Fræ er ein hljómsveitanna sem spila í Herðubreið á lokakvöldi Lunga.
Fræ er ein hljómsveitanna sem spila í Herðubreið á lokakvöldi Lunga.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LISTHÁTÍÐIN LungA á Seyðisfirði fer af stað í sjöunda sinn á mánudaginn næstkomandi og er óhætt að segja að hátíðin í ár sé sú stærsta og glæsilegasta til þessa en hátíðin hefur verið í stöðugum vexti frá því hún var haldin í fyrsta sinn árið 2000.

LISTHÁTÍÐIN LungA á Seyðisfirði fer af stað í sjöunda sinn á mánudaginn næstkomandi og er óhætt að segja að hátíðin í ár sé sú stærsta og glæsilegasta til þessa en hátíðin hefur verið í stöðugum vexti frá því hún var haldin í fyrsta sinn árið 2000. Aðalheiður Borgþórsdóttir, ferða- og menningarmálafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar, hefur verið framkvæmdastjóri LungA frá upphafi. Að hennar sögn er markmið hátíðarinnar að efla áhuga ungs fólks, á aldrinum 16-25 ára, á listum og menningu, virkja þau í listsköpun, efla ímynd Austurlandsfjórðungs og að draga framhaldsskólanemana heim að námi loknu.

"Hvatinn að hátíðinni var fyrst og fremst sá að það þurfti að gera eitthvað fyrir ungt fólk," segir Aðalheiður. Listahátíðin snýst fyrst og fremst um svokallaðar listasmiðjur þar sem ungt fólk fær leiðsögn reyndra listamanna við listsköpun sína sem verður síðan afhjúpuð á uppskerufögnuði sem er jafnframt lokapunktur listahátíðarinnar. Aðalheiður segir að þátttakendur í listasmiðjunni komi víða að og nefnir hún meðal annars að alls 37 ungmenni erlendis frá hafi þegar skráð sig á hátíðina í ár.

Sjö listasmiðjur

Listasmiðjurnar hafa verið margs konar í gegnum árin og að þessu sinni verður ýmislegt á boðstólum. Þarna verður hægt að sækja leiklistarsmiðju þar sem leikarinn Víkingur Kristjánsson mun vinna með grunnatriði í leiklist og spuna en viðfangsefni smiðjunnar er götumenning.

Trommarinn Arnar Þór Gíslason, sem trommar meðal annars með hljómsveitunum Ensími og Dr. Spock, hefur umsjón með stompi, eins konar takt-smiðju þar sem tilraunir eru gerðar með ýmis hljóðfæri eins og tunnur, stálrörbúta úr vélsmiðjunni, holræsisrör, hjólkoppa, járnarusl og hvaðeina sem mönnum dettur í hug að nota til að framkalla hljóð. Bjössi trommari í Mínus mun auk þess aðstoða Arnar við kennsluna.

Hljóðsmiðja verður í höndum Curvers Thoroddsens en hann er eins og flestir vita nánast alfróður um allt sem við kemur hljóði. Hópurinn hans mun fara ótroðnar slóðir, kynnast stafrænum upptökuaðferðum og semja hljóðverk fyrir uppskeruhátíðina. Gospelsmiðjan hlaut mikið lof á hátíðinni fyrir tveimur árum og verður gospelið aftur á boðstólum í ár. Ed Cohen píanóleikari og gospelsöngkonan Pat Randolph frá Bandaríkjunum munu veita leiðbeiningu í ástríðufullum flutningi á trúarlegum textum með viðeigandi spuna og innlifun.

Rithöfundurinn Jón Hallur Stefánsson og Rikke Houd útvarpsþáttagerðarkona stjórna listasmiðju sem ber heitið Hljóðfrásagnir. Þátttakendur fá í hendurnar hljóðnema og upptökutæki og reyna fyrir sér í umhverfisupptökum, vettvangsupptökum og viðtölum og þessar upptökur verða síðan notaðar til að æfa stafrænar klippingar, hljóðvinnslu og hljóðblöndun. Síðan verða kraftar allra þátttakenda sameinaðir kringum eitt meginverkefni, heimilda- eða fléttuþátt þar sem möguleikar hljóðfrásagna eru nýttir.

Sérstök listasmiðja mun standa fyrir ákveðnum vinnubúðum þar sem listir fjölleikahússins verða teknar fyrir. Verkefninu lýkur með því að sett verður upp sýning sem tvinnuð verður saman við aðrar listasmiðjur LungA-hátíðarinnar og allt verður keyrt saman í allsherjar karnival. Kennarar á Northen Circus Culture verða Henna, Ole og Petris sem öll eru útskrifuð úr Cirkuspilotema skóla Cirkus Cirkör í Svíþjóð.

Tónlistarveisla

Einnig verður boðið upp á fatahönnunarsmiðju í umsjón Ríkeyjar Kristjánsdóttur en megináhersla námskeiðsins verður endurnýting gamalla efna og fatnaðar.

Auk listasmiðjunnar verður ýmislegt annað á dagskrá LungA og ber helst að nefna viðamikla tónlistarveislu sem haldin verður í Herðubreið á laugardeginum 22. júlí, að lokinni uppskeruhátíðinni. Hljómsveitirnar sem þarna munu stíga á svið eru Ampop, Ghostigital Fræ, Benny's Crespos Gang, Jeff Who?, Sometime, Bigital Orchestra, Tony the Pony, Miri og Foreign Monkeys. Lunga hlaut Eyrarrósina 2006 fyrir famúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni en verndari Eyrarrósarinnar er forsetafrú Íslands, frú Dorrit Moussaieff.

Nánari upplýsingar um hátíðina má finna á www.lunga.is.