"ÞETTA er satt! Við erum heimsmeistarar," mátti lesa á forsíðu ítalska blaðsins Gazzetta dello Sport í gær. Ítölsku blöðin áttu erfitt með að finna nógu sterk lýsingarorð eftir að ítalska landsliðið varð heimsmeistari í knattspyrnu í Berlín á sunnudagskvöld. Þau gera hins vegar mikið úr mótlæti ítalska liðsins í gegnum keppnina.
Fáir hafi búist við að Ítalir mundu vinna og jafnvel enn færri vildu að þeir sigruðu. Óveðursský hafi hrannast upp þegar Alessandro Nesta meiddist og Daniele De Rossi fékk fjögurra leikja bann fyrir að gefa leikmanni Bandaríkjanna, Brian McBride, olnbogaskot. Til að kóróna það hefur spillingarmálið fræga hangið yfir ítalskri knattspyrnu í allnokkurn tíma og athyglin sem beinst hefur að ítalskri knattspyrnu undanfarið eingöngu verið á neikvæðu nótunum.
"Þeir kaldhæðnu halda því eflaust fram að stjörnurnar með félögunum fjórum sem sæta ákærum hafi hlaupið um á vellinum í leit að nýjum samningi," sagði á forsíðu Corriere della Sera . "Ekki við. Við teljum að eftir allar hleranirnar, ásakanirnar og svindlið, hafi hver einasti landsliðsmaður mætt til Þýskalands í mánuð og leikið eins og þegar þeir voru strákar á götum Ítalíu. Þegar knattspyrna var draumur, ekki brask."
Athyglin beinist að Zidane
Frönsku fjölmiðlarnir fjalla að mestu leyti um brottrekstur Zinedine Zidane í leiknum en viðbrögðin voru misjöfn. "Eilíf eftirsjá," var fyrirsögn L'Equipe sem fordæmdi árásina og ávarpaði hann í föðurlegum tón. "Zidane, það erfiðasta sem þú þarft að gera í dag er ekki að útskýra að liðið, þitt lið, tapaði í úrslitaleiknum sem þið hefðuð getað unnið, heldur er það að útskýra fyrir þeim milljónum barna víðs vegar um heiminn hvað fékk þig til að veitast að og skalla Marco Materazzi." Og blaðið hélt áfram að ávíta hann. "Meðan leikurinn stóð yfir á Ólympíuleikvanginum í Berlín, var fjöldi sportsíðna skrifaður þar sem þér var líkt við Ali, meistara hringsins, þann besta. En hvorki Ali, Jesse Owens né Pele, þeir leikmenn sem þú varst að ganga í lið með sem goðsagnir íþróttanna, urðu uppvísir að að brjóta reglurnar líkt og þú gerðir." Blaðið gagnrýndi Zidane einnig fyrir að láta sig hverfa í stað þess að hugga félaga sína á vellinum sem töpuðu vítaspyrnukeppninni, eins og sönnum fyrirliða sæmir. "Þú skildir þá eftir, rétt eins og milljónir grátandi barna fyrir framan sjónvarpstækin sín. Þú munt einnig þurfa að útskýra þetta fyrir börnunum þínum."Le Figaro tók ekki eins djúpt í árinni. Sagði að leikurinn hefði endurspeglað keppnina í heild sinni. Erfið byrjun, flottur kafli eftir það áður en rothöggið kom í lokin. Hins vegar hafi þáttur Zidane undir lokin verið óafsakanlegur.