Stund milli stríða hjá Mezzoforte-mönnum en þeir hafa ferðast mikið undanfarið og meira að segja brugðið sér alla leiðina til Indónesíu.
Stund milli stríða hjá Mezzoforte-mönnum en þeir hafa ferðast mikið undanfarið og meira að segja brugðið sér alla leiðina til Indónesíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
DJASSHÁTÍÐIN í Kaupmannahöfn er djassgeggjurum að góðu kunn. Í ár munu danskir fá að njóta krafta nokkurra færustu tónlistaramanna Íslands. Næstkomandi laugardag, 15. júlí kl.

DJASSHÁTÍÐIN í Kaupmannahöfn er djassgeggjurum að góðu kunn. Í ár munu danskir fá að njóta krafta nokkurra færustu tónlistaramanna Íslands.

Næstkomandi laugardag, 15. júlí kl. 21, mun Mezzoforte koma fram á Nordatlantens Brygge sem er menningarmiðstöð fyrir Færeyjar, Grænland og Ísland. Tríóið Svare/Thoroddsen mun svo leika á sama stað á sunnudeginum 16. júlí.

Þrír áratugir af samstarfi

Á tónleikum Mezzofortes koma fram þeir Eyþór Gunnarsson hljómborðsleikari, Bruno Müller gítarleikari, Jóhann Ásmundsson bassaleikari, Gunnlaugur Briem trommuleikari, Sebastian Studnitzky trompett- og orgelleikari og Óskar Guðjónsson sem leikur á saxófón.

Að sögn Jóhanns mun hljómsveitin leika efni vítt og breitt úr alllangri sögu hljómsveitarinnar á tónleikunum.

"Á næsta ári verða liðin þrjátíu ár síðan við störfuðum og við höfum fullan hug á að starfa áfram." Í því samhengi nefnir Jóhann að stefnt sé að plötuútgáfu til að halda upp á tímamótin að ári, en síðasta plata þeirra Forward Motion kom út árið 2004.

Aðspurður segir Jóhann það alltaf jafn gaman að taka "Garden Party" á tónleikum. "Já, já við tökum það yfirleitt seint á prógramminu hjá okkur. Það er gaman, fólk kemst í gott skap og fer að dansa. Þetta er gamall diskósmellur."

Hljómsveitin hefur verið að spila víðsvegar um Evrópu og komið við í Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi, Sviss, Svíþjóð og Þýskalandi auk Danmerkur. Auk þess léku þeir fyrir skemmstu á Akureyri og hafa tvisvar komið fram í Reykjavík nýverið. Einnig brá bandið sér alla leið til Indónesíu fyrirr skemmstu. Framundan eru tónleikar í Færeyjum 27. júlí og í Úkraínu í Nóvember.

Úr blindbylnum í Öxnadal í birtuna í Kaupmannahöfn

Björn Thoroddsen og Jón Rafnsson munu spila á sunnudeginum eins og fyrr segir, en þeir hafa átt farsælt tríósamstarf bæði í Guitar Islancio og í Tríói Björns Thoroddsens. Í þessu tríói er þriðji maðurinn klarinettuleikarinn Jørgen Svare en tríóið á að baki tvo geisladiska: Jazz airs og Sweet and Lovely , sem gefin var út af Olufsen records.

"Við erum að fara að spila á djasshátíðinni í annað sinn, en spiluðum einnig fyrir tveimur árum", segir Jón bassaleikari. "Þá var mikið um að vera og við lékum á fimm tónleikum víðsvegar um borgina."

Tríóið leikur að sögn Jóns blöndu af eigin efni og djassstandördum, og mun á tónleikunum leika efni af diskunum tveimur. Einnig munu þeir spila lög sem hugsanlega verða gefin út í náinni framtíð.

Svare/Thoroddsen tríó hefur ekki átt jafn langan starfsaldur og Mezzoforte, en á þó sína sögu.

"Við stofnuðum hljómsveitina í blindbyl á Öxnadalsheiðinni", rifjar Jón upp. "Ég hafði reyndar kynnst Jørgenþegar hann kom til Íslands fyrir um tíu árum. Við spiluðum saman og ákváðum að gera eitthvað meira ef tækifæri gæfist til. Svo fékk ég hann til að spila á minningartónleikum um Finn Eydal á Akureyri. Á leiðinni vorum við þrír saman í bíl og það gerði alveg hrikalegt veður. Og á miðri heiðinni í bylnum stofnuðum við semsagt tríóið."

Að sögn Jóns getur stundum verið erfitt að halda samstarfinu gangandi. Allir séu þeir uppteknir í öðrum hljómsveitum, auk þess að vera búsettir í tveimur löndum. Svare/Thoroddsen tríóið hefur þó leikið töluvert að undanförnu, t.a.m. í Danmörku, í Grænlandi, í Bandaríkjunum og hér á landi á Café Rósenberg, á djasshátíð í Garðabæ, Neskaupsstað og á Akureyri.