— Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.
Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is

RÚSSNESKIR sérsveitarmenn felldu í fyrrinótt Shamíl Basajev, leiðtoga uppreisnarmanna úr röðum tétsenskra aðskilnaðarsinna, í aðgerð í Íngúshetíu, að sögn Nikolaj Patrúshev, leiðtoga rússnesku leyniþjónustunnar, FSB, í gær.

Talsmenn uppreisnarmanna vísuðu þessu hins vegar á bug í gær og sögðu Basajev hafa látist af slysförum, þegar flutningabíll sem flutti sprengiefni hefði sprungið í loft upp.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, tjáði sig um málið í gær og sagði dauða Basajev "réttláta hefnd" vegna ódæðisverka hans. "Þetta er réttlát refsing fyrir að myrða börnin okkar í Beslan," sagði Pútín í gær.

Basajev er þannig talinn ábyrgur fyrir mörgum af helstu árásum uppreisnarmanna í Tétsníu, þ. á m. hryðjuverkinu í Beslan í maí 2006, þar sem 375 manns féllu, þar af 186 börn.

Þá er Basajev talinn hafa gegnt lykilhlutverki í skipulagningu gíslatöku í leikhúsi í Moskvu árið 2002, þar sem 129 manns létu lífið. Basajev varð óformlegur leiðtogi uppreisnarmanna í kjölfar dauða Aslan Maskhadov, þáverandi leiðtoga aðskilnaðarsinna, í mars 2005 og var gjarnan talinn lykilhlekkurinn í tengslum þeirra við íslömsku jíhad-hreyfinguna.

Hermaður fylgist með því er bíll sem skemmdist í sprengingunni, sem banaði Shamíl Basajev skammt frá Ekazhevo, er hífður á brott.