Anthony og Monique Browne hyggjast sigla í mánuð til viðbótar á skútu sinni Quiver.
Anthony og Monique Browne hyggjast sigla í mánuð til viðbótar á skútu sinni Quiver. — Morgunblaðið/Jim Smart
Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson siggip@mbl.

Eftir Sigurð Pálma Sigurbjörnsson

siggip@mbl.is

Í GÆR kom að landi á annan tug breskra skútna frá siglingaklúbbnum The Royal Cruising Club, en þær eru komnar hingað til lands til að fagna því að 150 ár eru síðan breski lávarðurinn Dufferin sigldi til Íslands og annarra landa á ferð sinni um Norður-Atlantshaf árið 1856.

Líklega er óhætt að kalla Dufferin lávarð einn af fyrstu Íslandsvinunum, en hann ferðaðist hingað til lands árið 1856 á skipi sínu Foam. Ásamt því að koma til Íslands sigldi hann víða um Norður-Atlantshafið, m.a. sigldi hann nálægt ströndum Jan Mayen áður en hann heimsótti Hammerfest í Norður-Noregi og Spitzbergen eyju á Svalbarða. Um ferð sína skrifaði hann víðfræga ferðasögu sem nefnist Letter from High Latitude. Bókin er samansafn bréfa sem hann skrifaði til móður sinnar um ferðir sínar og meðal annars segir hann frá heimsókn sinni til Íslands og þá sérstaklega kvöldverði sem hann snæddi hér á landi en þar furðar hann sig á drykkjusiðum Íslendinga, sem virtust vera sískálandi. Bókin kom út í þýðingu Hersteins Pálssonar árið 1944 undir nafninu Ferðabók Dufferins lávarðar og er hún víðþekkt fyrir gamansaman frásagnarstíl.

Afkomandi lávarðarins kemur

Þrátt fyrir að hafa sýnt góð tilþrif í ritsmíðum og bók hans hafi náð umtalsverðum árangri hélt lávarðurinn þeirri braut ekki áfram. Hann sneri sér alfarið að störfum í þágu konungsins í Bretlandi og gegndi meðal annars embætti varakonungs á Indlandi, ríkisstjóra Kanada og sendiherra Bretlands í Frakklandi.

Egill Kolbeinsson, formaður Siglingaíþróttasambands Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið að ásamt skútuáhöfnunum myndi afkomandi lávarðarins, lafði Dufferin, koma hingað til lands til að afhenda þjóðinni gjöf til minningar um ferðir forföður síns. Dagskráin fyrir ferðalangana verður þétt og hefst hún með móttöku á Bessastöðum í dag auk þess sem meðal annars verður farið í Viðey þar sem snæddur verður kvöldverður auk þess sem farið verður Gullna hringinn svokallaða um Gullfoss og Geysi, móttaka verður í breska sendiráðinu auk þess sem ráðgert er að sigla til Hvammsvíkur þar sem grillað verður í landi. Ferð þeirra mun svo ljúka hinn 15. júli þegar þau halda ferð sinni áfram.

Á meðal ferðafélaga er formaður The Royal Cruising Club, Anthony Browne, en hann var ásamt konu sinni, Monique, að skipta um olíu á 49 feta skútu sinni, Quiver, þegar blaðamann bar að garði. Browne-hjónin, sem eru frá bænum Dorsid á Englandi, sögðu að ferðin hefði gengið einstaklega vel en þau hafi siglt síðasta legginn frá Rifi á Snæfellsnesi. Anthony Browne sagði að þau hjónin hefðu lagt úr höfn í Svíþjóð fyrir mánuði og siglt til Noregs, þaðan til Hjaltlandseyja, síðan Færeyja og þaðan til Seyðisfjarðar. Frá Seyðisfirði hafi þau siglt norður fyrir landið og komið við á Húsavík, Akureyri, Grímsey og á Vestfjörðum þaðan sem þau hafi siglt að Rifi.

Afleitt veður í Færeyjum

Spurður um veðrið á leiðinni sagði Browne þau hafa hreppt einstaklega góð skilyrði í kringum landið en hins vegar hefði veðrið í Færeyjum verið afleitt. Browne minntist einnig á mjög fjölbreytt fuglalíf í Grímsey og voru þau hjónin sammála um að hafa sjaldan séð jafnmarga fugla.

Um undirbúning ferðarinnar sagði Browne að hann hefði hafist fyrir tveimur árum, þegar félagsmaður í siglingaklúbbnum hefði áttað sig á þessum tímamótum. Sá hefði þá siglt leið Dufferins og kannað aðstæður, en ferðabóka lávarðarins er mjög þekkt á meðal siglingafólks. Eftir að félagsmaðurinn hafði kannað aðstæður var ákveðið að halda af stað í ferðina við tímamótin, en um 50 manns víðs vegar að úr heiminum eru í klúbbnum. Browne sagði leiðina vera mjög þýða og Browne-hjónin vildu koma á framfæri þakklæti til fólksins í landinu, en það hefði tekið einstaklega vel á móti þeim hvar sem þau hefðu stigið á land á Íslandi.

Leiðrétting 12. júlí - Rangt stöðuheiti

ÞAU leiðu mistök urðu við vinnslu fréttar um komu breska siglingaklúbbsins The Royal Cruising Club að Egill Kolbeinsson var ranglega titlaður formaður Siglingasambands Íslands. Egill er stjórnarmaður sambandsins en Birgir Ari Hilmarsson er formaður. Eru hlutaðeigandi aðilar beðnir velvirðingar á mistökunum.