Guðmundur Magnússon fæddist á Selskerjum í Múlahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu 24. júní 1917. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík miðvikudaginn 28. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Pétursson bóndi, lengst af á Innri-Bakka í Tálknafirði, og síðar verkamaður í Reykjavík, og Björg Guðmundsdóttir ljósmóðir. Systkini Guðmundar eru: Pétur rafvirkjameistari, f. 1916, Kristján, f. 1920, d. 1922, Gunnar skipstjóri, f. 1922, Kristján húsasmíðameistari, f. 1923, d. 1986, Jakob fiskifræðingur, f. 1926, og Sigríður húsmóðir, f. 1928.

Eiginkona Guðmundar er Elísabet Jónsdóttir húsmóðir, f. á Breiðabólstað í Miðdölum í Dalasýslu 11.10. 1924. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Sumarliðason, bóndi og hreppstjóri á Breiðabólstað í Miðdölum, og Guðrún Magnúsdóttir ljósmóðir. Guðmundur og Elísabet gengu í hjónaband 11.6. 1949 og bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík. Börn Guðmundar og Elísabetar eru: 1) Jón læknir, f. 19.9. 1949, kvæntur Mörtu Kjartansdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 6.11. 1951. Börn þeirra eru: a) Ásdís Björg, f. 1971, gift Þóri Erni Ólafssyni, f. 1969. Sonur Ásdísar er Matthías Harðarson, f. 1993, og börn Þóris eru Þórður Axel, f. 1990, og Guðrún Stella, f. 1996. b) Elísabet, f. 1976. c) Kjartan Ari, f. 1979. 2) Björg geðhjúkrunarfræðingur, f. 19.5. 1951. 3) Gunnar Kristinn læknir, f. 21.6. 1957, kvæntur Önnu Guðnýju Björnsdóttur, hjúkrunarfræðingi og ljósmóður, f. 2.3. 1958. Börn þeirra eru Elín Birna, f. 1983, Agnes Björg, f. 1987 og Arnór Gunnar, f. 1993. 4) Örn verkfræðingur, f. 22.9. 1961, kvæntur Ragnhildi Sigurðardóttur þroskaþjálfa, f. 8.12. 1963. Börn þeirra eru Helga, f. 1993, Ísak, f. 1995, og Guðmundur Freyr, f. 1998.

Guðmundur brautskráðist frá Verslunarskóla Íslands 1940. Á árunum 1940-1956 var hann bókhaldari og gjaldkeri hjá Skipasmíðastöð Reykjavíkur og Lárusi Óskarsyni & Co. og síðar skrifstofustjóri hjá Stilli hf. og Vélsmiðjunni Keili hf. Árið 1956 hóf hann störf hjá endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins sem síðar varð Ríkisendurskoðun. Hann var deildarstjóri í Ríkisendurskoðun frá 1964 og skrifstofustjóri 1974-1987, er hann lét af störfum sökum aldurs.

Útför Guðmundar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Tengdafaðir minn, Guðmundur Magnússon, er látinn, áttatíu og níu ára gamall. Guðmundur ólst upp í stórum systkinahópi. Einn daginn kom Sigga systir heim með skólasystur sína úr Húsmæðraskóla Reykjavíkur og þar með voru örlög hans ráðin. Þau rúmlega þrjátíu ár sem ég hef þekkt þau hjón hef ég dáðst að hversu mikið ástríki og samheldni einkenndi samband þeirra. Síðustu árin hefur Elísabet sinnt Guðmundi af mikilli natni og umhyggju og hann launaði henni það með því að gefa henni bros sem ekkert okkar hinna fékk. Andlit hans ljómaði þegar hún gekk inn í herbergið. Bestu stundir dagsins voru þegar hún var hjá honum og var hún óþreytandi að koma við, á hinum ýmsu tímum dags, eftir að hún flutti að Árskógum og hann í Skógarbæ.

Við áttum skemmtilegar stundir á ferð um landið og ávallt var tengdamamma með forláta box með smurðu brauði. Það var alltaf jafnspennandi að vita hvað væri á bökkunum.

Hugurinn reikar til Þingvalla þar sem foreldar okkar Jóns áttu sumarbústað með Gunnari bróður Guðmundar. Þar var oft glatt á hjalla. Farið í gönguferðir og báturinn tekinn og siglt til Sandvíkur eða dorgað. Mér er sérstaklega minnisstætt að einn sænskur vinur okkar hafði beðið okkur að útvega svarta möl í listaverk, við vorum búin að fara á ýmsa staði að leita, en svo þegar ég stóð með stöngina við vatnið þá var þar kominn sandurinn sem hann hafði beðið um, á ströndinni okkar á Þingvöllum. Sumarbústaðurinn á Þingvöllum var ekta sumarbústaður, opnaður á vorin og lokað á veturna. Þá voru sængur hengdar upp á band og stórt rúgbrauð sett á blað á gólfið fyrir mýsnar. Vatninu var dælt upp í hús frá Þingvallavatni, eldað á gasi og hitað upp með kamínu. Stundum kom steinn í leiðsluna frá vatninu og þá þurfti að gera við. Öllu þessu stjórnaði tengdapabbi með festu og rólyndi.

Honum var oft strítt á því að hann kunni ekki að reka nagla, en það var vegna þess að hann kallaði ávallt á Kristján bróður sinn þegar vinna þurfti smíðaverk á heimilinu. Tengdapabbi hló að þessu og sagði að best væri að láta fagmenn um verkið.

Með hlýhug og þakklæti í hjarta þakka ég samfylgdina. Elsku Elísabet, megi Guð styrkja þig á þessum tímamótum í lífi þínu.

Ég vil þakka starfsfólki Skógarbæjar umönnun hans síðastliðin ár og einnig alúð og umhyggju í garð fjölskyldunnar.

Marta Kjartansdóttir.

Elsku afi, við systkinin viljum minnast þín með nokkrum orðum.

Þegar við vorum lítil vorum við oft í pössun heima hjá ömmu og afa í Hamrahlíðinni. Það var alltaf rólegt og þægilegt að koma til afa og ömmu og allt í föstum skorðum. Dagurinn byrjaði í sundlaugunum og svo kom afi alltaf heim í hádeginu, amma sauð ýsu og svo var sest til borðs og hlustað á hádegisfréttirnar. Enn í dag minnumst við þeirra tíma með bros á vör þegar við heyrum stefið í hádegisfréttunum. Ef tími gafst til þá tefldi afi oft við okkur áður en hann fór aftur í vinnuna og amma prjónaði og spjallaði við okkur á meðan. Á sunnudögum var iðulega farið í læri í Hamrahlíðina. Á meðan amma kláraði sósuna rölti afi með okkur að kaupa gos í glerflöskum. Við horfðum svo spennt á hann blanda Malti og appelsíni í grænu könnuna.

Oft lá leið okkar í sumarbústaðinn á Þingvöllum, þaðan eigum við sérstaklega ljúfar minningar um afa okkar. Hann kenndi okkur m.a. að þræða maðk á krók og veiða silung í Þingvallavatni og keppt var um stærsta fiskinn. Oft fór hann með okkur út á vatnið á bátnum Flugunni og afi passaði vel upp á að allir væru í björgunarvestum og öruggir í bátnum. Við eigum öll mjög góðar minningar úr bústaðnum með fjölskyldunni.

Afi Guðmundur var mjög fróður og vel lesinn. Hann hafði mjög gaman af því að ræða þjóðmálin við okkur og sýndi mikinn áhuga á skólamálum okkar. Hann sýndi ávallt því sem við vorum að gera mikinn áhuga þar til minnið fór að bregðast honum. Afi var góður og hlýr maður sem vildi öllum vel í kringum sig og við munum minnast hans þannig.

Elsku afi, þú áttir langa og góða ævi þar til líkaminn fór að bregðast þér. Amma hefur staðið við hlið þér eins og klettur og hefðir þú ekki getað valið þér betri lífsförunaut. Þú skilur eftir þig stóra, samhenta og góða fjölskyldu sem mun ávallt minnast þín með hlýhug.

Elsku amma, pabbi, Björg, Gunnar og Örn, megi Guð geyma okkur öll á þessari sorgarstundu.

Þín barnabörn,

Ásdís Björg, Elísabet

og Kjartan Ari.

Nú er afi farinn frá okkur og kominn á betri stað. Þótt sá staður sé ekki lengur hjá okkur þá er gott að vita að hann hefur það betra núna.

Við minnumst allra góðu stundanna sem við áttum með honum. Fjölskyldan var honum mjög mikilvæg og var gaman að sjá hvað samband hans og ömmu var alltaf fallegt.

Hann var okkur barnabörnunum ávallt mjög góður og þolinmóður og hafði alltaf tíma fyrir okkur þegar við komum í heimsókn. Hann kenndi okkur ýmis spil og kapla og ef okkur leiddist einhvern tímann fórum við bara til hans og báðum hann um að spila við okkur. Hann sagði okkur líka sögur, aðallega af því þegar hann var lítill drengur á Vestfjörðum.

Þegar við komum í heimsókn spurði hann okkur frétta og hlustaði á okkur lýsa deginum okkar fyrir sér. Jafnvel þegar hann var orðinn veikur fundum við hvað glaðnaði yfir honum þegar við kíktum í heimsókn og röbbuðum um daginn og veginn.

Þið eruð meira en líkaminn, annað en hús ykkar og eigur.

Hið sanna sjálf dvelst ofar fjöllum og svífur á vængjum vindanna.

Það er ekki eitthvað, sem skríður inn í hlýju sólskinsblettanna eða grefur holur inn í myrkrið í leit að öryggi.

Það er eitthvað frjálst; andi, sem leiðir þróun jarðarinnar og stjórnar himninum.

(Spámaðurinn, Kahlil Gibran)

Við vitum að nú er elsku afi okkar hjá guði og kveðjum hann í hinsta sinn.

Elín Birna, Agnes Björg

og Arnór Gunnar.

Kveðja frá Ríkisendurskoðun

Guðmundur Magnússon, fyrrverandi skrifstofustjóri í Ríkisendurskoðun, er í dag til moldar borinn en hann lést í Reykjavík 28. júní sl., 89 ára að aldri.

Guðmundur útskrifaðist frá Verslunarskóla Íslands árið 1940. Áður en hann hóf störf hjá hinu opinbera vann hann við bókhalds-, gjaldkera- og skrifstofustörf hjá nokkrum fyrirtækjum í Reykjavík. Guðmundur var skipaður fulltrúi hjá endurskoðunardeild fjármálaráðuneytisins 15. september 1956 en deildin var forveri Ríkisendurskoðunar. Hinn 1. júní 1964 var hann ráðinn deildarstjóri hjá Ríkisendurskoðun og loks skrifstofustjóri hinn 1. nóvember 1974. Því starfi gegndi Guðmundur til ársins 1987 en þá lét hann af störfum fyrir aldurssakir eftir rúmlega 30 ára starf.

Guðmundur bjó yfir flestum þeim kostum, sem prýða góðan embættismann. Auk þess að vera mjög fær í sínu starfi var hann notalegur yfirmaður, enda bæði hæglátur og ljúfmannlegur í fasi og viðmóti þó hann gæti verið fastur fyrir þegar og ef á reyndi.

Á löngum starfsferli voru Guðmundi falin fjölmörg viðfangsefni til úrlausnar á sviði fjársýslu ríkisins, bæði innan stofnunarinnar og utan hennar. Sem skrifstofustjóri hafði hann með innri málefni stofnunarinnar að gera og var helsti samstarfsmaður Halldórs heitins Sigurðssonar, fv. ríkisendurskoðanda. Meðal annars gegndi Guðmundur starfi ríkisendurskoðanda um nokkurra mánaða skeið á árinu 1980 í veikindaforföllum Halldórs. Guðmundur annaðist sjálfur eða hafði umsjón með endurskoðun fjölmargra málaflokka á sínum tíma. Má þar nefna fjárreiður utanríkisþjónustunnar og ársreikninga flestra fyrirtækja í eigu ríkisins.

Guðmundur naut virðingar og vináttu fyrrum samstarfsmanna sinna og geyma þeir góðar minningar um hann. Ekki er við þetta tækifæri hægt að láta hjá líða að minnast eftirlifandi eiginkonu hans, Elísabetar Jónsdóttur, en hún tók ásamt honum jafnan virkan þátt í félagslífi innan stofnunarinnar. Við þau tilefni fór ekki fram hjá neinum hve mikla virðingu og vináttu þau hjónin auðsýndu jafnan hvort öðru. Á meðan heilsan leyfði sýndi Guðmundur sínum gamla vinnustað og samstarfsfólki ræktarsemi með því að heimsækja það og gera sér glaðan dag með því þegar svo bar undir.

Um leið og ég fyrir hönd fyrrum samstarfsfólks hans hjá Ríkisendurskoðun kveð Guðmund Magnússon þakka ég honum gifturík störf í þágu stofnunarinnar. Frú Elísabetu, börnum þeirra og fjölskyldu allri er vottuð dýpsta samúð.

Blessuð sé minning Guðmundar Magnússonar.

Sigurður Þórðarson

ríkisendurskoðandi.