Hörður Bragi Jónsson fæddist á Brekku í Aðaldal 24. maí 1926. Hann lést á Landakotsspítala 30. júní síðastliðinn. Bragi var sonur hjónanna Margrétar Sigurtryggvadóttur, f. 5.3. 1890, d. 1.9. 1968 og Jóns Bergvinssonar, f. 23.1. 1886, d. 19.5. 1958. Systkini Braga eru Bergvin, f. 1.8. 1918, d. 18.6. 1963; Ingvi Karl, f. 16.5. 1920, 2.5. 1998; Elín Rannveig, f. 15.5. 1921; Guðrún, f. 26.4. 1923; Tryggvi, f. 10.3. 1924, d. 2.3. 2001; Þórður, f. 9.9. 1927, d. 14.10. 2004; Áslaug Nanna, f. 22.5. 1929, d. 25.12. 1950 og Kristín, f. 22.7. 1932.

Hinn 24.4. 1952 kvæntist Bragi Guðrúnu Magnúsdóttur, f. 16.5. 1924 og hófu þau sambúð á Brekku í Aðaldal. Guðrún er dóttir Magnúsar Jóns Árnasonar, f. 18.6. 1891, d. 24.3. 1959 og Snæbjargar Aðalmundardóttur, f. 26.4. 1896, d. 27.3. 1989. Börn Braga og Guðrúnar eru: 1) Ragnar, löggiltur rafverktaki, f. 3.2. 1953, kvæntur Kristínu Ólafsdóttur, f. 26.11. 1957. Börn þeirra eru Bragi, f. 17.6. 1978 og Berglind, f. 30.9. 1987. 2) Magnús Jón bifreiðastjóri, f. 7.3. 1954, sambýliskona Hildur Mary Thorarensen, f. 5.12. 1972. Börn þeirra eru Magnús Már, f. 30.5. 2003 og Brynhildur Birta, f. 30.5. 2003. Magnús var kvæntur Brynju Bjarnadóttur og á með henni Huldu Maríu, f. 8.3. 1980, sambýlismaður Sturlaugur Jón Ásbjörnsson, f. 24.12. 1979. 3) Ómar Geir bifreiðastjóri, f. 19.7. 1959, sambýliskona Jónína Vilborg Sigmundsdóttir, f. 7.10. 1968. Börn Jónínu eru Hjörleifur, f. 29.7. 1988, Vilhjálmur Stefán, f. 27.9. 1992 og Heiðrún Björk, f. 17.5. 1995. 4) Sonur Guðrúnar Bjartmar Hrafn Sigurðsson, f. 26.9. 1947, d. 3.5. 2000. Börn Bjartmars og Sólveigar Pálsdóttur eru Ívar Páll, f. 12.6. 1968, sambýliskona Kristín Marti, f. 2.2. 1970. Dóttir Ívars og Sigrúnar Lilju Einarsdóttur er Þorgerður Sól; Ágúst Freyr, f. 15.11. 1969, börn hans og Kristínar Svafarsdóttur eru Arnar Snær, Bjarki Þór og Daníel Freyr; Guðrún Rut, f. 5.1. 1975, dóttir hennar og Sigurðar Bjarna Rafnssonar er Karen Ósk; Sigurður Gýmir f. 15.11. 1976.

Að loknu barnaskólanámi á Laugum í Reykjadal stundaði Bragi bústörf sem kaupamaður á ýmsum stöðum en síðar á Brekku, fyrst með foreldrum sínum en Bragi og Guðrún tóku við búinu 1953. Bragi og Guðrún fluttu suður til Reykjavíkur ásamt ungum sonum sínum árið 1955. Þar vann hann ýmis störf, meðal annars hjá Hörpu og Ölgerðinni. Lengst af var hann þó sölumaður hjá Afurðasölu SÍS (Kjöt og grænmeti) eða frá 1958 og fram til ársins 1991 þegar hann lét af störfum sökum aldurs.

Útför Braga verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Elsku afi minn. Nú er litla skruddan leið. Þrátt fyrir veikindi þín undanfarin ár þá hefurðu alltaf harkað þetta af þér. Stundum á þrjóskunni einni saman gæti maður haldið. Það sást reyndar glögglega þennan síðasta dag að stundum er sálin sterkari en líkaminn, þegar þú beiðst allan daginn eftir Ragnari. Það þarf enginn að segja mér að þú hafir ekki vitað af okkur þarna hjá þér. Og ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið að vera hjá þér þennan dag og kveðja á hinstu stund. Það er svo merkilegt að það er líklega langt síðan við höfum öll setið svona saman fjölskyldan, spjallað og notið samvista hvert annars. Þér tókst að sameina þá sem þú elskaðir og þá sem elskuðu þig. Ég er fegin að þú fékkst hvíldina umvafinn ást og hlýju.

Ég hef eytt síðustu dögum í að róta í huganum, skoða minningarnar okkar saman, hvað er eftirminnilegast. Ég man eftir þér að kveikja í pípunni, úti í garði að gefa fuglunum þegar snjórinn var sem mestur, úti í bílskúr að dútla enda varstu afburða handverksmaður. Það sem stendur þó upp úr er lítil stelpa sem fékk að koma í heimsókn til afa síns í vinnuna, afi fór með litlu skrudduna sína inn í stóra frystinn þar sem var hálfdimmt og kjötskrokkar héngu út um allt. Ekki beint það sem fólk ímyndar sér að börn geri með afa sínum en mér fannst þetta gaman. Og ekki brást að afi lumaði á súkkulaði á eftir, litlum freyjudraum með appelsínubragði eða lakkrís. Undarlegt hvað svona hlutir sitja fastir.

Ég veit að ég var ekki nógu dugleg að koma til þín á spítalann, ég er bara ekki nógu góð í svona spítölum. Kannski er það bara mín afsökun fyrir því að reyna að halda í minninguna um afa minn sem sterkan mann en ekki sjúkling fastan í spítalarúmi, ég veit það ekki. En ég vona að þú vitir að þú varst alltaf í huga mér. Ég kveikti á kerti fyrir þig í stofuglugganum mínum og bað fyrir þér reglulega. Það er mín leið til að takast á við þetta, halda í minningarnar um hið góða. Ég er samt óendanlega þakklát fyrir að hafa komið að heimsækja þig helgina áður en þú kvaddir. Þó það hafi verið stutt stopp þá sannfærðist ég þar um að afi minn eins og ég þekkti hann var ennþá til, jafnvel þótt líkaminn hafi verið orðinn veikari.

Ég veit að þér líður betur þar sem þú ert núna. Án efa hefur fullt af góðu fólki tekið á móti þér. Ég sé ykkur bræðurna fyrir mér, sitjandi saman að rifja upp minningar úr sveitinni og bera saman sögur af spítalanum. Allir saman glaðir og frískir. Þannig vil ég muna þig.

Hulda María.

Elsku afi, nú þegar þú ert farinn í langt ferðalag og við sjáum þig ekki fyrr en á himnum viljum við með hjálp mömmu og pabba aldrei gleyma því hvað þú varst góður og hlýr við okkur systkinin. Við yfirstigum ýmsar hindranir saman. Þegar þú varst orðinn of veikur til að halda á okkur þá héldum við bara aðeins fastar. Þegar við gengum saman þá studdir þú okkur og við studdum þig. Æskan og þroskinn unnu saman á kærleiksríkan hátt. Þú kysstir á okkar bágt og við á þitt.

Elsku afi, við þökkum þér fyrir alla þá ástúð er þú sýndir okkur. Við erum heppin að hafa átt þig að.

Farðu í friði. Guð blessi minningu þína.

Kveðja,

Magnús Már og

Brynhildur Birta.

Elsku afi, ég vil ekki trúa því að þú sért farinn. Upp í hugann koma óteljandi minningar um allar stundirnar sem við áttum saman, flestar þó gamlar, þegar þú varst hraustari. Ég man eftir löngu göngutúrunum okkar um lystigarðinn þar sem þú sagðir mér heitin á öllum plöntunum, og spjöllunum sem við áttum, þú og ég um lífið og tilveruna. Mér fannst alltaf eins og þú hlytir að vita allt vegna þess að það var alveg sama hvert málefnið var, þú gast alltaf fundið svar við spurningunum mínum sem ég skildi. Ég hugsa líka um stundirnar sem við áttum í garðinum þínum að vökva blómin, gróðursetja nýjar plöntur og skoða steinana gaumgæfilega. Ein fyrsta minningin sem ég á af þér er þegar ég er pínulítil og ég sit í fanginu á þér inni í eldhúsi að skoða á þér hendurnar, ég man að ég spurði þig hvers vegna þú værir með svona feita putta af því við hliðina á mínum höndum voru puttarnir þínir feitir og þú svaraðir að þeir væru ekki feitir heldur sverir. En þetta er alveg lýsandi fyrir þig vegna þess að þú elskaðir málið og vildir að ég lærði að nota orðin. Ég man eftir fyrstu vísunni sem þú kenndir mér, þessari um regnbogann og ég man líka þegar við sátum inni í stofu og hlustuðum saman á Bocelli og Pavarotti.

Elsku afi, nú ertu farinn frá mér en ég vona að þú hafir verið hvíldinni feginn vegna þess að það átti ekki við þig að vera veikur, þú varst of sterkur og duglegur til að liggja í rúminu. En nú siturðu örugglega á himnum með pípuna þína og sjóðandi heitt kaffi að dútla við að smíða, skera út eða semja ljóð og horfir niður á okkur hin, vonandi áfram jafn stoltur af okkur og þú varst alltaf.

Berglind.