Björgunarmenn við brunninn hreyfil flugvélar sem fórst í Pakistan í gær en enginn farþeganna komst lífs af.
Björgunarmenn við brunninn hreyfil flugvélar sem fórst í Pakistan í gær en enginn farþeganna komst lífs af. — Reuters
Multan. AFP. | Farþegavél af gerðinni Fokker-27 varð alelda þegar hún brotlenti á akri í Pakistan í gær. Fjörutíu og fimm manns fórust í slysinu og enginn komst lífs af.

Multan. AFP. | Farþegavél af gerðinni Fokker-27 varð alelda þegar hún brotlenti á akri í Pakistan í gær. Fjörutíu og fimm manns fórust í slysinu og enginn komst lífs af.

Vélin var á leiðinni til borgarinnar Lahore í austanverðu Pakistan þegar hún brotlenti skömmu eftir flugtak frá flugvelli í borginni Multan í miðhluta landsins. Vélin fórst um fimm kílómetra frá miðborginni.

Ekki var vitað um orsök slyssins. Embættismaður á staðnum sagði þó að reynt hefði verið að lenda vélinni á akrinum vegna bilunar en hún hefði rekist á rafmagnslínu.

Annar embættismaður í Multan sagði að sjónarvottar hefðu séð eld í vélinni eftir flugtakið. "Svo virðist sem vélin hafi brotlent vegna einhvers konar bilunar þar sem nokkrir sjónarvottar segjast hafa séð blossa í vélinni eftir að hún fór á loft frá flugvellinum. En við vitum ekki hvað olli slysinu."

Vélin var í eigu flugfélagsins Pakistan International Airlines. Flugfélagið hafði sætt gagnrýni fyrir að nota of gamlar Fokker-vélar í innanlandsflugi. Ákveðið hafði verið að leggja vélunum og kaupa nýjar flugvélar.