Verk Þóru Marteinsdóttiur, Ferðamaðurinn, var prýðilega flutt af blásarakvintettinum Renaissance Brass, að mati Jónasar Sen.
Verk Þóru Marteinsdóttiur, Ferðamaðurinn, var prýðilega flutt af blásarakvintettinum Renaissance Brass, að mati Jónasar Sen. — Morgunblaðið/Þorkell
Verk eftir Gabrieli, di Lasso, Locke, Mosko, Diönu Rotaru, Úlfar Inga Haraldsson, Önnu S. Þorvaldsdóttur og Þóru Marteinsdóttur. Laugardagur 8. júlí.

Á SÍÐARI tónleikum laugardagsins í Skálholti má segja að vindurinn hafi verið í meginhlutverki. Svo til eingöngu blásturshljóðfæri komu við sögu, bæði úr málm- og tréfjölskyldunni.

Fyrst og síðast á dagskránni var blásarakvintett frá Svíþjóð, Renaissance Brass. Eins og nafnið gefur til kynna flutti kvintettinn aðallega eldri tónlist, en hún var eftir Gabrieli, Locke og di Lasso. Yfirleitt var leikur kvintettsins til fyrirmyndar, flestir tónar voru tærir og þægilega ávalir og hljómuðu ágætlega í ríkulegri endurómun kirkjunnar.

Lítið en snyrtilega samið verk eftir Þóru Marteinsdóttur, Ferðamaðurinn, var líka prýðilega flutt af kvintettinum; þunglyndislegt tónmálið var sérstaklega undirstrikað af drungalegum, nánast draugalegum básúnuhljómnum og var útkoman eftirminnileg.

Fjögur flautuverk voru á efnisskránni. Eitt var eftir Stephen Lucky Mosko, margbrotin tónsmíð sem Berglind María Tómasdóttir lék á sannfærandi hátt. Berglind flutti líka In Two Different Places eftir Önnu Þorvaldsdóttur, en sú tónlist var einstaklega seiðandi í einfaldleika sínum og Berglind María Tómasdóttir spilaði hana af undursamlegri mýkt sem skapaði magnaða stemningu. Þau Berglind og Kolbeinn voru jafnframt með allt á hreinu í Reve bleu eftir Diönu Rotaru, en þar var stígandin svo úthugsuð að hápunkturinn var óvanalega áhrifamikill.

Sömuleiðis var litrík tónsmíð eftir Úlfar Inga Haraldsson, L'unione sacra, sem Kolbeinn lék ásamt Guðrúnu Óskarsdóttur semballeikara, dásamleg áheyrnar. Kolbeinn hefur glæsilega tækni og ótrúlega fókuseraðan, merkingarþrunginn tón; hann kann þá list að láta fínlegustu blæbrigði segja heila sögu. Leikur Guðrúnar var líka hnitmiðaður og rafhljóðin, sem skreyttu verkin, sköpuðu skemmtilega andstæðu við forneskjulegt andrúmsloft sembalsins. Án efa var verk Úlfars og flutningurinn á því með því mergjaðasta á tónleikunum.

Jónas Sen

Höf.: Jónas Sen