KAJAKKONAN Rotem Ron, sem rær í kringum landið, er nú byrjuð á erfiðasta hlutanum, sjálfri suðurströndinni. Hún reri Austfirðina á rúmri viku og hvíldi sig síðan á Höfn. Straumar liggja stöðugt upp að suðurströndinni og geta auðveldlega hrakið báta upp í fjörubrim. Njóta ræðarar því engrar hjálpar frá straumi eins og útaf Norðurlandinu þar sem straumurinn liggur austur með landinu. Norður- og suðurströndin eru því gerólíkar hvað þetta snertir og í þokkabót er spáð suðlægum áttum. Skilaboð hennar eftir að hún lagði af stað frá Höfn voru einföld: "Er á svarta sandinum mikla," og er þar átt við Skeiðarársand.
Hringróðrinum á að ljúka við Stykkishólm, þaðan sem Rotem lagði af stað fyrir réttum mánuði. Takist henni að róa hringinn verður hún fyrsti kajakræðarinn til að afreka það í einmenningsleiðangri á kajak.