ER tónlist trúarbrögð? Hún virðist vera það fyrir Úlfari Inga Haraldssyni ef marka má orð hans í skránni sem fylgdi fyrri tónleikum laugardagsins í Skálholti. Úlfar segir að trú sé ákaflega samtvinnuð tónlistariðkun hans og þegar hann leiki á hljóðfæri sé það fyrir honum hugleiðing, andleg iðkun. Tónlistin sem flutt var á tónleikunum var öll eftir Úlfar og sagði hann að músíkinni væri ætlað að vekja til umhugsunar um þrjá veruleika og samspil þeirra; drauminn, vökuna og lífið eftir dauðann.
Í orðum Úlfars endurómar mörg þúsund ára saga. Tónlist hefur tengst trúariðkunum frá ómuna tíð; í Mesópótamíu fyrir um fimm þúsund árum voru t.d. reist musteri helguð náttúruguðum sem varð að friðþægja með viðeigandi söng- og hljóðfæraleik. Egyptar til forna, sem voru þeirrar skoðunar að mannsröddin væri máttugasta tækið til að ákalla guðina, þjálfuðu hofpresta sína vandlega í söng; Babýlóníumenn notuðu tónlist við ýmiss konar trúarathafnir og Konfúsíus áleit að tónlist túlkaði "samhljóman himins og jarðar". Í hinni ævagömlu Bók breytinganna, I Ching, er minnst á forna konunga sem léku tónlist með viðhöfn fyrir "hinn æðsta guð og buðu forfeðrum sínum að vera nærstöddum." Enn þann dag í dag nota töfralæknar ýmissa "frumstæðra" þjóðflokka trumbuslátt og söng til að koma sér í breytt vitundarástand, tíbetskir búddamunkar kyrja djúpa tóna í krafti trúarinnar að neðstu tónarnir séu næstir Guði, vúdútrúarmenn dansa við ærandi trumbuslátt. Og tónlist er órjúfanlegur þáttur af helgihaldi kirkjunnar.
Aðferðin sem Úlfar beitti var að nokkru í ætt við þá leiðslutónlist er sumir kenna við nýöldina. Þar var slagverksleikur í aðalhlutverki og spilaði Frank Aarnink á það af mikilli smekkvísi. Úr slagverkinu bárust langir hljómar og einfaldar hrynhendingar sem voru sérlega róandi; ýmiss konar rafhljóð juku svo á annarleikann.
Inn á milli slagverksleiksins söng kórinn Hljómeyki nokkra sálma eftir Úlfar, en þeir voru einstaklega fallegir. Tónmálið var hefðbundið en samt ekki; framvindan var svipuð og í tónlist eldri tónskálda en hún var mun afslappaðri, jafnvel hægferðugri en maður á að venjast. Úlfar leyfði sér að staldra við á völdum stöðum og virkaði það líkt og afmarkaður flötur úr málverki eftir einhvern endurreisnarmeistarann hefði verið stækkaður og gerður að sjálfstæðri mynd. Og ekki bara einhver flötur, heldur aðalatriðið; safaríkasti hluti málverksins. Útkoman var býsna áhrifamikil.
Vissulega var ákveðið ósamræmi á milli slagverksins og sálmanna í upphafi. En kannski átti það að vera. Kórverkin, með skírskotun sinni til eldri tónlistar, voru eins og persónugerving hins liðna og tímans almennt; slagverkstónlistin, sem skorti áþreifanlegan takt eða klukknatif, var hins vegar handan við tímann; hugsanlega í hlutverki eilífðarinnar. Þegar kórinn fór að taka þátt í slagverksmúsíkinni undir lok tónleikanna dró úr ósamræminu þar á milli; hið sögulega varð hluti af einhverju "æðra"; tíminn stóð í stað.
Hljómeyki söng afar fallega undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar; helst mátti finna að heldur mjóum karlaröddum sem gerði heildarhljóminn dálítið þurran. En kannski hentaði hófsamur söngstíllinn músíkinni bara betur en ella. Ég var a.m.k. kominn hálfa leið upp til himna í lok tónleikanna!
Jónas Sen