Eftir Brján Jónasson brjann@mbl.is ÞEKKTUR andstæðingur Kárahnjúkavirkjunar kærði í gær til lögreglu meintar njósnir starfsmanns ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo. Talsmaður Impregilo hafnar því að fyrirtækið stundi njósnir.

Eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

ÞEKKTUR andstæðingur Kárahnjúkavirkjunar kærði í gær til lögreglu meintar njósnir starfsmanns ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo. Talsmaður Impregilo hafnar því að fyrirtækið stundi njósnir.

Þórhallur Þorsteinsson, formaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, fór í Snæfellsskála sl. föstudag. Þegar hann ók brott sá hann bíl staðnæmast við skálann og frétti síðar að ökumaðurinn hefði snarast inn, ekki virt skálavörðinn viðlits en flett gestabókinni og ljósmyndað síður í bókinni þar sem þekktir andstæðingar virkjunarinnar höfðu skrifað nöfn sín. Hann hefði svo endað á því að rita nafn sitt og farið án þess að kveðja.

"Ég varð fljótt var við það á leið minni inn í Hrafnkelsdal að það var bíll á eftir mér, en hugsaði ekki sérstaklega um það. Ég stoppaði á Aðalbóli og sá bílinn þar aftur. Ég stoppaði þar í 20 mínútur í kaffi og varð var við að bíllinn var kominn aftur eftir það og fylgdi mér eftir út Hrafnkelsdal. Þá hafði ég áttað mig á því að þetta var bíllinn sem ég sá við Snæfellsskála," segir Þórhallur.

Hann segir bílinn hafa haldið sig í 500-1.000 metra fjarlægð og elt bíl sinn 40 km. Þórhallur segist að lokum hafa komist í hvarf og ekið inn að bóndabæ. Þá hafi bílstjórinn sem veitti eftirförina hikað en svo ekið framhjá á mikilli ferð.

Þórhallur segir að það sé ekki bara eftirförin sem hann finni að, hegðun mannsins í skálanum hafi verið óviðunandi. "Hann hefði getað boðið góðan daginn og óskað eftir að fá að sjá gestabókina, hann hefði fengið það og fengið að mynda það sem þar stóð. Það er ekkert þarna sem við erum að fela. En þessi framkoma var alveg óþolandi."

Fylgjast ekki með ferðum mótmælenda

Ómar R. Valdimarsson, talsmaður Impregilo, neitar að starfsmenn Impregilo stundi njósnir. Hann segir starfsmenn fyrirtækisins hvorki hafa þann starfa að elta umhverfisverndarsinna né hafi þeir á því áhuga. "Umhverfisverndarsinnum er velkomið að mótmæla hvar sem þeir vilja svo framarlega sem þeir hafa ekki áhrif á framgang verksins. Ef þeir hafa truflandi áhrif á framkvæmdina vegna þeirra verkþátta sem okkur hefur verið falið að vinna þá köllum við í lögreglu til að sjá um þau mál."