Á sunnudag lauk um mánaðarlangri knattspyrnuveislu í Þýskalandi þegar Ítalir og Frakkar mættust í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Berlín. Keppnin hefur farið vel fram og verið gestgjöfunum til sóma.
Á sunnudag lauk um mánaðarlangri knattspyrnuveislu í Þýskalandi þegar Ítalir og Frakkar mættust í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar í Berlín. Keppnin hefur farið vel fram og verið gestgjöfunum til sóma. Flestir Þjóðverjar hafa opnað faðm sinn fyrir fjölþjóðlegu liði knattspyrnuunnenda svo að mikill sómi hefur verið að. Inn á milli hafa þó verið svartir sauðir, á borð við þá sem réðust á ítalska veitingastaði í kjölfar ósigursins gegn Ítölum í undanúrslitunum í síðustu viku. Þýsk stjórnvöld hafa haft sérstakar gætur á öfgamönnum úr röðum nýnasista og komið í veg fyrir að þeim tækist það ætlunarverk sitt að vekja athygli á málstað sínum á meðan Þýskaland er í sviðsljósi fjölmiðla heimsins. Má segja að umræddir nýnasistar séu einkennilegar eftirlegukindur sögunnar, sem í niðurlægingu sinni leita í öfgahyggju nasista til að finna fótfestu í flóknum veruleika nútímamannsins. Þessi tilhneiging er þeim mun sérkennilegri í ljósi þess að ungir Þjóðverjar finna nú til stolts yfir því að tilheyra þessari merku þjóð, sem hægt og bítandi sökk ofan í fen öfgafullrar þjóðernishyggju á millistríðsárunum. Þetta nýfundna stolt, sem löngum var barið niður í skömm yfir helför nasista, á sér eðlilegar rætur. Þýskaland nútímans er merkilegt land sem hefur upp á margt að bjóða. Þjóðin er vel menntuð og menningin heillandi. Á sögu landsins eru margar áhugaverðar hliðar og Víkverji gat ekki annað en brosað þegar hann var staddur í borginni Trier á dögunum. Þannig var að Víkverji var staddur skammt frá fæðingarstað stjórnmálaheimspekingsins Karl Marx í Trier, þar sem hópur Kínverja hafði safnast saman í virðingu við manninn sem skilgreindi heiminn út frá stéttaátökum. Augljóst var að mikil lotning var borin fyrir höfundi Auðmagnsins sem svo mikil áhrif hafði á pólitíska umræðu á Íslandi á liðinni öld. Hitt er annað mál og alvarlegra að vinsældir hans í Kína eru ekkert gamanmál, enda stjórnin í Peking ógnarstjórn.