Verslunin Maður lifandi var opnuð í Borgartúni fyrir rúmu ári og á haustmánuðum á liðnu ári var seinni verslunin opnuð í Hæðasmára í Kópavogi. Hjördís Ásberg framkvæmdastjóri segir að sá hópur fólks sem lætur sér nægja að kaupa í matinn í heilsuvörubúðum fari stækkandi. "Sumir versla einvörðungu svona matvöru og koma þá kannski tvisvar í viku. Stór hópur fólks gerir matarinnkaupin greinilega í svona verslunum og kemur til þess að verða sér úti um ýmsa þurrvöru, til dæmis baunir, kex, brauð, grjón, jafnvel álegg, sultur og allt mögulegt. Margir vilja forðast viðbættan sykur og hveiti og mjög margir koma til þess að kaupa inn fyrir einhvern í fjölskyldunni, vegna óþols eða ofnæmis, til þess að sneiða hjá alls kyns aukaefnum, þótt aðrir í fjölskyldunni borði annars konar fæði. Síðan er þriðji hópurinn sem er virkilega að þreifa fyrir sér og velur heilsuvörur vegna betra bragðs og meiri gæða, til dæmis ávexti, bæði ferska og þurrkaða. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur."
Ofnæmi og óþol
Hjördís kveðst hafa átt von á því til þess að byrja með að fólk sem kæmi í verslunina væri aðallega að því heilsunnar vegna. "Það virðist vera mikið um ofnæmi og óþol og vaxandi hópur sem ekki þolir ákveðnar fæðutegundir eða aukaefni, hvort sem ástæðan er sú fólk er að átta sig betur á því eða að því fer fjölgandi. Fullt af fólki vill breyta mataræðinu vegna alvarlegra veikinda eða minni kvilla. Það finnur hvað hægt er að breyta líðan sinni ótrúlega mikið með breyttu mataræði, þótt ég sé ekki að segja að það sé hægt að lækna sjúkdóma með því. Maður verður líka var við fólk sem vill breyta mataræðinu og er að reyna, en finnst það óskaplega erfitt og gefst upp. Kannski færist það of mikið í fang og reynir að breyta of miklu, of hratt. Margir byrja vel, en gefast svo upp. Stundum er það vegna þess, að það veit ekki hvað það á að nota í staðinn, ef það tekur eitthvað út úr mataræðinu, og er hreinlega ráðvillt," segir hún.
Einfalt og auðvelt
Til þess að mæta þessu er hægt að verða sér úti um leiðsögn í versluninni. "Við leggjum áhersla á einfaldar og auðveldar leiðir. Það gerum við með tilbúnum réttum og auðveldum og einföldum uppskriftum," segir hún.Maður lifandi nýtur meiri vinsælda meðal fólks sem vill koma og fá sér bita í hádeginu en ráð var fyrir gert í upphafi, segir Hjördís ennfremur.
"Sumir koma á hverjum degi, nánast allan ársins hring," segir hún.
Margir kjósa að kaupa í matinn í lágvöruverðsverslunum, sem ekki bjóða upp á heilsuvörur, og segir Hjördís þá sem versla í heilsuvöruverslunum ekki endilega með mikið fé milli handanna. "Það er ekki endilega fólk með mikla peninga sem verslar hjá okkur, heldur fólk sem forgangsraðar þannig, að það vill verja þeim í heilsusamlega matvöru. Sá hópur fer stækkandi, held ég, því það skiptir marga mun meira máli en að eiga fínan fatnað og fínan bíl. Svo er ekki víst að kostnaðurinn sé miklu meiri þegar upp er staðið, því maður sleppir svo mörgum óþarfa ef maður tekur heilsufæðið fram yfir. Fólk vandar sig líka meira við innkaupin," segir hún.
Hjördís kveðst hafa borðað heilsufæði í nokkur ár og lengi hafa haft áhuga á þessum geira verslunarrekstrar. "Ég fann hvað hollt mataræði skipti miklu máli, hvað mína heilsu varðar, og er í þessu af því að ég hef svo mikla trú á því. Ég er viss um að hægt væri að spara milljarða í heilbrigðiskerfinu ef meira væri spáð í hvað við látum ofan í okkur."
Maður lifandi hefur rekið heildsölu í hálft ár og sér Hjördís fram á að sá þáttur starfseminnar fari vaxandi. "Það hefur gengið mjög vel, enda fer verslunum fjölgandi sem vilja hafa heilsuvöru á boðstólum. Okkar vöxtur snýr því meira að heildverslun á næstunni. Framleiðslan á tilbúnum réttum og mat sem fólk getur gripið með sér á líka eftir að vaxa," segir Hjördís Ásberg.