Kaíró. AP. | Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, skipaði í gær ríkisstjórn sinni að falla frá því að heimila fangelsun blaðamanna í umdeildu frumvarpi til fjölmiðlalaga.

Kaíró. AP. | Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, skipaði í gær ríkisstjórn sinni að falla frá því að heimila fangelsun blaðamanna í umdeildu frumvarpi til fjölmiðlalaga.

Mubarak sagði stjórninni að sleppa ákvæði um að hægt yrði að fangelsa blaðamenn sem bera brigður á heiðarleika embættismanna og þingmanna í fjármálum. Stjórnin hafði verið sökuð um að reyna að koma í veg fyrir að fjölmiðlar fjölluðu um fjármálaspillingu.

Frumvarp stjórnarinnar fékk ekki nægan stuðning í atkvæðagreiðslu á sunnudag eftir að stjórnarandstaðan hafnaði ákvæðinu um fangelsun blaðamanna.

Mubarak lagði til að í stað þessa ákvæðis yrði kveðið á um hærri sektir fyrir brot á lögunum. Eftir breytinguna eiga blaðamenn þó yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir meiðyrði um forseta Egyptalands eða þjóðhöfðingja annarra landa.

Útgáfa yfir 20 blaða í Egyptalandi var stöðvuð til að mótmæla frumvarpinu og um 300 blaðamenn söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið á sunnudag til að krefjast þess að frumvarpinu yrði breytt. Búist er við að þingið samþykki frumvarpið eftir breytinguna.

Sjö blaðamenn áttu yfir höfði sér saksókn vegna frétta um meinta spillingu embættismanna.