* OLIVER Kahn , sem hætti að leika í marki þýska landsliðsins eftir HM, hefur hvatt félaga sinn Jens Lehmann til að halda áfram að spila fyrir Þýskaland .

* OLIVER Kahn , sem hætti að leika í marki þýska landsliðsins eftir HM, hefur hvatt félaga sinn Jens Lehmann til að halda áfram að spila fyrir Þýskaland . Lehmann sló Kahn út úr byrjunarliðinu fyrir keppnina í Þýskalandi og oftar en ekki hefur verið grunnt á því góða milli markvarðanna. "Hver leikmaður verður að gera þetta upp við sig sjálfur en hann er aðeins nýlega orðinn fyrsti valkostur. Hann var frábær í keppninni og gerði engin mistök og ætti því að halda áfram," sagði Kahn .

* CHRIS Cornes , leikmaður Wolves , hefur verið dæmdur í sex mánaða keppnisbann eftir að kókaín fannst í lyfjaprófi sem hann gekkst undir. Cornes , sem er 19 ára, hefur ekki enn leikið fyrir aðallið Wolves en lék sem lánsmaður með Port Vale í ensku 2. deildinni á síðustu leiktíð.

* DIDIER Deschamps var í gær ráðinn þjálfari Juventus . Tekur hann við af Fabio Capello sem fór til Real Madrid í síðustu viku. Deschamps lék með Juventus um árabil og varð heimsmeistari með Frökkum 1998. Hann stýrði Mónakó í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir tveimur árum en beið þar lægri hlut fyrir Porto . Deschamps gerði tveggja ára samning við ítölsku meistaranna.

* FABIO Capello , knattspyrnustjóri Real Madrid , hefur lýst því yfir að hann vilji kaupa hollenska sóknarmanninn Ruud van Nistelrooy frá Manchester United .

* ROBERTO Carlos, bakvörður Brasilíu , ber af sér allir sakir vegna marks Thierry Henrys sem sló Brasilíu út úr HM í átta liða úrslitum. Carlos segir að liðið hafi æft að varnarmenn skyldu ekki æða inn í teiginn í slíkum aukaspyrnum til þess að markvörðurinn gæti vaðið út í fyrirgjöfina. Hann segist því ekki hafa gert neitt rangt en að tilhugsunin um markið muni elta sig á næstunni.

*JOHN McEnroe,

þrefaldur Wimbledonmeistari, telur að samkeppnin milli Roger Federer og Rafael Nadal hafi gert Federer að betri leikmanni en þessir kappar léku til úrslita á Wimbledon og opna franska mótinu. "Sigur Federer var það besta sem gat gerst fyrir baráttuna á milli þeirra," sagði McEnroe í viðtali við BBC.

* MARTINA Navratilova telur að banna eigi keppendum að stynja á stórmótum í tennis. Hún segir að stunurnar séu ósanngjarnar gagnvart mótherjanum og séu þreytandi fyrir áhorfendur. Navratilova segir að keppendur séu vanir að hlusta eftir því þegar boltinn sé sleginn en nú heyrist það ekki fyrir stunum keppenda. Málið er mjög til umræðu eftir Wimbledon mótið þar sem Elena Dementieva kvartaði undan stunum Mariu Sharapovu.