Ljóð á léttum nótum geymir stúdentaljóð Sturlu.
Ljóð á léttum nótum geymir stúdentaljóð Sturlu. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.
Eftir Ingveldi Geirsdóttur ingveldur@mbl.is

Við útskrifuðumst 1941 úr Menntaskólanum í Reykjavík og höfum hist á fimm ára fresti síðan þá," segir Sturla Friðriksson sem gaf nýlega út ljóðabókina Ljóð á léttum nótum en í henni eru níu ljóð sem hann samdi í tilefni af stúdentsafmælum sínum. "Ég var erlendis fyrstu árin eftir stúdentspróf svo það var ekki fyrr en á 15 ára stúdentsafmælinu sem ég samdi fyrsta ljóðið og svo hef ég samið eitt á fimm ára fresti síðan, fyrir utan tvö skipti þegar ég komst ekki á afmælishátíðina. Ég set oftast þekkt sönglag undir ljóðatextann og bekkurinn syngur þetta svo saman þegar hann hittist. Við urðum 65 ára stúdentar nú í ár og fyrir það samdi ég seinasta kvæðið í bókinni og gaf hana út."

Þetta er sjötta ljóðabók Sturlu en áður hafa komið út eftir hann bækurnar; Ljóð langföruls, Ljóð líffræðings, Ljóð líðandi stundar, Hjónasvipur og Spark. "Það er ákveðið þema í hverri bók sem ég hef gefið út og bendir titillinn til þess. Í Ljóð á léttum nótum eru stúdentaljóðin og ljóð við ýmis sönglög. Þetta er voðalega lítilfjörleg útgáfa af bókinni því fyrri bækur mínar hafa verið í bandi og þokkalega upp settar, en ég hugsaði að þetta væri nú gleðibók fyrir samstúdenta mína svoleiðis að það þyrfti kannski ekki endilega að hafa hana innbundna." Bækurnar eru margar hverjar fallega myndskreyttar af Sturlu, svo honum er greinilega margt til lista lagt.

Alinn upp við kveðskap

Sturla segir gömlu bekkjarfélagana vera samheldna. "Við höfum verið samheldinn hópur í gegnum tíðina og þjöppumst frekar saman þegar aldurinn færist yfir okkur. Við voru um 64 í árgangi og þegar við hittumst núna í ár vorum við kannski tíu, fimmtán með mökum, það saxast á hópinn með árunum," segir Sturla sem hefur mjög gaman af því að flytja kvæðin fyrir fyrrum bekkjarfélaga sína. "Ég hef líka tvisvar verið fenginn til að flytja ræðuna á árgangsafmælinu, líklega af því að ég er ekki mjög alvarlega þenkjandi og mér er það tamt að vera svolítið tvíræður og tala undir rós."

Aðspurður hvort hann hafi alltaf ort, jafnvel frá barnæsku, svarar Sturla að það megi segja það. "Ég er alinn upp við kveðskap, fólk mitt var yfirleitt með vísur og kvæði á hraðbergi. Móðurættin hafði sérstaka ást á ljóðagerð og móðir mín kenndi mér að kveðast á þegar ég var strákur. Sem unglingur fór ég í gagnfræðiskólann við Tjörnina sem hét þá Ágústarskóli, þar lærði ég bragfræði og fór þá strax að fást við að setja saman vísur af alvöru. Í öðrum bekk, þá líklega 14 ára, samdi ég þessa fyrir vin minn í bekknum:

Sáran bítur jörðu jel

jafnvel skrugga kemur

báran fleyi vaggar vel

veður gluggann lemur

Þetta eru sléttubönd, má lesa afturábak og áfram.

Þegar ég var 17 ára lærði ég ljóðið um Jörund hundadagakonung eftir Þorstein Erlingsson, utanað. Það samanstendur af 64 vísum með 8 ljóðlínum hver. Ég man mikið af því ennþá í dag."

Sturla segir að honum hafi alltaf verið svolítið létt um að setja saman vísur og kvæði. "Ég kann bragarhættina og kann að yrkja og þá liggur þetta nú létt fyrir."

Uppáhaldsljóðskáld Sturlu er Jónas Hallgrímsson. "Hann er mitt yndi, ég er náttúrufræðingur og kann mikið að meta hann. Grímur Thomsen er alltaf góð lesning, Þorsteinn Erlingsson er léttur og vísnaskáld gott og Stephan G. Stephansson er líka í uppáhaldi."

Sturla segist líklega eiga eftir að gefa út fleiri ljóðabækur. "Ég á heilmikið eftir óprentað af skáldskap, kalla það ruslakistuna mína sem ég þarf að koma út," segir hann og hlær en bókin Ljóð á léttum nótum fæst í Bóksölu stúdenta og fleiri bókabúðum á höfuðborgarsvæðinu.