Hans Jakob Beck, yfirlæknir lungnasviðs Reykjalundar, sinnir sjúklingi.
Hans Jakob Beck, yfirlæknir lungnasviðs Reykjalundar, sinnir sjúklingi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við beitum öllum brögðum hér á Reykjalundi til að fá fólk til að hætta að reykja," segir Hans Jakob Beck, yfirlæknir lungnasviðs á Reykjalundi. "Það er stefna staðarins og einnig SÍBS að þessi staður verði reyklaus í framtíðinni.

Við beitum öllum brögðum hér á Reykjalundi til að fá fólk til að hætta að reykja," segir Hans Jakob Beck, yfirlæknir lungnasviðs á Reykjalundi.

"Það er stefna staðarins og einnig SÍBS að þessi staður verði reyklaus í framtíðinni. Það er tímaspursmál hvenær það verður, það eru tvö svið þar sem enn er reykt, en á lungnasviði fær fólk ekki innlögn nema það sé reyklaust eða reyki ekki á staðnum.

Sama má segja um verkjasvið. Hvað snertir hjartveika er það hluti af meðferð að fólk hætti að reykja."

Hafa nálastungur verið reyndar hjá ykkur til að hjálpa fólki sem er að hætta að reykja?

"Já, Magnús Ólason, yfirlæknir verkjasviðs hér, hefur verið að stinga nálum í fólk í yfir 20 ár. Fyrst og fremst gerir hann þetta til að lina verki.

Boðið er upp á tvær til þrjár meðferðir fyrir fólk sem er að hætta að reykja en meðferðin miðar að því að vinna gegn fráhvarfseinkennum. Það, að hætta að reykja er fyrst og fremst ákvörðun sem einstaklingurinn tekur en það má létta líf hans í því ferli með ýmsu, þú spurðir um nálastungur, þær geta gagnað t.d. gegn fráhvarfseinkennunum sem koma þegar einstaklingurinn hættir, svo sem pirringi, eirðarleysi og fleiru sem einkum kemur fyrstu tvær vikurnar.

Magnús hefur í þessu skyni stungið tveimur nálum í andlit og svo nálum í og í kringum eyru og margir segja að þetta hjálpi."

En hvað um lyf?

"Það eru tvenns konar lyf notuð hér fyrir þá sem eru að hætta að reykja, annars vegar nikótínlyf í ýmsu formi og svo Zyban sem er í eðli sínu þunglyndislyf en hefur reynst vel í þessu sambandi. Það er einstaklingsbundið hvað er notað. Allt kostar þetta og nikótínlyfin eru nokkuð hár póstur í lyfjakostnaði hér á Reykjalundi.

Við ráðleggjum öllum sem eru að hætta að reykja að nota nikótínlyf.

Hér á Reykjalundi eru haldin námskeið fyrir fólk sem er að hætta að reykja og öllum sem hingað koma er ráðlagt að hætta reykingum. Við vitum að það er ekki auðveld ákvörðun og þess vegna fær þetta fólk heilmikla fræðslu og stuðning meðan það er að taka þessa ákvörðun og framfylgja henni.

Það er í sjálfu sér ekki nikótínið sjálft sem er heilsuspillandi þótt það sé ávanabindandi, heldur er það sígarettureykurinn. Nikótínlyfin dempa fráhvarfseinkenni en eru ekki hættuleg heilsu manna.

Zyban er lyf sem hefur áhrif á fíkn og það getur í sumum tilvikum haft mikla verkun í þá átt að dempa löngun í reykingar.

Þeim sem eru að hætta að reykja er boðin fræðsla sem fyrr segir og þátttaka í stuðningshópum. Á Reykjalundi starfa hjúkrunarfræðingar sem hafa mikla reynslu í reykleysismeðferð og hafa sýnt fram á góðan árangur."