VALTÝR Sigurðsson fangelsismálastjóri telur mikilvægt að tryggja fjármagn upp á um 200 milljónir króna til að ljúka hönnunar- og teiknivinnu vegna uppbyggingar fangelsanna í landinu og ekki sé réttlætanlegt að fresta lengur byggingu nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu við Hólmsheiði. Binda þurfi enda á 46 ára gamla byggingarsögu fangelsisins en aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu gætu sett fangelsismálin í ákveðið uppnám. Fram til ársins 2010 þarf 2,1 milljarð króna til uppbyggingar fangelsanna í landinu, þar af 500 milljónir í Fangelsið Litla-Hraun samkvæmt tillögum fangelsismálastjóra. Fangelsismálayfirvöld leggja nú aðaláherslu á að sá tími, sem ætlaður var til áframhaldandi hönnunar- og teiknivinnu við fangelsin, verði nýttur. Nú þegar er teiknivinnu lokið vegna stækkunar fangelsisins að Kvíabryggju og er næsta skref að hefja sjálfar framkvæmdir. Segist Valtýr vonast til að hægt verði að fara í framkvæmdirnar. Við Akureyrarfangelsið hefur teiknivinnu verið lokið en framkvæmdum verður líklega frestað þar að sögn Valtýs.
Vantar fjármagn í hönnunar- og teiknivinnu
"Það vantar fjárveitingu fyrir hönnunar- og teiknivinnu fyrir Litla-Hraun og Hólmsheiði," segir hann. "Ég tel afar brýnt að tíminn verði nýttur næstu tvö ár sem ætlaður var fyrir hönnunar- og teiknivinnu vegna nýja fangelsisins þannig að í ljós komi að þeirri vinnu lokinni hvort verði ráðist í framkvæmdir eða þeim frestað. Miðað við þann þrýsting sem er á hinni nýju byggingu tel ég afar óskynsamlegt að nota ekki tímann til hönnunar ef fresta þarf framkvæmdunum."
Fangelsin eru yfirfull
Valtýr segir fangelsin í landinu nú yfirfull og illa í stakk búin til að taka á móti föngum sem eru illa á sig komnir vegna fíkniefnaneyslu. Engin meðferðardeild sé til staðar til að mæta þessum vanda.Í landinu eru 140 fangapláss og þar af eru 87 á Litla-Hrauni sem stofnað var árið 1929. Enn lengra er frá stofnun Hegningarhússins Skólavörðustíg en saga þess nær aftur til ársins 1874 og hefur fangelsið verið rekið á undanþágu árum saman. "Þessi undanþága er háð því að árið 2010 verði lokið við byggingu nýs fangelsis og ég tel að þessi undanþága sé forsenda þess að standa eigi við þær framkvæmdir," segir Valtýr.