George Bush og Vigfús Orrason leiðsögumaður með myndarlegan hæng sem forsetinn fyrrverandi veiddi í Selá. Bush landaði alls níu löxum í Selá.
George Bush og Vigfús Orrason leiðsögumaður með myndarlegan hæng sem forsetinn fyrrverandi veiddi í Selá. Bush landaði alls níu löxum í Selá.
Annað hollið í röð, sem veitt hefur yfir 100 laxa, lauk veiðum í Norðurá á sunnudag. Nálgast veiðin í ánni nú 700 laxa. Megnið af veiðinni, samkvæmt vef SVFR, er frá Glanna niður í Munaðarnes, en laxar þó að kroppast upp í dalnum.

Annað hollið í röð, sem veitt hefur yfir 100 laxa, lauk veiðum í Norðurá á sunnudag. Nálgast veiðin í ánni nú 700 laxa. Megnið af veiðinni, samkvæmt vef SVFR, er frá Glanna niður í Munaðarnes, en laxar þó að kroppast upp í dalnum.

Góður gangur er í veiðinni í Elliðaánum, að sögn Jóns Þ. Magnússonar veiðivarðar. Í hádeginu í gær voru 216 laxar komnir á land en 339 höfðu gengið gegnum teljarann. "Í nótt var lang stærsta gusan til þessa, 70 fóru í gegn," sagði hann. "Nú er bullandi straumur og fiskurinn streymir í ána."

Til þessa hefur fiskurinn langmest verið að veiðast neðst í ánni en er nú farinn að veiðast á flugusvæðinu uppi á dal, fiskar hafa náðst í Símastreng og báðum Kistum. Hafa um tíu til tuttugu laxar verið að veiðast á morgunvöktunum, sem venjulega gefa heldur betur.

Fimm laxar veiddust í opnun Svalbarðsár á dögunum og ágæt veiði mun vera í Rangánum, sem sækja í sig veðrið með hverjum deginum sem líður; nú munu þær vera að gefa 25 til 30 laxa á dag saman.

Smálaxinn er byrjaður að ganga í Blöndu og fréttist af félögum sem veiddu ellefu stykki í Damminum sunnanverðum í beit.

Forsetinn veiddi með flugum margra bestu hnýtaranna

Við komu George H.W. Bush fyrrverandi forseta Bandaríkjanna til landsins, voru honum afhentar, auk veiðistangar frá Scott sem hönnuð var af Engilbert Jensen og hjóls frá 3X á Ísafirði, flugur hnýttar af mörgum kunnustu fluguhnýturum landsins. Voru þær í fluguveski úr laxaroði, sem Arndís Jóhannsdóttir hönnuður hjá Kirsuberjatrénu gerði í tilefni heimsóknarinnar. Flugurnar hnýttu þeir Sigurjón Ólafsson, Ingólfur Bragason, dr. Jónas Jónasson, Pétur Steingrímsson, Skúli Kristinsson og Oysten Aas frá Noregi. Voru þetta meðal annars Black Sheep, Frances, Dentist, Undertaker, Night Hawk, Fox Fly, Bill Young Fly, Crossfield, Kistubaninn og Sunray Shadow.

Þær komu greinilega að góðum notum þar sem forsetinn fyrrverandi landaði níu löxum í Selá.

Samkeppni um veiðimyndir

Stangveiðivefurinn www.votnogveidi.is og Hans Petersen hf. hafa hleypt af stokkunum samkeppni um bestu stangveiðimyndirnar 2006.

Myndavélin er orðinn nauðsynlegur hluti af staðalbúnaði veiðimanna og margir luma á frábærum myndum sem eiga án efa erindi í keppnina.

Keppt er í tveimur flokkum, flokki stemmingsmynda og fjölskylduflokki.

Þurfa þátttakendur að senda myndir sínar í netfangið ritstjorn@votnogveidi.is og láta fylgja einhverjar upplýsingar um myndina, auk þess fullt nafn, netfang og símanúmer ljósmyndara.

Tekið er við myndum út október, eða til loka sjóbirtingsvertíðarinnar.

Innsendar myndir verða sýnilegar á www.votnogveidi.is

Verðlaun fyrir þrjár bestu myndirnar í hvorum flokki verða vegleg, m.a. veiðileyfi í boði Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

veidar@mbl.is

Höf.: veidar@mbl.is