Gróa Bjarney Helgadóttir fæddist í Forsæti í Vestur-Landeyjum 11. maí 1926. Hún andaðist á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 22. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin María Jónsdóttir frá Forsæti í V-Landeyjum, f. 21. okt. 1895, d. 18. júní 1972, og Helgi Bjarnason frá Kálfsstöðum í V-Landeyjum, f. 12. júlí 1888, d. 30. apríl 1959. Systkini Gróu Bjarneyjar eru sex, Skarphéðinn, f. 1915, Guðjón, f. 1917, Guðrún, f. 1920, Kristín, f. 1921, og Bjarni, f. 1930, sem öll eru látin, og Guðfinna, f. 1936, ein eftirlifandi, gift Hermanni Guðmundssyni, þau eru nú búsett á Hvolsvelli.

Gróa Bjarney giftist 15. október 1947 Þorláki S. Sigurjónssyni frá Tindum í A-Hún., f. 15. ágúst 1916, d. 17. apríl 1995. Börn þeirra eru fjögur, þau eru: 1) Sigrún, f. 1945, giftist Benedikt Grétari Ragnarssyni frá Vestmannaeyjum, f. 22. júlí 1942, d. 20. júní 1999. Hún býr í Kópavogi og á fjögur börn og ellefu barnabörn. 2) María, f. 1946, gift Þór Jóhannssyni. Þau búa í Kópavogi og eiga eitt barn og tvö barnabörn. 3) Sigurjón f. 1948, kvæntur Svanfríði Magnúsdóttur. Þau búa í Kópavogi og eiga sex börn og 10 barnabörn. 4) Gunnar, f. 1955, kvæntur Kristínu Eyjólfsdóttur. Þau búa í Reykjavík og eiga fjögur börn.

Útför Gróu Bjarneyjar verður gerð frá Laugarneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Þegar ungur ég var

og alls óhræddur við

hætturnar, sem lífið faldi mér

ég braust einn, gegnum her

sem að lagði að mér

ég var sár, þú komst og reistir mig

Ég fann leiðina á ný

og fékk styrk minn á því

er þú stóðst, við hliðina á mér

Nú stend ég á því

sem að þú lagðir í gjöfina,

sem að okkur færðir

mér og öllum sem á eftir

komu og lærðu það hjá þér

- nú sé ég dag á ný

Hvert sem ég fer - ertu hér

þú ert með mér þó að ég

sé einn á ferð

gegnum dimma dali fer

Hvar sem ég er - ertu mér

viti sem að merkir land í ólgusjó

þú stýrir mér í var

og ég finn þig aftur þar

Í bæn minni sæki ég

eldinn sem þarf

til að lýsa upp hjá mér nóttina

Í þann mund sem ég sé

að hún lokast ný leiðin þín

sem alltaf virtist greið

Kemur loginn frá þér

og hann kallar á mig

og nú sé ég veginn fram á við

Núna stend ég á því

sem að þú lagðir í gjöfina,

sem að okkur færðir

mér og öllum þeim á eftir

komu lærðu það hjá þér

- nú sé ég dag á ný

Hvert sem ég fer - ertu hér

þú ert með mér þó að ég

sé einn á ferð

gegnum dimma dali fer

Hvar sem ég er - ertu mér

viti sem að land í ólgusjó

þú stýrir mér í var

og ég finn þig aftur þar

Ég finn þig aftur þar

Ég finn þig aftur þar

(Einar Bárðarson.)

Þinn sonur

Gunnar.

Kæra tengdamamma.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Kveðja

Kristín.

Merk og mikilhæf kona er látin.

Gróa Bjarney Helgadóttir var glæsileg kona sem bar aldurinn vel. Hvar sem hún kom eða hvar sem hún fór, þá vakti hún svo sannarlega verðskuldaða athygli. Þegar ég kynntist Gróu og fór að venja komur mínar á Skúlagötuna var sjúkdómurinn sem að lokum hafði sigur, farinn að minna verulega á sig, en alltaf bar Gróa höfuðið hátt og við röbbuðum oft saman um það sem framundan væri. Hún kom mér ávallt fyrir sjónir sem afar skörp og í alla staði yndisleg kona. Hún var afar umhyggjusöm, og stundum fannst mér nóg um þegar hún, oft sárlasin, krafðist þess að fá að stjana við mig og færa mér eitthvert lostæti. Gróa bar svo sannarlega hag sinna nánustu fyrir brjósti og það var alltaf gaman að ræða við hana um það helsta sem var í fréttum á hverjum tíma. Hún fylgdist óhemju vel með og svo sannarlega lá ekki á sínum skoðunum um menn eða málefni. Ég er Guði þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Gróu Bjarneyju Helgadóttur.

Baldur.

Nú kveðjum við þig, elsku amma, með einni bæn af mörgum sem þú kenndir mér, og við Halli syni okkar Björgvini Þór. Bænirnar eru fjölskyldunni mjög mikilvægar, og þegar Gunnar Hugi hefur aldur til munum við kenna honum þær.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þú munt lifa í hjarta okkar allra.

Guð geymi þig, elsku amma og langamma

Þórdís, Halldór, Björgvin Þór og Gunnar Hugi.

Amma mín Gróa Bjarney Helgadóttir er látin eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm í um tvo áratugi. Amma mín var glæsileg kona og þrátt fyrir mikil veikindi bar hún ávallt höfuðið hátt. Yfir rúmi ömmu og afa hékk mynd af engli sem vísaði tveimur börnum yfir brú. Þessi mynd var í miklu uppáhaldi hjá mér og er reyndar enn og ég þreyttist sjaldan á útskýringu ömmu á myndinni það sem hún sagði að engillinn væri að vísa börnunum veginn. Það sem stendur hins vegar upp úr minningu minni af ömmu er þegar ég fór ásamt henni, afa og foreldrum mínum til Danmerkur í þrjár vikur fyrir um 20 árum. Þar sem ég var eina barnið í hópi fjögurra fullorðinna hlaut ég óskipta athygli en þar lærðum við amma báðar í fyrsta sinn á tölvuspil.

Þar sem ég var ekki alin upp í nágrenni við ömmu og afa eru minningarnar framan af ekki margar. Ég naut hins vegar góðs af þegar ég byrjaði í menntaskóla að þau afi bjuggu nálægt skólanum. Ég fór nokkrum sinnum í viku til þeirra eftir skóla og lét ömmu stjana við mig. Það var alveg sama hvenær maður kom alltaf galdraði amma fram dýrindis kaffimeðlæti og einhvern veginn fannst mér alltaf allt best hjá henni þrátt fyrir að sömu veitingar væru bornar á borð á öðrum heimilum. Á þessum tíma spjölluðum við amma mikið saman, hvort sem það voru Íslendingasögurnar eða nýjustu fréttir, alltaf var amma með málefnin á hreinu. Síðustu ár hef ég búið erlendis og hafa samskipti okkar ömmu því mest verið símleiðis en yfirleit stóðu símtölin vel á aðra klukkustund. Það var alveg sama þótt amma væri mjög veik þá sló aldrei út í fyrir henni, hún vissi nákvæmlega hvað ég og mitt fólk væri að gera hverju sinni.

Amma var mikið veik síðustu mánuðina en það var mjög sérstakt hvað henni leið vel yfir jólin og sótti hún öll jólaboð í fyrsta sinn í mörg ár. Það var erfitt til þess að hugsa þá að dagar hennar yrðu brátt taldir og reyndi ég að nýta hverja einustu stund með henni til hins ýtrasta. Ég á eftir að sakna þess að geta ekki komið til ömmu minnar og verið boðið í koníaksstofuna eins og hún kallaði útsýnishornið sitt á Skúlagötunni og rætt þar hin ýmsu málefni.

Elsku amma, hvíl þú í friði. Þín

Iða Brá.

Mig langar til að minnast hennar ömmu Gróu.

Um hana ömmu mína á ég svo margar góðar minningar. Ég naut þess í fjögur ár að vera eina barnabarnið, og ég var mikið í pössun hjá þeim ömmu og afa þar sem mamma var að vinna. Á morgnana þegar ég kom þá skreið ég upp í heitt rúmið hennar ömmu minnar og hún strauk mér um bakið þangað til ég sofnaði aftur. Mörg voru ferðalögin sem ég fór með þeim ömmu og afa, bæði um Suður- og Norðurland og í einni ferðinni er mér minnisstætt að það rigndi mikið og við amma sváfum í bílnum, en afi og Gunnar bróðir mömmu sváfu í tjaldinu. Um morguninn vöknuðum við amma þurrar og hlýjar en þeir feðgarnir flutu út úr tjaldinu. Amma hafði gaman af því að hafa mig fína, hún bæði saumaði á mig og keypti fín og falleg föt. Þegar þau amma og afi fóru til Parísar keypti hún á mig fallega hvíta spariskó. Þessir fallegu hvítu spariskór voru alltaf kallaðir Parísarskórnir.

Elsku amma Gróa, ég á eftir að sakna þess að koma ekki til þín á Skúlagötuna eftir vinnu á föstudögum, í spjall, kaffi og ristað brauð.

Elsku amma Gróa, Guð geymi þig.

Bjarney Sif.

Þegar við systkinin sitjum hér saman og rifjum upp skemmtileg atvik úr æsku okkar, þá ert það þú sem kemur upp fyrst í huga okkar, allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman með þér og afa Þorláki í sumarbústaðnum okkar á Kiðjabergi. Nú getum við ekki annað en brosað í gegnum tárin elsku amma þú varst með svo skemmtilegan húmor og ákveðnar skoðanir á öllu. Öll skipuðum við greinilega stóran sess í hjarta þínu, því varla leið sá dagur að þú spyrðist ekki fyrir um okkur og hvort ekki gengi örugglega vel hjá okkur öllum. Þetta þótti okkur svo óstjórnlega vænt um. Okkur er sagt að tíminn græði öll sár, en minningarnar um yndislega ömmu mun hjálpa okkur öllum í gegnum erfið tímamót. Hún amma Gróa mun vera sem ljós í huga okkar allra.

Ljúfir englar leiði þig um ljóssins vegi

aldrei gleymast okkar fundir

öll við þökkum liðnar stundir

(J.H. SV.)

Þín barnabörn

Atli Geir, Guðbjörg Kristín, Hildur Edda, Anna Lind.

Það myndast tómarúm þegar góður vinur kveður og minningarnar hrannast upp.

Við Trúmann fluttum á Hvolsvöll haustið 1950, með tveggja vikna son. Fljótlega kynntumst við Gróu og fjölskyldu hennar, Þorláki og börnunum sem þá voru þrjú, en fljótlega bættist það fjórða við.

Gróa var hæglát og fremur seintekin, en þegar vináttu hennar var náð, var hún sannur og góður vinur. Þegar börnin mín voru tveggja og þriggja ára lánaði hún mér dóttur sína, Sigrúnu, sem þá var átta eða níu ára, til að gæta þeirra. Það var ótrúlegt hvað þessi litla hnáta gat haft lag á þessum krílum, en þau dýrkuðu hana og dáðu. Gott var að leita til Gróu sama hvað það var, kökuuppskriftir, barnafatasnið og svo margt annað sem við gátum rætt saman um.

Gróa var afar myndarleg húsmóðir og oft var gestkvæmt hjá þeim hjónum.

Góð kynni tókust með fjölskyldum okkar. Eiginmennirnir höfðu sameiginleg áhugamál, sem voru útivist, veiðar og bílar, en þar var Þorlákur á heimavelli, en hann var bifvélavirki, og það góður í faginu.

Við fórum í ferðalög saman um fallega landið okkar, börnin voru oft með, stundum fórum við fjögur, en stundum líka sex saman, þá bættust í hópinn kærir vinir, hjónin í Djúpadal, Guðrún systir Gróu og Alexander.

Þegar ég hugsa um þessar ferðir eru þær í endurminningunni baðaðar sólskini og gleði.

Ógleymanlegar voru ýmsar samverustundir svo sem þegar við nokkrar vinkonur stofnuðum saumaklúbb sem hittist reglulega. Ekkert var saumað en í staðinn spiluðum við bridds þar sem Anna Margrét, ein í hópnum, kenndi okkur og æfði. Eiginmönnunum þótti þetta skrítinn saumaklúbbur.

Svo fluttum við í Hveragerði eftir tuttugu og tvö yndisleg ár á Hvolsvelli.

Gróa og Þorlákur hjálpuðu okkur við að pakka, flytja og svo að koma öllu fyrir á nýja staðnum.

Skömmu seinna fluttu þau svo til Reykjavíkur.

Allir voru í krefjandi störfum og vinafundum fækkaði en vináttan var óbreytt. Þegar Þorlákur veiktist var Gróa sem klettur við hlið hans þar til yfir lauk.

Síðar flutti hún í fallega íbúð á Skúlagötu 20 í Reykjavík. Hún var þá lengi búin að berjast við illvígan sjúkdóm. Þegar ég kom til Gróu var hún ævinlega vel tilhöfð, fín og falleg. Þannig vildi hún vera og þannig var hún.

Hún vildi fram á síðustu stund laga kaffi ef vinir eða vandamenn komu í heimsókn.

Ég sé hana fyrir mér þar sem hún sat á móti mér, dillaði sér svolítið og hagræddi sér í stólnum og sagði: "Segðu mér nú eitthvað skemmtilegt," og svo töluðum við um gamla daga, lífið og tilveruna, lífið eftir dauðann og margt, margt fleira.

Hún fór oft fárveik inn á Landspítalann, en þegar af henni bráði vildi hún alltaf fara heim á Skúlagötuna.

Að síðustu varð hún að horfast í augu við að hún þurfti meiri umönnun.

Þá var líknardeildin í Kópavogi síðasti viðkomustaðurinn. Þar er yndislegt starfsfólk og andrúmsloftið hlýtt og gott. Þar var allt gert sem hægt var til að Gróu liði ekki illa og börnin hennar og tengdabörn vöktu yfir henni hverja stund.

Ég var svo lánsöm að sitja hjá henni ein, nokkra stund síðasta daginn. Þá gat ég kvatt hana og beðið fyrir kveðju til Þorláks. Ég er sannfærð um að hún er búin að skila henni.

Börnum hennar, fjölskyldum þeirra, ættingjum og vinum, votta ég samúð mína.

Góður Guð varðveiti Gróu og Þorlák.

Fölna lauf og blikna blóm,

blöð sín hneigja

undir þennan dulardóm

að deyja.

Þó fölni laufin, blikni blóm

og blundi kraftur,

undir vorsins virkum róm

þau vakna aftur.

(J. Hj. Jónsson.)

Birna Frímannsdóttir.

Það var sunnudag fyrir nákvæmlega 70 árum að lítil 10 ára stúlka stóð í baðstofunni í Eystri-Tungu, ásamt móður sinni, Maríu frá Forsæti. Hún var komin til að dvelja á heimili foreldra minna og okkar systkinanna í 2-3 vikur til að sækja farskóla. Kennslan fór fram á næsta bæ, Vestri-Tungu. Við Gróa vorum jafngamlar. Við horfðum feimnar á hvor aðra drykklanga stund, þar til Gróa rauf þögnina og spurði ,,Er langt að fara í skólann?" Við fórum okkur hægt í að kynnast en fundum strax löngunina hjá hvor annarri að vera vinkonur. Við sannarlega urðum það og eignuðumst vináttu allt lífið sem aldrei bar skugga á.

Gróa féll strax inn í barnahópinn í Eystri-Tungu. Við vorum 8 börn á heimilinu sem sóttum skólann. Þrjú af okkur voru frá öðrum heimilum í sveitinni. Samkomulagið var svo gott milli okkar að það heyrðist aldrei hækkaður rómur. Það var mjög gaman í skólanum. Við höfðum góða kennara sem okkur þótti vænt um eins og Magnús Sveinsson, Pál Gunnarsson og Ingimund Stefánsson. Þeir eru efstir í huga mínum. Mikið var nú oft gaman. Við skautuðum á lækjunum á kvöldin við stjörnubjartan himin og tunglsljós.

Við Gróa áttum samleið í flestu, við fermdumst saman. Við vorum 9 börn sem fermdumst vorið 1940. Til gamans langar mig að geta þess að þegar við áttum 50 ára fermingarafmæli komum við saman og áttum einstaklega skemmtilegt kvöld sem stóð fram undir morgun. Við rifjuðum upp gömlu dagana frá æskuárunum, nutum þess að hlæja saman. Síðan hefur blessaður hópurinn þynnst á örfáum árum, 6 úr hópnum hafa horfið á guðs síns fund. Blessuð sé minning þessa góða fólks. Það var skemmtilegt að vera í návist Gróu á gleðistundum. Hún var orðheppin og hláturmild.

Gróa var mjög sterkur persónuleiki og traustur vinur. Hún var ung þegar hún hitti lífsförunaut sinn Þorlák Sigurjónsson, formann bifreiðaverkstæðis Kaupfélags Rangæinga á Hvolsvelli. Þau stofnuðu fallegt heimili á Hvolsvelli. Þau eignuðust fjögur góð börn, sem öll hafa komið sér vel áfram. Gróu var afar annt um fjölskyldu sína. Þorlákur var greiðugur maður. Veit ég það að bændum þótti gott að leita til Þorláks með vinnuvélar og önnur farartæki sem þeir máttu ekki missa í brakandi þurrki. Hann gerði allt til að greiða götu þeirra.

Þorlákur og Gróa voru annáluð fyrir gestrisni. Sjaldan kom Þorlákur einn heim til sín í mat eða kaffi, hafði hann með sér menn sem hann var að vinna fyrir á verkstæðinu. Alltaf var Gróa til staðar með fullt borð af kræsingum. Hún var húsmóðir í besta skilningi þessa orðs. Hún var alltaf til staðar fyrir fjölskyldu sína. Heimilið alltaf fínt og fágað. Hún sjálf alltaf fín og flott.

Eftir að Gróa missti Þorlák hittumst við oftar. Við varðveittum barnið í okkur sem kom fram þegar við hittumst á góðri stund. Ég hef svo margt að þakka Gróu, ekki síst gæðin við foreldra mína og allt mitt fólk. Okkur þótti öllum svo vænt um hana. Ég vil þakka allar samverustundirnar. Ég samgleðst góðu vinkonu minni að vera frjáls og laus við þjáningarnar sem háðu henni svo lengi. Ég trúi að hún sé komin á fund guðs, þar sem sannleikann og fegurð er að finna.

Ég sendi börnunum hennar og allri fjölskyldunni mínar innilegustu samúðarkveðjur og þakka þeim alla góðvild við mig.

Blessuð sé minning Gróu Bjarneyjar Helgadóttur.

Sigríður Ársælsdóttir

frá Eystri-Tungu.

Í dag kveð ég kæra vinkonu, Gróu Bjarneyju Helgadóttur, sem lést 22. febrúar síðastliðinn.

En um leið er lokið langri og erfiðri baráttu hennar við illvígan sjúkdóm en þar sýndi hún hversu sterk, kjarkmikil og bjartsýn hún var.

En að lokum varð hún að játa sig sigraða.

Okkar góðu kynni hófust fyrir liðlega 8 árum og frá fyrstu stundu tókust með okkur góð vinátta sem var að hafa óslitið fram á þennan dag.

"Að heilsast og kveðjast - það er lífsins saga" og nú hefur Gróa kvatt þennan heim en eftir lifa góðar minningar.

Ég trúi því að Gróa sé komin í hóp ástvina sinna, þeirra sem voru á undan henni gengnir.

Megi góðar minningar um frábæra konu styrkja fjölskyldu hennar á sorgarstundu.

Guð blessi minningu hennar.

Birgir Kristjánsson.