SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn hefur tryggt sér áframhaldandi sýningarrétt á Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, en samningurinn er til þriggja ára.

SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn hefur tryggt sér áframhaldandi sýningarrétt á Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, en samningurinn er til þriggja ára. Samkvæmt upplýsingum frá Sýn mun áskrifendum verða boðið upp á þá nýjung að geta horft á þá leiki sem ekki verða sýndir beint í sjónvarpi, í beinni útsendingu á netinu, og því verða allir leikir Meistaradeildarinnar í beinni útsendingu.

Sýningar frá forkeppni Meistaradeildarinnar hefjast nú í júlí með beinum útsendingum frá völdum leikjum í forkeppninni. Í fyrstu umferð leika meðal annars Íslandsmeistarar FH gegn eistneska liðinu FC TVMK Tallinn, en sú viðureign mun fara fram þann 19. júlí.

Strax í ágúst munu stórlið á borð við Arsenal og Liverpool spila leiki en þau þurfa að fara með sigur af hólmi til að komast inn í sjálfa Meistaradeildina. Deildin sjálf hefst 12. september þegar riðlakeppnin fer af stað. Það er spænska stórveldið Barcelona sem ver titilinn þetta árið, en eins og kunnugt er gekk íslenski landsliðsfyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen í þeirra raðir nýlega.