Kristín Ingólfsdóttir
Kristín Ingólfsdóttir
KRISTÍN Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands (HÍ), tekur undir það álit menntamálaráðherra að það sé undir háskólunum sjálfum komið hvað þeir leggi mikið til bókakaupa.

KRISTÍN Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands (HÍ), tekur undir það álit menntamálaráðherra að það sé undir háskólunum sjálfum komið hvað þeir leggi mikið til bókakaupa. Hins vegar hafi þurft að skera niður framlög til bókakaupa á undanförnum árum og það sé ljóst að HÍ verði ekki háskóli á heimsmælikvarða nema með eflingu bókasafnsins.

"Til þess að við náum að framfylgja okkar stefnu þurfa tekjur skólans að aukast verulega. Að hluta til ætlum við að afla þessa fjár sjálf. Við erum jafnframt að sækjast eftir fjárveitingum frá ríki þannig að þær verði sambærilegar við fjárveitingar samanburðarskóla hér í nágrannalöndunum," segir Kristín og bendir á að það sé forsenda þess að HÍ nái að skipa sér í fremstu röð að tekjur skólans aukist - þar á meðal tekjur til bókakaupa.

"Við erum ekki að halda því fram að við getum náð að vera í röð fremstu háskóla miðað við núverandi ástand. Þetta er hins vegar liður í stærri sókn."

HÍ á í viðræðum við menntamálayfirvöld um þessar mundir og Kristín segist bjartsýn á framhaldið og niðurstöður þeirra viðræðna.

"Ég er bjartsýn á framhaldið miðað við þá stefnu sem við höfum sett okkur og þann einsetta vilja og raunhæfar aðgerðaráætlanir, sem við höfum sýnt til þess að ná okkar markmiði."

Undanfarið hafa verið miklar umræður um bókakost Háskóla Íslands í kjölfar greinar Guðna Elíssonar sem birt var í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 1. júlí síðastliðinn þar sem fram kom meðal annars að hann teldi að gjörbylta þyrfti bókasafnsmálum Háskóla Íslands til að gera hann að frambærilegum rannsóknaháskóla.