FRIÐRIK Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, skemmti sér við sögusagnir af finnsku hrossataði á baksíðu Morgunblaðs 23. júní sl.

FRIÐRIK Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, skemmti sér við sögusagnir af finnsku hrossataði á baksíðu Morgunblaðs 23. júní sl. sem hann segir í svari til yfirdýralæknis (vegna fyrirspurnar frá mér) að hafi upphaflega verið "litháenskir spænir" notaðir til að þétta sprungur. Gott og vel, þótt hingað til hafi Íslendingar greint hrossaskít frá tréspónum. Aðalfréttin í svari Friðriks er hins vegar óvæntur fótaskortur forstjóra Landsvirkjunar á tungunni. Í galsanum lýsir hann nefnilega opnum sprungum undir Desjarárstíflu. Líkt og forstjóri Alcoa, sem kjaftaði frá orkuverði á Íslandi, sviptir Friðrik hulunni frá því að sprungurnar séu alls ekki lokaðar - öndvert við það sem jarðfræðingarnir Ágúst Guðmundsson og Jóhann Helgason héldu fram í Morgunblaðinu 31. mars 2003 og Landsvirkjun hefur síðan hamrað á.

Voru sprungurnar trúnaðarmál líkt og orkuverð til álvera er trúnaðarsamband þeirra og Landsvirkjunar gegn íslensku þjóðinni? Opnar sprungur þýða væntanlega að þær eru yngri en 10 þúsund ára gamlar og enn virkar - ekki satt, Friðrik? Berggrunni Desjarárstíflu var tæpast lýst á þann hátt í hættumati umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar - ekki satt, Friðrik? Er þá ekki ástæða að spyrja: Hvers vegna hefur Landsvirkjun leynt því að Desjarárstífla hvílir á virkum sprungum þunnrar úthafsskorpu, rétt eins og Kárahnjúkastífla?

Ekki satt, Friðrik?

Höfundur er náttúrufræðingur.