Eftir Brján Jónasson
brjann@mbl.is
ÁLÖGUR sveitarfélaga á sumarhúsaeigendur hafa margfaldast á undanförnum áratug, að hluta til vegna hækkaðs fasteignamats á sumarhúsum, en einnig vegna tilkomu nýrra þjónustugjalda, og hækkunar á gjöldum sem fyrir eru. Mörg dæmi eru um eldra fólk sem varð að selja bústaði sína vegna þess að það réð ekki við greiðslurnar.
Sveinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Landssambands sumarhúsaeigenda, nefnir sem dæmi að álögur á sumarhúsaeigendur í Bláskógabyggð hafi hækkað um 146% frá árinu 2000. Hann segir félagið hafa heyrt í fjölmörgum einstaklingum, oft eldra fólki sem hafi hugsað sér að eiga áhyggjulaust ævikvöld í sumarhúsum sem það hafi átt áratugum saman, sem ekki ráði við sífellt hækkandi greiðslur á opinberum gjöldum og þurfi að selja bústaðina.
"Það er að hringja í okkur grátandi fólk á efri árum sem lýsir því að það geti ekki staðið í þessu, það sem ætlaði eiga þarna rólegt ævikvöld. Þetta er bara orðið of dýrt fyrir þetta fólk," segir Sveinn. "Ef fram fer sem horfir fer þetta að verða möguleiki auðmannsins að geta verið með sumarhús."
Sorphirðugjald tvöfaldað
Hann nefnir dæmi af 50 fermetra sumarhúsi í Bláskógabyggð þar sem fasteignagjaldið var 12.450 kr. árið 2000, en er var í fyrra 26.940 kr. Á sama tíma hefur sorphirðugjaldið einnig rösklega tvöfaldast, farið úr 3.000 kr. í 6.203 kr. Í fyrra bættist svo við nýtt gjald, svokallað rotþróargjald, sem er 4.900 kr. á ári. Samtals hafa því álögur Bláskógabyggðar á eigendur þessa bústaðar hækkað úr 15.450 kr. árið 2000, í 38.044 kr. árið 2005, eða um 146%.Sveinn segir það versta við þessar auknu álögur það að þjónusta sveitarfélagana við sumarhúsaeigendur aukist ekki í samræmi við hærri gjöld, frekar virðist sem hún sé að versna ef eitthvað er, t.d. hvað varðar sorphirðu.
Fasteignagjald sveitarfélagana er reiknað út frá fasteignamati á sumarhúsunum, sem hefur hækkað gríðarlega undanfarin ár. Sveinn segir dæmi um að fermetraverð á sumarhúsi í Bláskógabyggð og fermetraverð á sérbýli á góðum stað í Skerjafirði í Reykjavík það sama.
Sveitarfélögin reikna fasteignagjöld sín sem hlutfall af fasteignamati, en álagningarhlutfallið er misjafnt. Af 10 milljón króna húsi í Skerjafirðinum eru greiddar 20 þúsund kr. í fasteignagjöld á ári, en af 10 milljón króna sumarhúsi í Bláskógabyggð, þar sem álögurnar eru í hámarki, eru greiddar 60 þúsund krónur á ári, segir Sveinn. Í Grímsneshreppi eru álögurnar öllu minni, eða um 47 þúsund krónur af 10 milljón króna húsi.
"Þetta mikla misræmi milli svæða er algerlega óskiljanlegt. Fólk skilur ekki hverju þetta sætir," segir Sveinn. Hann segir sveitarfélög hafa svarað því til að þau þurfi að leggja á gjöld til að standa undir sínum rekstri. Það skjóti þó skökku við að einstaklingar sem litla sem enga þjónustu fái haldi uppi sveitarfélögunum.
Kostnaður vegna rotþróa þrefaldaður
Sveinn segir sumarhúsaeigendur afar ósátta við hið nýtilkomna rotþróargjald, sem hann segir úr takti við kostnað við tæmingu rotþróa. Áður en gjaldið var sett á þurftu sumarhúsaeigendur að panta sérstaklega tæmingu á rotþróm, og greiða um 5.000 kr. fyrir tæmingu á hverri þró, en að meðaltali eru þær tæmdar á þriggja ára fresti. Í dag greiða sumarhúsaeigendur 4.900 kr. á ári fyrir hvert hús fyrir tæmingu rotþróa, eða 14.700 kr. á hverja tæmingu.Eins segir Sveinn það afar ósanngjarnt að innheimta gjald fyrir hvert sumarhús, en ekki hverja rotþró eins og áður var gert. Þannig sé hagræðið af því að hafa eina rotþró fyrir nokkur sumarhús í eigu félagasamtaka og annarra fyrir bí. Hann nefnir sem dæmi að félagasamtök sem eiga 10 sumarhús með eina rotþró hafi áður þurft að greiða um 5.000 kr. á þriggja ára fresti fyrir tæmingu, en greiði nú 147 þúsund krónur á sama þriggja ára tímabili fyrir eina tæmingu.