FL-Group og Baugur gagnrýna fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna en það er næststærsti lífeyrissjóður landsins.
FL-Group og Baugur gagnrýna fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna en það er næststærsti lífeyrissjóður landsins. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is FYRIRTÆKI geta ekki stofnað eigin lífeyrissjóði fyrir starfsmenn sína þar sem þau eru bundin af kjarasamningum sem fela í sér greiðslu í ákveðinn lífeyrissjóð.
Eftir Höllu Gunnarsdóttur halla@mbl.is

FYRIRTÆKI geta ekki stofnað eigin lífeyrissjóði fyrir starfsmenn sína þar sem þau eru bundin af kjarasamningum sem fela í sér greiðslu í ákveðinn lífeyrissjóð. Hugmyndin er því óframkvæmanleg eins og umhverfið er núna. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar hafa einnig gagnrýnt slíkar hugmyndir.

Fregnir hafa borist af því að Baugur og FL Group séu að kanna möguleika á stofnun sérlífeyrissjóðs fyrir starfsmenn sína sem eru 3-4.000 talsins. Ástæðan er óánægja með fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem reyndi nýverið, án árangurs, að selja hlut sinn í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka. Baugur og FL-Group eiga bæði hlut í Straumi-Burðarási.

Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, segir ástæðuna fyrir tilraun til sölu á hlutabréfum í Straumi-Burðarási hafa verið að átök milli blokka hafi hækkað hlutabréfaverðið. Sjóðurinn hafi því viljað kanna hvort kaupandi fyndist, fremur en að lenda í átökum. "Það er ekki vilji okkar að standa í illdeilum við fyrirtæki og auðvitað má gagnrýna ákvarðanir lífeyrissjóða. Mér þætti þó eðlilegra að menn beittu sér innan rammans sem þeir hafa og færu lýðræðislegar leiðir."

Um 1.400 milljarða eignir

Stjórnir lífeyrissjóða eru venjulega skipaðar fulltrúum atvinnurekenda að helmingi til og fulltrúum stéttarfélaga að helmingi. Gunnar Páll segir sér gremjast hótanir Baugs og FL Group og bendir á að þetta myndi snerta fleiri lífeyrissjóði enda þótt meirihluti starfsmanna fyrirtækjanna sé í Lífeyrissjóði verslunarmanna. "Út frá hinum almenna launþega séð er mikilvægt að gera skýr skil milli þeirra sem þú vinnur hjá og eftirlaunasparnaðarins, svo fólk sé ekki með öll eggin í sömu körfu," segir Gunnar Páll og bætir við að reynsla af fyrirtækjasjóðum úti í heimi sé mjög misjöfn. T.a.m. hafi starfsmenn stórfyrirtækisins Enron misst lífeyrisréttindi sín þegar fyrirtækið varð gjaldþrota. "Við búum við allt aðrar aðstæður en t.d. í Bandaríkjunum. Þar eru stærstu lífeyrissjóðir í heimi en þeir eiga vel innan við 1% í stórum amerískum fyrirtækjum. Hér á landi er þátttakan miklu meiri."

Um mikla fjármuni er að ræða en í árslok 2005 voru eignir 42 lífeyrissjóða landsins 1.200 milljarðar króna og eru líklega nálægt 1.400 milljörðum í dag. Lífeyrissjóður verslunarmanna er næststærstur og segir Gunnar Páll hann eiga um 200 milljarða.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir fyrirtækjasjóði hafa verið starfandi á árum áður en að þeir hafi ekki reynst hagkvæmir í rekstri. "Ef það væru starfandi mjög margir fyrirtækjasjóðir yrðu þeir allir það litlir að aldrei næðist sama hagkvæmni í rekstri þeirra eins og þegar þeir eru stærri," segir Vilhjálmur og bætir við að réttindi og iðgjöld yrðu mismunandi milli sjóða. "Síðan er það þannig að fólk skiptir um starf mörgum sinnum á starfsævinni og fyrirtækjasjóðirnir væru að halda utan um réttindi miklu fleiri einstaklinga en borga í sjóðinn."

Vilhjálmur segir hagkvæmnina skipta mestu máli í þessum efnum og ítrekar að álit hans snúist ekki um einstök fyrirtæki heldur um hugmyndina um fyrirtækjalífeyrissjóði almennt. " Eins og staðan er núna eru fyrirtæki og starfsmenn skyldug til að greiða í lífeyrissjóði í samræmi við kjarasamninga," segir Vilhjálmur og bætir við að þess vegna sé hugmyndin um lífeyrissjóði fyrirtækja ekki framkvæmanleg.

Hefð fyrir húsbóndaábyrgð

Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segir að það væri þróun aftur á bak að fyrirtæki stofnuðu eigin lífeyrissjóði. "Í árdaga lífeyrissjóðanna voru þeir iðulega stofnaðir á vegum fyrirtækja, yfirleitt stórra, sem voru að kaupa sig frá húsbóndaábyrgðinni," segir Pétur og vísar til þess að hér áður fyrr hafi bændur ekki getað úthýst vinnuhjúum sem höfðu starfað fyrir þá lengi, þótt þau væru orðin gömul og óstarfhæf. "Það var ákveðið siðalögmál að bóndinn skyldi sjá þeim farborða. Þessi húsbóndaábyrgð fylgdi inn í iðnvæðinguna og mörg fyrirtæki stofnuðu því lífeyrissjóði. Þetta skýrir hvers vegna fyrirtæki greiða iðgjald í sjóðina."

Pétur segir það minnka áhættu launþega að lífeyrissjóðir séu aðskildir fyrirtækjum. "Lífeyrissjóðir gætu annars fjárfest í fyrirtækjum sem að þeim standa. Áhætta launþeganna af vinnuveitenda væri þá enn meiri," segir Pétur og bætir við að eignir lífeyrissjóðanna séu gífurlegar enda renni þangað 12% af launum allra landsmanna.

Pétur segir vafasamt hversu takmarkað lýðræði sé innan lífeyrissjóðanna. Launþegar geti aðeins komist í stjórn í gegnum stéttarfélag og það sé langur vegur. "Menn ættu annað hvort að geta kosið stjórn sjóðanna beint eða greitt atkvæði með fótunum með því að velja sér lífeyrissjóði," segir Pétur.

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, segir þessa hugmynd andvana fædda. "Núverandi kerfi byggir á mjög djúpstæðri sátt milli allra flokka á Alþingi og aðila vinnumarkaðarins," segir Gylfi og bætir við að það sé mjög mikilvægt að launafólk og atvinnurekendur séu þátttakendur í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Stendur ekki til að stofna lífeyrissjóð

"VIÐ ERUM ekkert að skoða stofnun lífeyrissjóðs heldur aðeins að velta fyrir okkur hvernig þetta umhverfi er," segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, stjórnarformaður FL-Group, um fréttir af því að Baugur og FL-Group séu að kanna möguleika á að stofna sérstakan lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn.

Skarphéðinn segir Lífeyrissjóð verslunarmanna hafa unnið gegn hagsmunum Baugs og FL-Group. "Við gerum ráð fyrir að hagsmunir starfsmanna fari saman við hagsmuni fyrirtækja. Lífeyrissjóðir hljóta að eiga að taka afstöðu með ávöxtun sjóðsins og hagsmunum sjóðsfélaga en ekki taka þátt í einhverju valdabrölti í atvinnulífinu eins og þekkt er að þeir [Lífeyrissjóður verslunarmanna] hafa gert."

Skarphéðinn segir hugmyndina um að stofna sérlífeyrissjóð ekkert vera sérstaklega uppi á borðinu en að það kæmi t.d. til greina að hvetja starfsmenn til að greiða í aðra sjóði. Hann gagnrýnir skipan í stjórnir lífeyrissjóða og segir að færa þyrfti það ferli nær þeim sem greiða í sjóðinn. "Þeir sem eiga lífeyrissjóðinn hafa ekkert um það að segja hverjir skipa stjórnina," segir Skarphéðinn og bætir við að það séu hagsmunir fyrirtækja að lífeyrisréttindi starfsmanna þeirra séu sem mest og best. "Þeir sem borga í lífeyrissjóðina eiga þessa peninga."