37. Ólympíuleikarnir í eðlisfræði voru settir á sunnudaginn með glæsilegri opnunarhátíð að viðstöddum menntamálaráðherra Singapore í hátíðarsal Nanyang-tækniháskólans.

37. Ólympíuleikarnir í eðlisfræði voru settir á sunnudaginn með glæsilegri opnunarhátíð að viðstöddum menntamálaráðherra Singapore í hátíðarsal Nanyang-tækniháskólans. Fjölmörg skemmtiatriði voru flutt milli þess sem forsvarsmenn eðlisfræðileikanna fluttu ávörp sín og keppendur gengu yfir sviðið í fylgd leiðsögumanna sinna. Menntamálaráðherra Singapore gerði í sinni ræðu að umræðuefni fjölbreytileika keppenda í litarhætti og klæðnaði sem þó stefndu allir að sama marki.

Fjöldi þátttakenda á þessum eðlisfræðileikum er sá mesti í 38 ára sögu leikanna, 386 keppendur frá 81 landi sem þó er nokkru minni en stefnt var að. Meðal keppendanna eru aðeins 28 stúlkur en athygli vakti að í liði Kúveit voru eingöngu stúlkur. Keppendur og fararstjórar hafa nú verið aðskildir þar sem gestgjafarnir eru byrjaðir að kynna verkefnin. Í samræmi við þetta hafa farsímar keppendanna verið teknir í gæslu svo og fartölvur þeirra en verður skilað að loknu verklegu keppninni á miðvikudag.

Fararstjórarnir áttu langan vinnudag því auk þess að karpa við gestgjafana um orðalag og stigagjöf fram til miðnættis þurftu þeir að þýða verkefnin af ensku yfir á móðurmál keppendanna. Sú vinna tók drjúgan hluta nætur og voru þeir síðustu að skila af sér þýðingunum undir morgun þegar von var á keppendunum til að glíma við verkefnin. Eitt af dæmunum þremur var um afstæða lengd stangar, annað um þyngdaráhrif í bylgjuvíxlamæli en hið þriðja var nokkur dæmi um eðlisfræði í daglegu lífi. Í kvöld bíður næturvinna fararstjóranna þegar þeir fá ljósrit af lausnum nemenda sinna sem þeir þurfa að gefa einkunn fyrir.