Rauðu línurnar sýna þá valkosti við lagningu annars áfanga Sundabrautar sem taldir eru koma til greina frá Gufunesi og yfir Kollafjörð.
Rauðu línurnar sýna þá valkosti við lagningu annars áfanga Sundabrautar sem taldir eru koma til greina frá Gufunesi og yfir Kollafjörð. — Ljósmynd/Framkvæmdasvið Reykjavíkurborgar
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is LAGNING annars áfanga Sundabrautar, sem fyrirhugað er að liggi frá Gufunesi upp á Kjalarnes, hefur verið kynnt í tillögu að matsáætlun, sem unnin var af Línuhönnun hf.
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

LAGNING annars áfanga Sundabrautar, sem fyrirhugað er að liggi frá Gufunesi upp á Kjalarnes, hefur verið kynnt í tillögu að matsáætlun, sem unnin var af Línuhönnun hf. Um er að ræða 8 km langan veg sem þverar Eiðisvík, Leiruvog og Kollafjörð.

Gert er ráð fyrir að lagning annars áfanga brautarinnar eigi sér stað í áföngum og að framkvæmdir við lagningu brautarinnar út í Geldinganes geti hafist á árinu 2008.

Tengist Vesturlandsvegi vestan við Leiðhamra

Fyrirhugað er að annar áfangi Sundabrautar liggi frá Gufunesi um Geldinganes, yfir Leiruvog, Gunnunes, Álfsnes og Kollafjörð að tengingu við Vesturlandsveg. Sundabrautin mun þvera Kollafjörð rétt vestan Helguskers og tengjast Vesturlandsvegi rétt vestan Leiðhamra.

Áætlað er að u.þ.b. átta til tíu þúsund íbúa byggð rísi á Geldinganesi og að fyrstu lóðum verði úthlutað á þessu ári, að því er fram kemur í skýrslu Línuhönnunar. Með lagningu Sundabrautar mun þjóðvegur frá Kvosinni í miðbæ Reykjavíkur upp á Kjalarnes, miðað við að farið sé um Sæbraut og Vesturlandsveg, styttast um 7,5 til 9 km eftir því hvort miðað er við svonefnda Innri- eða Ytri-leið, sem kynntar eru sem valkostir við lagningu brautarinnar.

Í matsáætluninni kemur fram að valkostur nr. 1 sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024. "Þar er gert ráð fyrir að seinni áfangi Sundabrautar tengist Vesturlandsvegi norðan við Kollafjörð með því að þvera Eiðsvík, Leiruvog og Kollafjörð. Gert er ráð fyrir að þveranirnar verði að mestu leyti á fyllingum og lágbrúm þar sem þarf. Eiðsvík verður þveruð á fyllingum að öllu leyti. Í valkosti 1 er gert ráð fyrir að brautin taki sveig til norðvesturs þar sem hún þverar Geldinganes nálægt miðju nesinu. Þar er gert ráð fyrir að brautin sé að hluta til í jarðgöngum. Hún þverar því mynni Leiruvogs töluvert vestarlega. Þverun hans er að mestu á lágri fyllingu en í henni verða tvær brýr, hvor sínum megin í sundinu, til að tryggja vatnsskipti í voginum. Brautin liggur vestan til á Gunnunesi þar sem hún kemur í land á Álfsnesi, liggur meðfram urðunarsvæði Sorpu og að Kollafirði. Til er samkomulag um legu Sundabrautar á Álfsnesi við mörk athafnasvæðis Sorpu í Álfsnesi. Þverun Kollafjarðar er einnig að mestu á fyllingu en í miðjum firði er gert ráð fyrir brú sem tryggir vatnsskipti innan við fyllinguna. Fyllingin í Kollafirði verður nokkuð hærri en fyllingin í mynni Leiruvogs vegna þess að land er nokkuð hátt báðum megin fjarðar," segir í skýrslu Línuhönnunar.

Gert er ráð fyrir að öll gatnamót Sundabrautar verði mislæg þar sem umferð um Sundabraut verði í svonefndu fríu flæði. Reiknað er með gatnamótum við Borgarveg á Gufunesi, og tvennum gatnamótum á Geldinganesi og einnig á Álfsnesi.

Er reiknað með mislægum gatnamótum á Kjalarnesi þar sem Sundabraut tengist núverandi Vesturlandsvegi vestan við Leiðhamra.

Niðurgrafin að nokkru leyti

Valkostur nr. 2 er að öllu leyti sambærilegur við valkost 1 fyrir utan þverun Geldinganess og Leiruvogs.

"Valkostur 2 gerir ráð fyrir legu töluvert austarlega á Geldinganesi og að Leiruvogur sé einnig þveraður innarlega í sundinu milli Geldinganess og Gunnuness.

Endanleg staðsetning á valkosti 2 gæti hins vegar legið einhvers staðar á milli legu valkostar 1 og teiknaðrar legu valkostar 2 innan athugunarsvæðisins [...]. Ekki er gert ráð fyrir jarðgöngum undir Geldinganes heldur verði hún að nokkru leyti niðurgrafin. Brautin liggur austan til á Gunnunesi þar sem hún kemur í land á Álfsnesi. Á Álfsnesi og yfir Kollafjörð er gert ráð fyrir sömu legu og í valkosti 1," segir í lýsingu Línuhönnunar á þessum valkosti við lagningu Sundabrautar. Fram kemur að lega Sundabrautar yfir Geldinganes og Álfsnes sé fyrst og fremst bundin af því að Leiruvogurinn er talinn hafa mikið umhverfislegt gildi. Vogurinn er á náttúruminjaskrá og fjörurnar njóta hverfisverndar. Þykja því veglínur inn fyrir Geldinganes og á innanvert Álfsnes ekki koma til greina.

"Þverun Kollafjarðar þykir heppilegri kostur en að fara með alla umferð til og frá höfuðborgarsvæðinu um botn Kollafjarðar. Þverunin styttir leiðina um 3,5 km. Auk þess bendir líkleg umferðaaukning næstu ár á hringvegi við Kollafjörð til þess að þörf sé á breikkun núverandi vegar áður en Álfsnesið byggist upp eftir 2024. Sú breikkun myndi rýra gildi útivistasvæðisins sem er í botni fjarðarins skv. deiliskipulagi Mógilsár og Kollafjarðar. Ekki þarf að koma til þessarar breikkunar ef Kollafjörður er þveraður," segir í skýrslu Línuhönnunar.

Almenningi gefst kostur á að senda athugasemdir við drögin til Línuhönnunar fyrir 19. júlí. Gert er ráð fyrir að matsáætlun verði svo skilað til Skipulagsstofnunar í lok júlí.

Eyjarnar eru á náttúruminjaskrá

ÞVERUN Leiruvogs og Kollafjarðar við lagningu Sundabrautar, er talin geta haft áhrif á vatnsskipti, strauma og seltustig. Til að koma í veg fyrir þetta verður gert straumlíkan til að kanna áhrif mismunandi útfærslna á brúaropum á hafstrauma.

Þá þykir ljóst að þeir ferskvatns-fiskstofnar sem hugsanlega geti orðið fyrir áhrifum vegna framkvæmdarinnar séu aðallega lax og sjóbirtingur. Í Leirvogsá hefur árleg meðalveiði síðustu fimm ára verið 615 laxar og 106 sjóbirtingar en í Úlfarsá 225 laxar og 106 sjóbirtingar. Nokkrar bleikjur veiðast einnig í þessum ám ár hvert. "Leitast verður við að meta tegundasamsetningu og stofnstærðir fiska í ánum sem eru innan áhrifasvæðis Sundabrautar," segir í skýrslu Línuhönnunar.

Eyjar á Kollafirði (Lundey og Þerney), Úlfarsá (Korpa) og Blikastaðakró, Leiruvogur og Varmá eru á náttúruminjaskrá. "Fjallað verður um ofangreind svæði í frummatsskýrslu. Gerð verður grein fyrir því hver hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar verða á verndargildi þeirra m.t.t. þeirra forsendna sem settar eru fram í Náttúruminjaskrá og tillögum Umhverfisstofnunar að Náttúruverndaráætlun."