SUMARBÚÐIR í Skálholti, sem kallast Söngur og sögur, eru ætlaðar börnum 8-13 ára sem búa erlendis og eiga a.m.k annað foreldrið íslenskt og tala íslensku nógu vel til að njóta dagskrárinnar. Nokkur pláss eru laus og öll börn velkomin.
SUMARBÚÐIR í Skálholti, sem kallast Söngur og sögur, eru ætlaðar börnum 8-13 ára sem búa erlendis og eiga a.m.k annað foreldrið íslenskt og tala íslensku nógu vel til að njóta dagskrárinnar. Nokkur pláss eru laus og öll börn velkomin. Börnunum verða kynntir ýmsir þættir íslenskrar menningar og kennd íslensk þjóðlög og skemmtileg nútímalög við leiðsögn tónlistarkennaranna Heiðrúnar Hákonardóttur og Svövu Bernharðsdóttur. Guðrún Ásmundsdóttir leikari segir íslenskar þjóðsögur ásamt Ragnheiði Lárusdóttur bókmenntafræðingi. Þá leiða garðyrkjufræðingar börnin inn í heim íslenskra jurta og þau munu elda þjóðlega rétti með aðstoð Láru Jónsdóttur heimilisfræðikennara. Bændabýlið í Skálholti verður heimsótt og farið í sögugöngu um Skálholtsstað. Bernharður Guðmundsson rektor veitir námskeiðinu forstöðu. Fyrsta námskeiðið af þessu tagi fór fram í fyrrasumar og tókst afar vel og hvöttu foreldrar og börn eindregið til þess að þessu starfi yrði haldið áfram. Námskeiðið hefst eftir hádegið mánudaginn 17. júlí og taka aðstandendur þátt í fyrstu atriðum dagskrárinnar. Því lýkur svo með uppskeruhátíð síðdegis á föstudegi þar sem vandamenn eru líka velkomnir.