BREIÐHOLTIÐ verður fyrsta hverfið í Reykjavík sem tekið verður í gegn í sérstöku hreinsunarátaki borgarinnar, undir yfirskriftinni Fegrum Reykjavík. Vilhjálmur Þ.

BREIÐHOLTIÐ verður fyrsta hverfið í Reykjavík sem tekið verður í gegn í sérstöku hreinsunarátaki borgarinnar, undir yfirskriftinni Fegrum Reykjavík. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, ætlar að funda með Breiðhyltingum annað kvöld, en hreinsunin sjálf mun fara fram í hverfinu laugardaginn 22. júlí.

"Við segjum sóðaskapnum stríð á hendur," segir Vilhjálmur, sem telur borgarbúa langþreytta á óhreinni borg. Ætlunin er að fá borgarbúa í lið með starfsmönnum borgarinnar í því að snyrta hverfin; tína rusl, hreinsa veggjakrot, leggja torfur, laga net á fótboltamörkum, kantskera, sópa og bæta girðingar.

"Við byrjum þetta sérstaka átak í Breiðholtinu, en höfum reyndar verið að herða á hreinsun og fegrun borgarinnar allrar á undanförnum vikum frá því sem áður hafði verið ákveðið, og ég vona að borgarbúar hafi tekið eftir því," segir Vilhjálmur. Hann segir að þótt áherslan sé á Breiðholtið að þessu sinni séu íbúar allra hverfa hvattir til að hreinsa til í sínu hverfi.

Ætlunin er svo að fara í samskonar átak í öllum öðrum hverfum borgarinnar. Vilhjálmur segir að hægt verði að hreinsa a.m.k. eitt annað hverfi í sumar, en þau sem ekki tekst að komast í verði tekin fyrir síðar. "Við ætlum að halda áfram, og vera með áhersluna á fegrun og hreinsun borgarinnar."

Bæklingi með upplýsingum um átakið var dreift í Breiðholtinu í gær, en bæklingurinn var bæði á íslensku, ensku og pólsku. Vilhjálmur segir Reykjavík alþjóðlega borg, og því verði að leggja sig fram við að ná til allra borgaranna, svo sem flestir viti hvað standi til og geti tekið þátt.