvember 1979. 2) Guðný, f. 19. október 1951, maður hennar er Árni S. Sigurjónsson, f. 26. júlí 1948. Börn þeirra: a) Jónas Bjarni, f. 5. júlí 1974, kvæntur Kristínu Ýri Pálmarsdóttur, f. 26. febrúar 1974, börn þeirra Andri Freyr og Sunneva Ósk. b) Helga, f. 13. júlí 1979. 3) Margrét, f. 12. júlí 1953. Synir hennar og Ólafs Baldurssonar eru Baldur, f. 22. janúar 1979, og Hlynur, f. 15. júní 1988. 4) Ólöf, f. 28. september 1954, maður hennar er Guðmundur Valtýr Óskarsson, f. 4. febrúar 1956. Dóttir Ólafar er Maggý Elva Björgvinsdóttir, f. 2. desember 1973, sambýlismaður Wayne Melroses, f. 11. maí 1977. Börn Ólafar og Valtýs eru Ragnhildur Ósk, f. 11. apríl 1987, og Jóhannes Sturla, f. 21. febrúar 1989. 5) Árni, f. 6. júlí 1958. Sonur hans og Eddu Sigurðardóttur er Styrmir, f. 16. apríl 1992.

Jónas Tryggvi verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Það er ekki öllum gefið að eignast sannan vin á lífsleiðinni. Hann hef ég sannarlega átt í tengdaföður mínum þau 35 ár sem leiðir okkar hafa legið saman. Aldrei fóru á milli okkar styggðaryrði eða nokkuð það sem skyggt hefur á þessa vináttu þó svo að við hefðum sennilega gengið hvor sínum megin á Víkurbrautinni í gamla daga ef við hefðum verið samtíða í Víkinni. Þessi heiðursmaður kvaddi þennan heim að morgni 19. desember sl. af æðruleysi, saddur lífdaga, eftir erfið veikindi til margra ára. Hann kvaddi fjölskyldu sína, þakkaði samferðina og bað fyrir kveðjur til þeirra sem hann náði ekki til. - Þú varst orðinn þreyttur, minn kæri.

Jónas Tryggvi Gunnarsson var fæddur í Vík hinn 15. júlí árið 1927. Þar ólst hann upp við leiki og störf þess tíma, oft við erfiðar aðstæður og veikindi, sem tóku sinn toll hjá fjölskyldunni. Árið 1949 giftist Jónas eftirlifandi konu sinni Helgu M. Árnadóttur og eignuðust þau fimm börn sem öll eru á lífi. Fyrir átti Jónas eina dóttur. Heimili þeirra var í Víkinni fram til ársins 1981 er aðstæður höguðu því þannig að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur.

Í Vík vann Jónas alla almenna vinnu sem til féll. Hann var starfsmaður lóranstöðvarinnar á Reynisfjalli og starfaði við þá stofnun frá upphafi og þar til starfsemi hennar lagðist af. Milli sólarhringsvaktanna á Fjallinu var gripið í að keyra rútur eða mjólkurbíla því ekki var hægt að sitja auðum höndum og bíða eftir næstu vakt. Svo þurfti auðvitað að sjá stórri fjölskyldu farborða. Síðar rak Jónas sjúkrabifreið í Vík og voru þær ófáar ferðirnar sem farnar voru með Skaftfellinga til læknismeðferðar á Selfossi eða í Reykjavík. Þá skipti ekki máli þótt sandrok væri og nánast ófært til aksturs. Nokkrar koppafeitidollurnar var búið að bera á bílrúðurnar fyrir slíkar ferðir.

Í Reykjavík var heimili þeirra hjóna lengst af í Álfheimum 31. Þar var einnig til heimilis tengdafaðir Jónasar, háaldraður en hress, og veit ég ekki til þess að nokkurn skugga hafi borið á það sambýli. Hótel "amma" hefur alltaf staðið öllum opið og dvöldu börn okkar Stínu þar löngum er þau voru við nám í Reykjavík. - Hafið kærar þakkir fyrir alla þá aðstoð.

Ekki var ósamkomulaginu fyrir að fara þótt saman byggju fjórar kynslóðir. Málin rædd og skipst á skoðunum, öldungurinn kominn á níræðisaldurinn, tengdasonurinn og unglingurinn.

Í Reykjavík stundaði Jónas leigubílaakstur þar til starfsþrekið þraut. Alltaf þótti honum gott að fara í smábílferð. Þótt erfitt væri að liggja, sitja eða standa, heima fyrir, var ákveðin hvíld í akstrinum. - Þú hefur sennilega ekki verið alveg laus við bíladellu.

Að leiðarlokum rifjast upp ýmis þau atvik sem á dagana hafa drifið á okkar samferð. Það var mér t.d. sérstök ánægja að geta endurgoldið vináttuna og aðstoðina alla, þegar við fórum í utanlandsferðir sem þú hefðir ekki getað farið í óstuddur. Það var gaman í Þýskalandi þegar við fórum í hádegisbíltúrinn og gátum laumað okkur í pylsu og bjór svo lítið bar á. Einnig þegar við fórum í brúðkaupsafmæli dóttur þinnar í Danmörku.

Útför þessa heiðursmanns verður gerð frá Fossvogskirkju í dag en síðan verður hann jarðsettur í Víkinni og mun þar hvíla meðal foreldra sinna og systkina. - Kominn aftur heim. Takk fyrir samfylgdina, vinur minn.

Eftirlifandi eiginkonu, börnum og fjölskyldu allri bið ég Guðs blessunar. Minningin um góðan dreng lifir. Ég vil kveðja þig, kæri vinur, með ljóðlínu sem ég söng nú í lok desember með Karlakór Siglufjarðar og hæfir þér svo vel. - "Fólki þínu gjöfull varstu." - Hvíl þú í friði.

Ómar Hauksson.

Það var haustið 2000 sem ég ákvað að breyta til og flytja frá Siglufirði og auðvitað var ekkert annað til í dæminu en að fara að búa hjá ömmu og afa í Álfheimum eins og svo mörg af þeirra barnabörnum höfðu gert, þar á meðal systkini mín.

Það var gott að vera hjá þeim gömlu. Amma var alltaf tilbúin með heitan mat á kvöldin þegar ég kom heim eftir langan vinnudag og svo var auðvitað alltaf kvöldkaffi fyrir okkur afa þar sem við fengum okkur oftast tebolla og eitthvað með því. Aldrei var skortur á meðlæti, amma átti alltaf eitthvað í kistunni þó að ég hafi nú ekki verið jafn mikið fyrir kökurnar hennar ömmu eins og hann Haukur bróðir minn.

Þær voru margar stundirnar sem við afi spjölluðum saman og var oft glatt á hjalla hjá okkur og ég tala nú ekki um ef það voru fleiri með í þeim samræðum því það var mjög gestkvæmt í Álfheimunum. Barnabörnin kíktu inn sem og systur mömmu sem eru búsettar í Reykjavík og á Hellu enda styttra fyrir þær að koma heldur en mömmu og pabba frá Sigló og þær sem búa erlendis.

Það var svo um sumarið 2002 sem við fluttum í Grafarholtið í betri íbúð fyrir afa þar sem hann átti orðið í erfiðleikum með að fara upp alla þessa stiga. Við komum okkur vel fyrir. Allir hjálpuðust að við að taka upp úr kössum og ganga frá sem tók alveg ótrúlega stuttan tíma. Amma og afi voru alsæl í nýju íbúðinni sinni sem er svo fín og góð. En ég stoppaði ekki lengi við, keypti mér mína eigin íbúð í gamla góða 104 hverfinu okkar sem við vorum í. Þangað komu amma og afi í heimsókn til að leggja blessun sína á heimilið mitt og athuga hvort ekki færi vel um mig.

Þar sem pabbi minnist á að afi hafi verið með hálfgerða bíladellu er mér mjög minnisstæður bíltúr einn sem afi ákvað að fara í á góðum sumardegi á gamla Willysinum sínum. Hann sagði ömmu að hann ætlaði aðeins að skreppa en sú ferð endaði fyrir norðan, á Siglufirði, og það var ekkert verið að fara auðveldustu leiðina heldur fór hann Siglufjarðarskarð og hringdi svo í ömmu og sagði að bíltúrinn hefði endað á Siglufirði. Þetta var afa líkt.

Hann átti marga flotta bíla, flutti þá inn frá Ameríku og var auðvitað flottasti leigubílstjórinn í bænum, fannst okkur barnabörnunum, gaman að fara með afa í bíltúr þar sem fólk sneri sér við úti á götu þegar það sá svona flotta bíla. En í seinni tíð var hann tíður gestur hjá vinkonu sinni í bílaumboðinu Heklu þar sem hann laumaðist til þess að panta sér nýjan bíl án þess að láta nokkurn vita fyrr en hann kom á honum splunkunýjum heim á hlað. Var það síðast nú í sumar sem hann fékk sér gullfallegan Skoda og ekki var það nú verra þegar ég og Jónas bróðir fengum okkur líka Skoda eins og afi. Við ræddum oft um bíla og hann bauð mér í bíltúr svo að það væri nú hægt að hækka almennilega í græjunum, ég held svei mér, afi, að ég sé með smá dellu frá þér. Mér finnst gaman að keyra um á fallegum nýbónuðum bíl alveg eins og þú vildir hafa þá.

Mér brá mjög þegar Magga frænka kom til mín og færði mér þær fréttir að þú lægir alvarlega veikur á spítala, en ég er þakklát fyrir að hafa getað komið og kvatt þig, knúsað þig og kysst.

Elsku afi, nú þegar þú ert farinn held ég áfram að hugsa um ömmu, heimsækja hana eins oft og ég get og keyra hana þangað sem hún þarf að fara. Hennar missir er mikill að hafa þig ekki hjá sér.

Elsku afi, þú varst algjör hetja.

Þín

Eva Björk.

Elsku afi, hvíldin er komin. Höfðinginn sjálfur er farinn. Ekkert okkar getur ímyndað sér hversu miklar kvalir og verki þú hefur þurft að kljást við á undanförnum árum. Líkami þinn var þreyttur, en sálin þín sterk, alveg fram á hið síðasta. Það var alveg einstakt að geta kvatt þig á spítalanum, sterkur karakter þinn kom þar svo sannarlega í ljós. Þú kvaddir með reisn, alveg eins og þú hefur lifað. Þú varst stór og sterkur maður, mikill og hlýr karakter, með stórt hjarta. Stór maður sem gott var að knúsa í hálsakotið. Ég veit að hvíldin var þér kærkomin, en eftir situr samt söknuðurinn eftir góðan og kæran afa. Það sem er mér efst í huga í kveðjuorðum mínum til þín eru þakkir, þakkir fyrir allt það sem þú hefur gefið mér með samveru þinni og hjálpsemi. Alltaf var maður velkominn til ykkar ömmu, fyrst í Álfheimana og nú síðustu þrjú árin á Kristnibrautina í Grafarholti. Amma og afi hafa alltaf verið fastur punktur í tilveru minni, það er alveg einstakt hversu vel þið hafið haldið utan um fjölskylduna og hugsað um velferð okkar allra. Alltaf hægt að fá gistingu, mat eða bara notalegt innlit yfir kaffisopa og köku.

Fráfall þitt skilur eftir stórt skarð í fjölskyldunni, sem einungis er hægt að fylla upp í með góðum og hlýjum minningum um þig. Þau eru ótal skutlin sem þú hefur snúist með mann, afi bílstjóri, alltaf tilbúinn að keyra mann hvert sem þurfti, og helst tilbúinn og farinn út í bíl áður en maður var búinn að orða það að maður væri á leiðinni eitthvað!

Eins og ég sagði við þig þegar við vorum að kveðja þig á spítalanum, þú ferð frá góðu fólki, stórri og ástríkri fjölskyldu, í faðm ættingja og vina sem voru farin á undan þér og ég efa ekki að það verður tekið vel á móti höfðingjanum sjálfum.

Elsku amma, stóri maðurinn þinn er búinn að kveðja. Guð gefi þér styrk fyrir komandi tíma. Stóra fjölskyldan ykkar afa stendur við bakið á þér og saman höldum við áfram.

Elsku afi, takk fyrir allt. Ég geymi minningu þína í hjarta mér. Hvíl í friði.

Helga.

Elsku afi, nú er komið að kveðjustund. Það er ekki auðvelt að hugsa til þess að við eigum ekki eftir að hittast aftur. Mér þótti mjög vænt um þig. Ég á margar góðar minningar um þig sem ég á aldrei eftir að gleyma. Þar ber fyrst að nefna þegar ég var smá gutti í heimsókn hjá þér og ömmu í Vík. Þar áttum við góðar stundir saman og alltaf var jafn gaman að koma þangað í heimsókn og fá að fara í bíltúr með þér.

Ég hef alla tíð litið upp til þín og oft hefur þú verið fyrirmynd mín í vinnu og einkalífi.

Þegar ég minnist þín þá kemur strax upp í hugann vinnusemi þín og dugnaður. Ég dáðist oft að þér þegar þú varst að vinna sem leigubílstjóri. Þá fannst mér þú aldrei þurfa að sofa neitt. Þú gast setið, spilað og talað við okkur fjölskylduna heima fram yfir miðnætti. Þá fórst þú út og keyrðir leigubílinn fram undir morgun, og þegar við fórum á fætur þá varst þú kannski að koma inn í hádegismat og búinn að vera að keyra margar ferðir um morguninn líka. Þú hafðir mikinn áhuga á bílum og var mjög gaman að ræða við þig um bíla, sérstaklega um eldri bíla. Þú lést líka gamlan draum hjá þér rætast þegar þú fórst að gera upp gamlan herjeppa. Það var gaman að fylgjast með þér í því og síðan var alveg frábært að fylgjast með þér þegar þú varst að keyra um á bílnum. Þú fórst nú engar smá ferðir á þessum bíl, meðal annars til Siglufjarðar og að sjálfsögðu til Hellu og Víkur.

Þú varst mikill barnakarl og heilluðust öll börn af þér. Mínum börnum og fjölskyldu minni tókst þú alltaf vel og var alltaf jafn gaman að koma með fjölskylduna í heimsókn til þín. Þær síðustu stundir sem ég átti með þér á spítalanum voru ógleymanlegar, að fá að halda í hönd þína, faðma þig og kveðja. Þú kvaddir eins og þú hafðir lifað, með reisn.

Takk fyrir allt, elsku afi, hvíldu í friði.

Jónas Bjarni Árnason.

Kær vinur og elskulegur frændi er farinn í nýtt ferðalag og nú yfir á annað tilverustig. Já, genginn er góður maður, aldursforseti afkomenda Jóhannesar frá Skjögrastöðum.

Jónas Tryggvi hefur verið sem traustur klettur í hafi, jafnt í meðbyr sem mótbyr, og þeir eru margir sem notið hafa góðmennsku hans og velvilja.

Ég er svo heppinn og þakklátur fyrir að hafa átt margar góðar stundir með frænda. Oft á öllum tímum sólarhringsins, þar sem fjölmargt misgáfulegt var rætt eins og gengur. Á gamalkunnum slóðum okkar beggja hafa miklar spekúleringar og fjöldi upprifjunarstunda á Skjögrastöðum tengt saman fortíð, nútíð og vel inn í nánustu framtíð.

Þetta eru allt stundir sem munu lifa í minningunni.

Elsku frændi, ég mun sakna þín.

Megir þú hvíla í friði.

Kæra Bíbí, Kristín, Guðný, Magga, Ólöf, Árni, Ása og fjölskyldur. Guð styrki ykkur í sorginni.

Hrólfur Smári Jónasson.

Jónas Tryggvi er látinn á 79. aldursári. Jónasi kynntist ég fljótlega eftir að ég gerðist héraðslæknir í Vík haustið 1962. Hann var þá á besta aldri, tímavörður á Lóranstöðinni á Reynisfjalli, hraustmenni að burðum og óvílsamur.

Sjúkrabílar þekktust þá ekki fyrir austan Selfoss og var notast við það sem hendi var næst.

Fljótlega þróuðust mál þannig, að sjálfsagt þótti að leita til Jónasar, þegar koma þurfti veikum eða slösuðum á sjúkrahús, en hann átti Chevrolet stationbíl, árgerð 1955. Hann var alltaf tilbúinn, skjótur í förum og betri bílstjóra en honum hef ég ekki kynnst. Aldrei fannst manni hratt ekið, en einhvern veginn skilaði manni þó undrafljótt til Reykjavíkur, þegar þurfti að hafa hraðan á. Jónasi varð fljótt ljós þörfin á þessari þjónustu, en ekki voru horfur á að sjúkrabíll yrði keyptur í héraðið í fyrirsjáanlegri framtíð. Gerði hann sér þá lítið fyrir og keypti Chevrolet sendiferðabíl og lét innrétta hann svo hentaði til sjúkraflutninga.

Einhvern styrk fékk hann frá sýslunni til kaupa og reksturs bílsins, en reksturinn held ég að hafi fyrst og fremst hvílt á honum, en bílinn endurnýjaði hann síðar með öðrum öflugri. Þessari þjónustu sinnti hann allt fram undir 1978 minnir mig. Er mér ekki kunnugt um, að aðrir hafi tekið að sér slíkan rekstur sjúkrabifreiðar hérlendis, en sjúkraflutninga annaðist hann fyrir bæði Síðu- og Víkurhérað. Ekki tel ég, að Jónas hafi riðið feitum hesti frá útgerðinni, en alltaf sinnti hann þjónustunni með prýði. Eftir að Jónas tók að sér sjúkraflutningana hætti hann akstri fyrir KS í fríum sínum, en var um skeið einn héraðslögreglumanna í V-Skaftafellssýslu jafnframt starfinu á fjallinu.

Er Lóranstöðin var lögð niður fluttu þau Bíbí til Reykjavíkur. Starfaði Jónas þar um skeið sem vaktmaður í SÍS-húsinu í Ármúla, en síðustu starfsárin ók hann eigin leigubíl, Z-200.

Eins og fyrr sagði var Jónas hraustmenni, en um miðjan aldur fór hann að finna fyrir mjaðmakvellni sem lítt gekk að bæta og síðan bættist við margt annað.

Síðast þegar ég hitti vin minn studdist hann við tvo stafi. Spurður um líðan hristi hann sig gjarna og sagðist hafa það ágætt, það þýddi ekkert að vera að kvarta, en í raun væri hann alltaf að drepast. Ljóst er, að í mörg ár þjáðist hann og leið bölvanlega. Tel ég víst að hann hafi orðið feginn hvíldinni, sem ég vænti að verði honum góð.

Bíbí og fjölskyldunni sendi ég samúðarkveðjur.

Vigfús Magnússon.