Zinedine Zidane var valinn besti leikmaður keppninnar.
Zinedine Zidane var valinn besti leikmaður keppninnar. — Reuters
ALLIR eru auðvitað með það alveg á hreinu hverju þeir mega aldrei missa af í sjónvarpinu. Ljósvaki er þó sannfærður um það að flestir vita líka alveg jafn vel hvað þeir vilja alls ekki horfa á.

ALLIR eru auðvitað með það alveg á hreinu hverju þeir mega aldrei missa af í sjónvarpinu. Ljósvaki er þó sannfærður um það að flestir vita líka alveg jafn vel hvað þeir vilja alls ekki horfa á. Það dagskrárefni sem Ljósvaki hefur forðast hvað mest í gegnum tíðina er fótbolti. Hefur aldrei skilið þá sem sitja eins og límdir fyrir framan skjáinn yfir leikjum helgarinnar, stundum meira að segja löngu eftir að úrslit þeirra eru kunn. Að þessu hefur kveðið svo rammt að fram á þetta vor hafði Ljósvaki aðeins einu sinni á ævinni horft á heilan fótboltaleik - einungis til að þóknast hollenskum vini sínum sem var gestkomandi hjá honum.

Í heimsmeistarakeppninni sem lauk í fyrrakvöld kviknaði þó einhver neisti í brjósti Ljósvaka. Neistinn varð að nægilegu báli til þess að heilir þrír leikir hlutu náð fyrir augum hans í bókstaflegum skilningi. Meira að segja vaknaði áhuginn fyrir boltanum svo rækilega að leitað var á náðir fótboltafróðra manna til að átta sig á regluverki leiksins sem hafði fyrir löngu ryðgað fast í glatkistu hugarfylgsnanna. Það var því ekki um það að ræða að missa af lokaleik HM að þessu sinni, heldur var beinlínis brunað úr "dulitlu dragi" og flugnasuði austan úr Þingvallasveit, beint til Reykjavíkur í tæka tíð fyrir leikinn í Berlín.

Um leikinn og áhrif hans þarf ekki að segja annað en það að Ljósvakinn er enn miður sín yfir tapi sinna manna og hegðun hetjunnar Zidane á vellinum. Ljóst er að sameiningarmáttur knattspyrnunnar er ótrúlegur; og gengur þvert á öll mæri. Það verður því ekki kvarta í bráð þótt fótbolti ryðji öðru dagskrárefni út - í það minnsta ekki ef jafnharmþrunginn hetjuskapur ríkir á vellinum og á sunnudagskvöldið.

Fríða Björk Ingvarsdóttir

Höf.: Fríða Björk Ingvarsdóttir