GEIR Ómarsson, íbúi í Krummahólum, er orðinn vanur að heyra öskrin í mávum á nóttunni þar sem þeir sveima kringum blokkirnar í Breiðholti í leit að einhverju ætilegu. En í gær kynntist hann bíræfni þeirra svo um munaði.
"Við félagarnir vorum að grilla hér úti á svölum og ég hafði skellt fjórum lærissneiðum á grillið. Ég brá mér innfyrir til að búa til sósuna og skildi grillið eftir opið. Skyndilega verð ég þess áskynja að mávarnir fljúga óvenju nálægt glugganum þannig að ég hleyp út á svalir og sé þá að tvær lærissneiðar eru horfnar af grillinu," segir Geir og tekur fram að þeir félagarnir, hann og Davíð Páll Helgason, hafi ekki getað annað en skellt upp úr. Hann tekur þó fram að eftir þetta hafi hann passað að loka grillinu þegar hann þurfti að bregða sér frá, því mávarnir hafi setið á öllum ljósastaurum allt í kringum húsið og fylgst gaumgæfilega með honum.