Þegar sólin fór að skína á sunnudaginn, eftir langvarandi rigningarsudda, mátti sjá ólíklegasta fólk rækta garðinn sinn. Menn slógu gras, klipptu runna, reyttu arfa og snyrtu beð.

Þegar sólin fór að skína á sunnudaginn, eftir langvarandi rigningarsudda, mátti sjá ólíklegasta fólk rækta garðinn sinn. Menn slógu gras, klipptu runna, reyttu arfa og snyrtu beð. Það er trúlegt að sumir hafi mætt til vinnu í gær með harðsperrur í það minnsta í handleggjunum, en útiteknir og ánægðir með afrakstur helgarinnar.

Á Bændamarkaðinum á Hvanneyri sl. laugardag mátti finna sauðaosta, geitaosta, hákarl, harðfisk, grænmeti, andaregg, hvannamarmelaði, rúgbrauð og flatkökur svo eitthvað sé nefnt. Er þá ónefnt kiðlingakjöt sem var á boðstólum. En Borgfirðingar og aðrir sem leið áttu um virtust kunna vel að meta framtakið, stöðugur straumur fólks lá um svæðið og salan var blómleg. Konur í kvenfélaginu 19. júní, stóðu við og bökuðu pönnukökur sem jafnharðan voru borðaðar, aðallega af litlum munnum. Og krakkarnir í danshópnum frá Kleppjárnsreykjaskóla seldu rabarbara og rabarbarapæ, til styrktar dansferðalögum sínum, en þau hafa staðið sig sérstaklega vel í danskeppnum, heima og erlendis.

Á tjaldstæðinu að Fossatúni mátti líta fjöldann allan af hústjöldum, tjaldvögnum og fellihýsum um helgina. Veðurstofan hafði spáð besta veðrinu á suðvesturhorninu svo margir skruppu í Borgarfjörðinn í útilegu. En sólin lét ekki sjá sig fyrr en í helgarlok þannig að sumir gáfust upp á að bíða og færðu sig sunnar á landið. Hins vegar væsir ekki um neinn á Fossatúni, því þar er aðstaðan til fyrirmyndar.

Fréttaritari sá tilsýndar að margmenni var í útibúi KB banka í Borgarnesi um helgina. Verið var að taka upp mynd og fregnaðist að Helga Braga leikkona var á tökustað ásamt starfsfólki og viðskiptavinum sem þóttu hafa leikræna tilburði til að bera. Leiksviðið var hin nýju húsakynni KB banka í Borgarnesi. Hvað út úr þessu kemur fékkst ekki uppgefið.