Sigursteinn Snorrason fæddist í Reykjavík 1975. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund, íþróttakennaranámi frá KHÍ 2000, og meistaragráðu frá aðalstöðvum taekwondo í Kóreu 2002. Sigursteinn hefur kennt taekwondo frá 1996, bæði á Íslandi og í Kóreu. Hann var þjálfari landsliðs Íslands á árunum 1997-2001 og 2003-2004. Sambýliskona Sigursteins er Magnea Kristín Ómarsdóttir kennari og eiga þau þrjú börn.
Taekwondo-íþróttin er í örum vexti hérlendis og stunduð jafnt af ungum sem öldnum. Meistari Sigursteinn Snorrason fer fyrir Dojang dreka, sem er samband átta taekwondo-deilda á Íslandi:
"Í sumar bjóðum við upp á sumarnámskeið fyrir krakka sem komnir eru nokkuð áleiðis í íþrottinni. Hvert námskeið varir í tvær vikur og stunda börnin, sem koma úr öllum félögum, æfingar undir leiðsögn þjálfara í þrjá til fjóra tíma hvern dag," segir Sigurstienn. "Sumrin eru oft rólegur tími hjá almennum iðkendum, en þeir sem æfa taekwondo sem keppnisíþrótt eru þeim mun virkari yfir sumartímann og standa æfingar nú yfir af fullum krafti fyrir erlend keppnismót í sumar og haust."
Ævaforn kóresk íþrótt
Taekwondo er upprunnið í Kóreu og saga íþróttarinnar allt að 2000 ára gömul. "Hreyfingarnar sem íþróttin byggist á eru æfafornar og hafa verið kallaðar ýmsum nöfnum í gegnum tíðina en var ekki gefið heitið taekwondo fyrr en árið 1955. Það var síðan ekki fyrr en árið 1987 að iðkun taekwondo hófst fyrir alvöru hér á landi þegar Bandaríkjamaðurinn Stephen Leo Hall setti á laggirnar Dojang Dreka," útskýrir Sigursteinn."Árið 1991 var sett á laggirnar taekwondo-deild innan ÍSÍ og farið að keppa með formlegum hætti. Hefur íþróttin síðan notið sívaxandi vinsælda. Starfa nú á landinu öllu tólf félög og má ætla ætla að virkir iðkendur séu allt að 700."
Sigursteinn segir Taekwondo vera við hæfi allra aldurshópa: "Allsstaðar er tekið vel á móti byrjendum og geta áhugasamir fundið það dojang sem næst þeim er á síðunni www.Taekwondo.is. Það er ráðlegt að byrjendur heimsæki nokkra klúbba því áherslur geta verið mismunandi milli staða. Sumstaðar er lögð meiri áhersla á sjálfsvörn og annarsstaðar er áherslan á ólympískan bardaga. Starfræktir eru barnaflokkar, "Old boys"-flokkar þar sem æfingar eru með öðru sniði og áherslum en í keppnisflokkum."
Agi, styrkur, snerpa og liðleiki
Í barnaflokkum er mikil áhersla lögð á að kenna aga: "Hjá fullorðnum iðkendum snýst íþróttin að stærstu leyti um líkamlega þjálfun þar sem unnið er að auknum styrk, snerpu og liðleika. Þeir sem náð hafa svörtu belti teljast vera komnir nokkuð langt í íþróttinni og skiptast í tvo hópa: þá sem eru keppnisíþróttamenn og æfa iðulega oft á dag, og hina sem leggja meiri áherslu á kennslu íþróttarinnar og heimspeki," segir Sigursteinn.Mikið er lagt upp úr því við æfingar að fyrirbyggja slys og meiðsli: "Í keppni er notaður hlífðarbúnaður en öll þjálfun miðar að því að hindra meiðsli. Iðkendum taekwondo er kennd sjálfsvörn, og að beita henni af hófi. Þá er mikil áhersla lögð á teygjur og upphitun á æfingum til að fyrirbyggja meiðsli enn frekar."